Arved Fuchs ofl. um borð í Dagmar Aaen í Húsavíkurhöfn.

Arved Fuchs og Brigitte Ellerbrock áamt gestum um borð í Dagmar Aaen. Ljósmynd Hafþór.

Þýska skútan Dagmar Aaen hefur haft vetursetu á Húsavík í vetur.

Þegar ég var að mynda niður við höfn í gærkveldi komu eigendur hennar, hjónin Arved Fuchs og Brigitte Ellerbrock að skútunni ásamt öðru pari. 

Þau báðu mig að mynda sig um borð í skútunni sem ég og gerði og fékk að taka nokkrar myndir á mína vél í leiðinni.

Þau komu til Íslands milli jóla og nýárs og ætla að dvelja um borð í Dagmar Aaen og njóta áramótanna á Húsavík.

Arved Fuchs er heimsfrægur þýskur landkönnuður sem m.a. hefur farið gangandi yfir bæði Norður- og Suðurpólinn og siglt með Dagmar Aaen yfir Norðurpólinn.

Dagmar Aaen í Húsavíkurhöfn. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Dagmar Aaen var byggð til fiskveiða árið 1931 í Esbjerg í Danmörku. Hún er sterkbyggð og vel fallin til siglinga í norðurhöfum.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í stærri upplausn.

Sæþór EA 101

2705. Sæþór EA 101. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Sæþór EA 101 kemur hér til hafnar á Dalvík í sumar.

Sæþór EA 101 er gerður út til netaveiða af G.Ben útgerðarfélagi ehf. á Árskógssandi.

Sæþór EA 101 er af gerðinni Víkingur 1500 og var smíðaður hjá bátagerðinni Samtak árið 2006.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Helgi Héðinsson 90 ára í dag

Helgi Héðinsson um borð í Fram ÞH 62 þann 6. apríl 2018. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Helgi Héðinsson sjómaður á Húsavík er níræður í dag en hann fæddist á Húsavík og hefur átt hér heima alla sína tíð.

Helgi hefur stundað sjómennsku frá unga aldri og er enn að, fer með Óðni félaga sínum og frænda á Fram ÞH 62 að vitja hákarlalínunnar.

Þeir réru einnig með þorskanet á Fram í vor og tók ég þessa mynd hér að ofan þegar þeir komu einn daginn með mokafla að landi.

Hér koma nokkrar myndir sem ég hef tekið af Helga en eins og gefur að skilja eru þær allar frá seinni tíð.

Bryggjuspjall. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.
5525. Bjarki ÞH 271 ex Sæfari ÞH 271. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Trilla sú er Helgi Héðins réri lengst á hét Bjarki ÞH 271 (Heitir það enn á Sjóminjasafninu á Húsavík) og var smíðuð árið 1962 í Hafnarfirði.

Héðinn Maríusson faðir Helga lét smíða hann fyrir sig og nefndi Sæfara ÞH 271. Sæfari var fjögur tonn að stærð og búinn 25 hestafla Guldner vél. Í hann fór síðar Petter vél og önnur sömu gerðar leysti hana af hólmi. Að lokum var sett í hann 36 hestafla Bukh vél.

Helgi eignast bátinn 1976 og fær hann þá nafnið Bjarki ÞH 271 þar sem aðrir aðila reyndust eiga einkaleyfi á Sæfaranafninu.

Helgi réri Bjarka fram yfir aldamótin síðustu en gaf hann Sjóminjasafninu á Húsavík.

5466. Hreifi ÞH 77. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.
Grásleppunetin hreinsuð á Hreifa. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2003.

Feðgarnir Helgi og Héðinn að hreinsa grásleppunetin af Hreifa ÞH við bryggju.

Helgi Héðinsson sker hákarl í beitu 18. júlí 2011. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.
Hákarlaskurður á bryggjunni 19. apríl 2015. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hákarlaskurður á bryggjunni 19. apríl 2015, Óðinn, Héðinn og Helgi við vinnu sína. Há­karl­ana verka þeir fé­lag­ar síðan af sinni al­kunnu snilld og þykir hann lostæti.

Helgi Héðinsson ásamt forsetahjónunum í Helguskúr. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2017.

Ekki má gleyma Helguskúrnum á Húsavík, verbúð Helga sem er í sjálfu sér safn um gamla tíma. Þangað koma margir gestir og m.a litu forsetahjónin við þar í opinberri heimsókn til Norðurþings haustið 2017.

