Ljósfari RE 102

973. Ljósfari RE 102 ex Kári Sölmundarson RE 102. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Loðnubáturinn Ljósfari RE 102 er hér við bryggju í Sundahöfn vel hlaðið loðnu en myndin var tekin ca. 1985

Upphaflega hét báturinn Dagfari ÞH 40 og var smíðaður árið 1965 í Boizenburg A-Þýskalandi fyrir bræðurnar Stefán og Þór Péturssyni á Húsavík. 

Árið 1967 fékk fyrirtæki þeirra bræðra, Útgerðarfélagið Barðinn hf., tvö ný skip sem einnig voru smíðuð í Boizenburg en voru ívið  stærri. Þau hétu Náttfari ÞH 60 og Dagfari ÞH 70, fékk þá eldri Dagfari nafnið Ljósfari ÞH 40. 

Ljósfari var 264 brl. að stærð búinn 660 hestafla Lister aðalvél. Hann var endurmældur árið 1969 og mældist þá 207 brl. að stærð

Í janúar 1977 fékk báturinn nafnið Kári Sölmundarson RE 102 en sama ár var það yfirbyggt. Í janúar 1978 var aftur óskað nafnabreytingar á bátnum og fékk hann sitt fyrra nafn, Ljósfari en nú RE 102. Eigandi sem fyrr Útgerðarfélagið Barðinn h/f nú í Kópavogi.

Árið 1979 var Ljósfari lengdur og mældist eftir það 273 brl. að stærð. 1980 var sett í bátinn 1150 hestafla Mirrlees Blackstone aðalvél.

Árið 1987 var Ljósfari seldur Brík h/f á Húsavík sem nefndi bátinn Galta ÞH 320.

Meira um bátinn síðar..

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Dagur ÞH 110

7243. Dagur ÞH 110 ex Bára II SH 227. Ljósmynd Vigfús Markússon.

Dagur ÞH 110 er gerður út frá Þórshöfn af Fles ehf. sem keypti bátinn frá Hellisandi árið 2017.

Þar hét báturinn Bára SH 27 en síðustu mánuðina áður en hann var keyptur norður Bára II SH 227.

Upphaflega hét báturinn Pegron SH 140 frá Stykkishólmi en hann var smíðaður hjá Mark hf. á Skagaströnd árið 1987.

Árið 2006 fékk hann nafnið Reynir Þór SH 140 og var með heimahöfn á Arnarstapa. Árið 2014 var hann kominn í eigu Hjallasands ehf. á Hellisandi sem síðar gaf bátnum nafnið Bára SH 27.

Báturinn var lengdur árið 1998 og aftur 2004 en þá var hann einnig þiljaður. Hann mælist 14,3 BT að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Guðrún Björg ÞH 60

462. Guðrún Björg ÞH 60 ex Geir ÞH 150. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1994.

Ef ég man rétt voru þessar myndir teknar þegar Guðrún Björg ÞH 60 kom til heimahafnar á Húsavík í fyrsta skipti. Það ku hafa verið vorið 1994.

Flóki ehf. keypti bátinn frá Þórshöfn þar sem hann hét Geir ÞH 150 en upphaflega hét hann Glófaxi NK 54. Smíðaður í Danmörku árið 1955 fyrir Sveinbjörn Á. Sveinsson á Neskaupsstað.

Hann átti bátinn til ársins 1969 en í desember það ár keypti Eskey h/f á Hornafirði bátinn og nefndi Eskey SF 54.

Haustið 1982 fær báturinn nafnið Geir ÞH 150 þegar hann var keyptur til Þórshafnar. Þar var hann til ársins 1994 er hann var keyptur af Flóka ehf. til Húsavíkur.

Haustið 1999 keypti Flóki ehf. Dalaröst ÁR 63 af Árnesi hf. og gekk Guðrún Björg upp í kaupin.

Báturinn hét eftir það Guðrún Björg BA 31, Eyjanes GK 131 og síðasta nafn Brokey BA 336.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Baldvin Njálsson GK 400

2182. Baldvin Njálsson GK 400 ex Rán HF 4. Ljósmynd Vigfús Markússon.

Frystitogarinn Baldvin Njálsson GK 400 er í eigu Nesfisks í Garðinum og hefur verið svo frá árinu 2005.