Bræðurnir Jón Ármann og Helgi Héðinssynir við Helguskúr vorið 2010. Ljósmynd Hafþór.
Helgi Héðinsson um borð í Hreifa. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Að lokum óska ég Helga Héðins til hamingju með stórafmælið

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri uplausn.

Sigurður VE 15

183. Sigurður VE 15 ex Sigurður RE 4. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Sigurður VE 15 er hér að koma að sumarlagi með slatta til löndunar í Krossanesi.

Upphaflega Sigurður ÍS 33 og síðar RE 4, smíðaður í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ísfell h/f á Flateyri.

Þegar Sigurður VE 15 varð 40 ára í september árið 2000 birtist grein um hann í Morgunblaðinu og m.a mátti lesa þetta þar:

NÓTASKIPIÐ Sigurður VE varð 40 ára gamalt 25. september síðastliðinn en skipið er eitt það aflasælasta í Íslandssögunni.

Sigurður á sér allsérstæða sögu en upphaflega var skipið byggt sem síðutogari í Bremerhaven í Þýskalandi. Það var útgerðin Ísfell á Flateyri sem lét smíða skipið en eigandi útgerðarinnar var Einar Sigurðsson.

Skipið bar í fyrstu einkennisstafina ÍS 33 en kom þó sjaldan í heimahöfn og var lengstum gert út frá Reykjavík og bar því einkennisstafina RE 4. Þá stafi bar Sigurður þar til fyrir fáum árum þegar þeim var breytt í VE 15.

Sigurður var einn af fjórum svokölluðum þúsund tonna togurum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga en hinir voru Maí GK, Freyr RE og Víkingur AK. Maí og Freyr stoppuðu hins vegar stutt við hér á landi og voru seldir erlendis, en Víkingur er enn gerður út frá Akranesi

Sigurður VE 15 fór í niðurrif til Danmerkur árið 2013.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Geiri Péturs ÞH 344

1872. Geiri Péturs ÞH 344 ex Skúmur ÍS 322. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Geiri Péturs ÞH 344 leggur hér úr höfn á Húsavík um árið áleiðis á rækjumiðin.

Upphaflega hét skipið Skúmur GK 22 í eigu Fiskaness h/f í Grindavík. Smíðaður í Ramvik í Svíþjóð 1987 og mældist 242 tonn að stærð.

Hafboði h/f í Hafnarfirði keypti Skúm GK 22 árið 1989 og heimahöfnin varð Hafnarfjörður. Skipið var skráð með heimahöfn á Flateyri 1994 og varð við það Skúmur ÍS 322. Sami eigandi samkvæmt vef Fiskistofu.

Útgerð Geira Péturs ÞH 344 kaupir Skúm ÍS 322 fyrri part árs 1995 og kom hann til heimahafnar á Húsavík 21. maí það ár.

Geiri Péturs ÞH 344 var gerður út á rækju frá Húsavík til ársins 1997 er hann var seldur til Noregs þar sem hann fékk nafnið Valanes T-285-T.

Seldur frá Noregi til Argentínu árið 2005 þar sem það er enn undir nafninu Argenova X.

Þess má geta til gamans að Argentínumenn gera einnig út systurskip Argenova, Argenova IX. Það skip var smíðað fyrir Norðmenn 1986 og hét upphaflega Mikal Berntsen.

Það bar síðan nöfnin Barentstrål og Skarodd áður það var selt suður eftir árið 2005.

Með því að smella á myndina má skoða hana í hærri upplausn.

Súlan EA 300

TFBG. Súlan EA 300 ex Súlan SU 41. Ljósmynd Hannes Baldvinsson Siglufirði.

Súlan EA 300 hét áður Súlan SU 41 og var í eigu Konráðs Hjálmarssonar í Mjóafirði árin 1905 til 1910.

Súlan var smíðuð í Noregi 1902og var 117 brl. að stærð og var með 75 hestafla tveggja þjöppu gufuvél. 

Í nóvember 1910 kaupir Thor E. Túliníus í Kaupmannahöfn og Ottó Túliníus á Akureyri skipið og nefna Súlan EA 300.

Í október 1928 kaupir Sigurður Bjarnason á Akureyri skipið sem hlefur nafni og númeri. 1939 er sett ný aðalvél í skipið, 240 hestafla June Munkttell.

1941 er Súlan seld Leó Sigurðssyni á Akureyri og 1943 lætur hann lengja skipið sem mælist þá 127 brl. að stærð.

Súlan EA 300 fórst út af Garðskaga 10. apríl 1963. Með henni fórust fimm menn en Grímur Karlsson skipstjóri og áhöfn hans á Sigurkarfa GK björguðu sex mönnum. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í stærri upplausn.

Hafnarberg RE 404

617. Hafnarberg RE 404 ex Jón Gunnlaugs GK 444. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hafnarberg RE 404 var smíðað í Þýskalandi árið 1959 fyrir Miðnes hf. í Sandgerði og hét upphaflega Jón Gunnlaugs GK 444.

Báturinn, sem er 74 brl. að stærð, var seldur Tómasi Sæmundssyni í Reykjavík í desember 1970. Þá fékk hann nafnið Hafnarberg RE 404 sem han ber á myndinni.

Árið 2001 fær báturinn nafnið Jói á Nesi SH 359 í eigu Pétursskip útgerðarfélags ehf. en síðar komu nöfnin Jói Gasalegi SH 359, Dúa SH 359 og Dúa RE 400.

Samkvæmt vef Samgöngustofu heitir báturinn í dag Dúa RE 404 en á vef Fiskisstofu hefur hann heitið Eiríkur rauði ÍS 157 sl. fimm ár.

En það skiptir kannski ekki svo miklu máli, þar sem báturinn hefur legið og grotnað niður í Grindavíkurhöfn allengi.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Litlanes ÞH 3

2771. Litlanes ÞH 3 ex Muggur HU 57. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Litlanes ÞH 3 kemur hér að landi í Grindavík í marsmánuði á þessu ári.

Litlanes var smíðað árið 2000 Sólplasti í Sandgerði og hét í upphafi Muggur KE 57 . Síðar HU 57. 

Fagranes útgerð ehf. á Þórshöfn, sem er í eigu Ísfélags Vestmannaeyja hf., keypti bátinn 2015 og í framhaldinu fór hann í miklar breytinga hjá Siglufjarðar Seig.

Þær fólust m.a í lengingu og yfirbyggingu ásamt því að sett var á það perustefni.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Wilson Stadt við Bökugarðinn

Wilson Stadt ex Linito. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Wilsonfjölskyldan hedlur áfram að koma með hráefni til PCC á Bakka og í dag liggur Wilson Stadt við Bökugarðinn þar sem uppskipun fer fram.

Skipið var smíðað árið 2000, siglir undir Maltneskum fána með heimahöfn í Walletta. Lengd þess er 113 metrar og breiddin 15 metrar. Mælist 4.200 GT að stærð.

Skipið er ekki með öllu ókunnugt á Húsavík því það kom hingað í mars 2003 með áburðarfarm. Þá hét það Linito en núverandi nafn fékk það árið 2006.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Skarfur GK 666

1023. Skarfur GK 666 ex Fylkir NK 102. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2002.

Skarfur GK 666 lætur hér úr höfn í Grindavík, sennilega í septembermánuði árið 2002.

Báturinn hét upphaflega Sléttanes ÍS 710 og var 268 brl. að stærð. Smíðaður fyrir Fáfni h/f á Þingeyri í Boizenburg í A-Þýskalandi árið 1967.

Seldur Tálkna h/f á Tálknafirði 1974 og fékk nafnið Sölvi Bjarnason BA 65. Erlingur Pétursson í Vestmannaeyjum keypti bátinn árið 1977 og nefndi Eyjaver VE 7.

1979 er Eyjaver selt Drift h/f á Neskaupstað og fékk nafnið Fylkir NK 102. Það stoppaði stutt við fyrir austan en 1980 kaupir Fiskanes h/f í Grindavík og fær þá báturinn það nafn sem hann ber á myndinni, Skarfur GK 666.

Þegar myndin var tekin var báturinn í eigu Þorbjörns-Fiskaness hf. sem í dag heitir Þorbjörn hf.

Fyrirtækið var á sínum tíma sett saman úr þremur fjölskyldufyrirtækjum, Þorbirni og Fiskanesi í Grindavík og Valdimar í Vogunum og fékk hið sameinaða fyrirtæki þá nafnið Þorbjörn Fiskanes.

Sumarið 2003 var Skarfur seldur KG fiskverkun ehf. á Rifi og fékk nafnið Faxaborg SH 207. Seld úr landi árið 2008.

Eins og kemur fram í upphafi var báturinn 268 brl. að stærð en hann var endurmældur árið 174 og varð við það 217 brl. að stærð. Hann var yfirbyggður 1984 og seinna skipt um brú og skutlengdur og var 234 brl./335 BT að stærð.

Upphaflega var 660 hestaafla Lister aðalvél í bátnum en 1981 var sett í hann 900 hestafla Grenaa.