Togarinn var smíðaður í Vigó á Spáni 1990 (1991 segir sum staðar) fyrir Norðmenn og hét upphaflega Grinnøy. Keyptur til Seyðisfjarðar 1992 og kom fyrst til nýrrar heimahafnar 25. ágúst. Togarinn fékk nafnið Ottó Wathne NS 90 og var í eigu samnefnds fyrirtækis. 

Stálskip í Hafnarfirði kaupir togarann snemma árs 1994 og fær hann þá nafnið Rán HF 42. 2005 fær hann svo núverandi nafn þegar Nesfiskur í Garði kaupir togarann.

Eins og kunnugt er þá á Nesfiskur í Garði nýjan Baldvin Njálsson í smíðum í skipasmíðastöðinni Armon í Vigo á Spáni.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Skálafell SH 240

1221. Skálafell SH 240. Ljósmynd Kristjánsson.

Skálafell SH 240 var smíðað úr furu og eik árið 1972 á Siglufirði fyrir þá Gunnar Gunnarsson og Kristján Helgason í Ólafsvík.

Myndin kemur úr safni Helga Kristjánssonar en Kristján faðir hans, annar eigenda, tók myndina.

Báturinn, sem var tæpar 12 brl. að stærð búinn 108 hestafla Powa Marinevél, sökk þann 24. janúar 1974 skammt út af Sandgerði eftir að brotsjór reið yfir bátinn. Áhöfninni, þremur mönnum, var bjargað um borð í Víði II úr Garði.

Nýbúið var að kaupa Skálafellið suður og var það í sínum fyrsta róðri.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hólmaborg SU 11

1525. Hólmaborg SU 11 ex Eldborg HF 13. Ljósmynd Sigmar Ingi Ingólfsson 2003.

Á þessum myndum má sjá loðnuskipið Hólmaborgu SU 11 sigla fram hjá Grindavík vorið 2003, sennilega á heimstími til Eskifjarðar með fullfermi af loðnu.

Myndirnar tók Sigmar Ingi Ingólfsson þá skipverji á Erni KE 13.

Hólmaborg SU 11 hét upphaflega Eldborg HF 13 og var smíðuð fyrir samnefnda útgerð árið 1978 og kom til heimahafnar í Hafnarfirði 30. desember það ár. Hér má lesa nánar um Eldborgina.

Árið 1988 var Eldborg HF 13 keypt til Eskifjarðar þar sem hún fékk nafnið Hólmaborg SU 11.

Árið 1996 var skipið lengt um 14 metra í Gdynia í Póllandi og jókst burðargeta skipsins úr 1.600 tonnum í 2.500 tonn.

Þegar Eskja keypti Aðalstein Jónsson SU 11 árið 2006 fékk Hólmaborgin nafnið Jón Kjartansson SU 111 sem breyttist í SU 311 þegar nýr Jón Kjartansson SU 111 var keyptur frá Skotlandi.

Skipið hefur legið við bryggju undanfarin ár.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Halldór NS 302

2672. Halldór NS 302 ex Óli á Stað GK 99. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Línubáturinn Halldór NS 302 frá Bakkafirði kom til Húsavíkur síðdegis í dag og landaði. Hann er í eigu Halldórs fiskvinnslu ehf. á Bakkafirði sem er í eigu GPG Seafood á Húsavík.

Halldór NS 302 hét upphaflega Óli á Stað GK 99 og var smíðaður í Njarðvík árið 2005. Hann var seldur til Bakkafjarðar árið 2014.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Björgum Blátindi

Ályktun stjórnar Sambands íslenskra sjóminjasafna um Blátind VE 21

347. Blátindur VE 21. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Stjórn Sambands íslenskra sjóminjasafna tekur heilshugar undir með Hollvinafélögum Húna II á Akureyri og Magna í Reykjavík að skora á framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja að falla frá samþykkt um að farga bátnum Blátindi VE 21.

Vestmannaeyjar hafa verið ein stærsta verstöð landsins um aldir enda er þaðan skammt í gjöful fiskimið. Eitt af því sem prýddi bæinn var  Blátindur, sem smíðaður var í Dráttarbraut Vestmannaeyja árið 1947, 45 rúmlestir að stærð, sléttsúðaður eikarbátur, alþilja; meistari: Gunnar Marel Jónsson. Þegar Blátindi var hleypt af stokkunum var hann meðal stærstu og glæsilegustu fiskiskipa í Vestmannaeyjum. Hann var gerður út frá Eyjum til ársins 1959 og síðan frá ýmsum verstöðvum vestan og norðan lands. Þá var Blátindur notaður sem varðskip í Faxaflóa um skeið og var þá búinn fallbyssu.

Árið 1993 lá Blátindur í reiðileysi við bryggju norður í landi og fékkst þá dreginn til Eyja af Landhelgisgæslunni. Þar var hann settur í slipp en ekkert hugsað um hann í nokkur ár. Árið 1998 fóru fram umræður um bátinn og vildu sumir farga honum. Það sem mælti gegn því var að Blátindur væri eini vélbáturinn smíðaður í Eyjum á fyrri hluta 20.  aldar sem eftir væri og í óbreyttu ástandi, jafnvel með sama stýrishúsinu. Auk þess hefði báturinn smíðalag sem einkennandi var fyrir vertíðarbáta smíðaða í Eyjum.

Í september 2001 var stofnað áhugamannafélag um endurbyggingu Blátinds og ákveðið að hraða framkvæmdum svo báturinn yrði afhentur Menningarmálanefnd Vestmannaeyja fullbúinn næsta sjómannadag til varðveislu og sýningar. Það gekk eftir og var sérlega myndarlega staðið að endurbyggingu bátsins. Vorið 2018 var Blátindi komið fyrir hjá Skansinum og átti það að vera endanlegur staður fyrir hann. Hann naut sín vel í fallegu umhverfi en staðurinn var óneitanlega ótraustur, enda hélst báturinn þar ekki á sínum stað nema í hálft annað ár. Næsta skref átti að vera að koma honum í sýningarhæft ástand.

En nú er sú áætlun fyrir bí. Blátindur slitnaði upp frá bryggju í óveðri og sökk í Vestmannaeyjahöfn í febrúar 2020 og var í kjölfarið dreginn á land. Mikið tjón varð á honum eins og vænta mátti.  Sérfræðingur var nýlega fenginn til að meta kostnað við endurbyggingu skipsins. Sú áætlun er afar lausleg, en  skv. henni er kostnaður við að koma Blátindi í sýningarhæft ástand ekki undir hundrað milljónum króna. Jafnframt segir í skýrslu hans að mun dýrara sé að gera Blátind siglingarhæfan, áætlað að sá kostnaður yrði í kringum tvö hundruð milljónir króna. Það sem skortir í þessu samhengi er verk- og kostnaðaráætlun sem rökstyður þær tölur sem fram koma í skýrslunni. Auk þess heldur sérfræðingurinn því fram að verkið sé sérhæft og efniviður illfáanlegur. Því mótmælir stjórn SÍS – einfalt er að kaupa góðan efnivið til bátasmíða og -viðgerða af nágrannaþjóðum okkar. Ennfremur  starfa tréskipasmiðir á Íslandi og víða hefur verið staðið vel og faglega að endursmíði gamalla tréskipa. Má í því sambandi til dæmis benda á Húna II og fjölmörg skip á Húsavík, auk þess sem sjálfstæðir bátasmiðir hafa staðið að viðgerðum og endursmíði trébáta í einkaeigu. Áætlaður kostnaður við förgun skipsins er sagður vera 5 milljónir króna en þeirri tölu fylgir ekki kostnaðaráætlun frekar en öðru í skýrslunni.

Niðurstaða framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja virðist vera að förgun sé eina aðgengilega lausnin. 100 milljónir séu allt of há upphæð til að ráðið sé við hana og þá enn síður 200 milljónir. Ráðinu er þó ljóst að allar ákvarðanir varðandi framtíð Blátinds eru háðar samþykki Minjastofnunar. Blátindur er friðaður á grundvelli aldurs, skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012, og heyrir því undir Minjastofnun Íslands.

Málinu virðist stillt upp á þann veg að sem augljósast sé að farga þurfi Blátindi.

  1. Ábyrgðin á bátnum virðist sett á framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja sem ólíklegt er að hafi hlutverk á sviði minjavörslu og enn ólíklegra er að sé fært um að leggja út háar upphæðir á því sviði.
  2. Stillt er upp kostnaðartölum sem eru nógu háar til að gera verkefnið algerlega óvinnandi. Þær virðast þó ekki byggðar á verk- eða kostnaðaráætlunum.
  3. Því er haldið fram að verkkunnáttu vanti og efniviður sé illfáanlegur – en slíkar staðhæfingar er auðvelt að hrekja.

Augljós niðurstaða framkvæmda- og hafnarráðs virðist því vera förgun skipsins.

Í þessu eins og öðru gildir það að vilji er allt sem þarf. Ein hugmynd sem varpað hefur verið fram er að setja Blátind í gömlu slökkvistöðina í Vestmannaeyjum sem nú mun verið að flytja úr. Þar yrði sett upp sýning um Blátind og sögu hans ásamt sögu skipasmíða og útgerðar í Vestmannaeyjum eftir 1945. Viðgerð á bátnum gæti verið mikilvægur partur af sýningunni og mætti fara fram eftir því sem fjármunir leyfa, jafnvel í allmörg ár. Kostnaður við það væri að sjálfsögðu einhver en ekkert í nánd við þær tölur sem fyrr hafa verið nefndar. Ennfremur mætti sækja um styrki til viðgerðarinnar og líklegt er að sjálfboðaliðar fengjust til verksins að einhverju leyti.

Stjórn SÍS hvetur framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja til að endurskoða ákvörðun sína um förgun skipsins og huga að sögulegu mikilvægi þess og varðveislugildi.

Reykjavík 27. janúar 2021

Helgi Máni Sigurðsson, Borgarsögusafni
Anita Elefsen, Síldarminjasafni Íslands
Inga Hlín Valdimarsdóttir, Byggðasafninu Hnjóti

Hrímbakur í slipp

1472. Hrímbakur EA 306 ex Bjarni Herjólfsson ÁR 200. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

ÚA togarinn Hrímbakur EA 306 er hér í slipp á Akureyri um árið en hann hét upphaflega Bjarni Herjólfsson ÁR 200 og var smíðaður í Póllandi árið 1977.

Hrímbakur EA 306 var 488 brl. að stærð búinn 2200 hestafla Sulser aðalvél.

Útgerðarfélag Akureyringa hf. keypti togarann árið 1985 og nefndi hann Hrímbak EA 306. Snemma árs 1996 keypti Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði togarann og nefndi Hring SH 535.

Árið 2006 er hann kominn með nafnið Hólmberg SH 535 samkvæmt vef Fiskistofu og það sama ár var hann seldur úr landi. Nánar tiltekið til Namibíu en togarinn fór í brotajárn árið 2015.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hafaldan EA 190

2326. Hafaldan EA 190 ex Konráð eldri EA 190. Ljósmynd Vigfús Markússon.

Hafaldan EA 190 úr Grímsey hét upphaflega Hópsnes GK 118 og var smíðuð árið 1998 fyrir Stakkavík í Grindavík.

Smíðin fór fram í Bátagerðinni Samtak í Hafnarfirði en báturinn var af gerðinni Víkingur 800.

Í dag er eigandi hans og útgerðaraðili AGS ehf. en áður var eigandi Sigurbjörn ehf. sem keypti bátinn til Grímseyjar árið 1999. Þá fékk hann nafnið Konráð EA 90 en þegar nýr Konráð var keyptur haustið 2012 fékk þessi nafnið Konráð eldri EA 190 um tíma.

Í ársbyrjun 2013 fékk báturinn nafnið Hafaldan EA 190 sem hann ber enn þann dag í dag. Báturinn var lengdur árið 2004 og um leið skipt um vél. Hann mælist 10,95 metrar að lengd og 10,31 BT að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution