Lómur SH 177

368. Lómur SH 177 ex Sif HU 39. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Lómur SH 177 kemur hér að landi í Ólafsvík um árið og ef ég man rétt var ég við það að missa af þessu tækifæri til að mynd hann.

Það skýrir kanski bílinn hér í vinstra horninu, ekki bara bílspegill þarna á ferðinni heldur góður partur bílsins sem er af Moskvitchgerð.

Lómur SH 177 hét upphaflega Dalaröst NK 25 og kom til landsins nýsmíðaður frá Danmörku vorið 1959.

Í Austurlandi 13. mars 1959 sagði svo frá komu bátsins:

Í gærkvöldi kom hingað nýr fiskibátur, smíðaður í Nyköbing Mars Danmörku eftir teikningu Egils Þorfinnssonar, Keflavík. Báturinn er 69 smálestir með 360 hestafla Blackstöne Lister vél og búinn öllum nýjustu siglingatækjum m. a. Decca ratsjá.

Báturinn er mjög vandaður að öllum frágangi. Hann var aðeins 3 sólarhringa og 20 klukkustundir frá Nyköbing Mors, en það er bær lítið eitt stærri en Akureyri, sem stendur við Limafjörðinn á Jótlandi.

Kom báturinn við í Færeyjum á heimleið. Skipstjóri á bátnum er Þorleifur Þorleifsson og sigldi hann honum til landsins. Fyrsti vélstjóri er Rögnvaldur Sigurðsson, en stýrimaður verður Þórður Víglundsson.

Báturinn heitir Dalaröst NK 25. Eigandi er hlutafélagið Glettingur en aðal hluthafar í því eru Eyþór Þórðarson kennari, Þorleifur Þorleifsson skipstjóri og Björgvin Jónsson kaupfélagsstjóri Seyðisfirði, sem jafnframt er framkvæmdastj. félagsins. Báturinn fór strax í morgun til Seyðisfjarðar, en fer fljótlega til Keflavíkur, en þangað er hann leigður í vetur.

Í ágústmánuði 1965 var Dalaröstin seld Meitlinum h/f í Þorlákshöfn en þar fékk hann nafnið Ögmundur ÁR 10. Í nóvember 1973 var báturinn seldur Hafliða h/f í Þorlákshöfn og fékk nafnið Guðfinna Steinsdóttir ÁR 10.

Í árslok 1976 var báturinn seldur Sif h/f á Hvammstanga og fékk hann nafnið Sif HU 39. Í nóvember 1982 kaupa Friðrik Friðriksson, Birgir Karlsson og Guðmann Jóhannsson á Hvammstanga bátinn sem heldur nafni sínu.

1978 var skipt um vél í bátnum og sett í hann 425 hestafla Caterpillar í stað Listersins.

Það er svo vorið 1983 sem Guðmundur Svavarsson og Kristinn V. Sveinbjörnsson í Ólafsvík kaupa bátinn og nefna Lóm SH 177 með heimahöfn í Ólafsvík. Heimild: Íslensk skip.

Í árslok 1988 leysti yngri og stærri Lómur SH 177 þennan af hólmi sem fékk þá um stundarsakir nafnið Lómur II.

Haustið 1989 var báturinn kominn á Brjánslæk og fékk nafnið Magnús BA 157, 1991 fékk hann nafnið Bjargey BA 407. Árið 1993 fékk báturinn sitt síðasta nafn sem var Hrauney BA 407.

Hrauney BA 407 var brennd á áramótabrennu Ísfirðinga 1999 en báturinn hafði verið dreginn vestur eftir að hafa legið lengi í Hafnarfjarðarhöfn.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Steinunn SF 10

1264. Steinunn SF 10 ex Klaus Hillesøy. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Steinunn SF 10 var keypt notuð frá frá Noregi og kom hún til heimahafnar á Hornafirði í októbermánuði árið 1972.

Í Tímanum 18. október 1972 sagði svo frá komu bátsins:

Nýr bátur, Steinunn SF 10, kom til Hornafj. í vikunni. Báturinn, er fjögurra ára gamall um 90 brúttólestir samkvæmt nýju mælingunni og rúmar hundrað brúttólestir samkvæmt þeirri gömlu.

Steinunn er stálbátur, keyptur hingað frá Noregi og eigandi er Skinney h.f. Á fyrirtækið annan bát með sama nafni. Skipstjóri á Steinunni er Ingólfur Ásgrímsson.

Eins og kemur fram var Steinunn 90 brl. að stærð en árið 1973 var hún lengd og mældist þá 10 3 brl. að stærð. Upphaflega var í henni 425 hestafla Caterpillar aðalvél sem önnur sömu gerðar og stærðar leysti af hólmi árið 1982.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á síldarvertíð austanlands um miðjan níunda áratug síðustu aldar og eins og sjá má er báturinn kominn með bakka og hálfyfirbyggður eins og það var kallað.

Árið 1987 var báturinn yfirbyggður, skutlengdur og skipt um brú. Þessar breytingar voru gerðar hjá Vélsmiðjunni Stál á Seyðisfirði.

Haustið 1996 varð Steinunn SF 40 eftir að ný og stærri Steinunn leysti hana af hólmi og fékk SF 10. Um vorið 1997 var báturinn seldur Skarðsvík ehf. á Hellisand og fékk nafnið Magnús SH 205.

Sumarið 2003 varð báturinn SH 206 en þá var kominn nýr Magnús SH 205. Haustið 2004 fékk báturinn nafnið Sæmundur GK 4 eftir að hafa verið seldur til Grindavíkur.

Sæmundur GK 4 fór erlendis í brotajárn árið 2014.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Árni í Görðum VE 73

1179. Árni í Görðum VE 73. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Árni í Görðum VE 73 var smíðaður árið 1971 fyrir Einar Guðmundsson h/f hjá Þorgeir & Ellert h/f á Akranesi. Hann var 103 brl. að stærð búinn 500 hestafla Alpha aðalvél.

Haustið 1983 er Árni í Görðum VE 73 seldur innanbæjar í Vestmannaeyjum og fær nafnið Ófeigur VE 324. 

Árið 1989 var Ófeigur VE 324 seldur norður á Blönduós þar sem hann fékk nafnið Ingimundur gamli HU 65. 

Ingimundur gamli HU 65 sökk sunnudaginn 8. október 2000 þar sem hann var að rækjuveiðum. Sæbjörg ST 7 bjargaði tveim úr áhöfn bátsins, sem þá var gerður út frá Hvammstanga, en skipstjórinn fórst með bátnum.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Drottningin kom að landi í dag

1076. Jóhanna Gísladóttir GK 557 ex Jóhanna Gísladóttir ÍS 7. Ljósmynd Jón Steinar 2021.

Drottning línuveiðaranna, eins og sumir kalla Jóhönnu Gísladóttur GK 557, sést á þessum myndum Jóns Steinars koma inn til Grindavíkur fyrr í dag af austfjarðarmiðum.

Aflinn hjá henni sem fékkst í 5 lögnum var 320 kör sem gerir um 100 tonn. Uppistaða aflans er þorskur og ýsa.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Þorsteinn kemur að

Þorsteinn ÞH 115 ex Þorsteinn GK 15. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Það styttist í að vetrarvertíð hefjist en samkvæmt almanak.is hefst hún daginn eftir Kyndilmessu. Hér á myndinni sést Þorsteinn ÞH 115 frá Raufarhöfn koma að bryggju í Njarðvík á vertíðinni 2018.

Um vetrarvertíð segir á almanak.is:

vetrarvertíð (á Suðurlandi), veiðitími að vetri; telst frá fornu fari hefjast daginn eftir kyndilmessu, þ. e. 3. febrúar, nema ef það er sunnudagur, þá 4. febrúar, –vertíð. Vertíðinni lýkur 11. maí (lokadag). Tímamörk vetrarvertíðar voru staðfest með alþingissamþykkt um breytt tímatal árið 1700, en í gamla stíl hófst vetrarvertíð á Pálsmessu (25. janúar).

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Frár VE 78

1199. Frár VE 78 ex Krossanes SU 5. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Frár VE 78 var smíðaður í Noregi árið 1969 en keyptur hingað til lands af Kirkjukletti hf. í Sandgerði árið 1971.

Í Sandgerði fékk báturinn nafnið Jón Oddur GK 104 en í nóvember 1977 breyttist það í Jón Guðmundsson GK 104.

Í ársbyrjun 1980 keypti Vogur hf. á Djúpavogi bátinn, sem var 124 brl. að stærð, og gaf honum nafnið Krossanes SU 5.

Rúmu árið síðar er báturinn kominn til Vestmannaeyja þar sem hann fær það nafn sem hann ber á myndinni, Frár VE 78. Eigandi Óskar Þórarinsson.

Báturinn var rifinn í Vestmannaeyjum árið 2007 en þá hafði hann legið í höfninni um árabil.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Björg Jónsdóttir ÞH 321

263. Björg Jónsdóttir ÞH 321 ex Gandí VE 171. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Björg Jónsdóttir ÞH 321 frá Húsavík er hér á síldarvertíð austanlands sennilega haustið 1986.

Upphaflega hét báturinn Þorbjörn II GK 541 og var smíðaður árið 1964 fyrir Hraðfrystihús Þórkötlustaða h/f í Grindavík. Smíðin fór fram í Djupvík í Svíþjóð en báturinn var 168 brl. að stærð. Hann var endurmældur síðar og mældist þá 131 brl. að stærð.

Árið 1977 kaupir Gunnlaugur Ólafsson í Vestmannaeyjum bátinn og nefnir Gandí VE 171. Gandí var gerður út frá Eyjum til ársins 1985 en í janúar það ár kaupir Langanes hf. á Húsavík bátinn sem fékk nafnið Björg Jónsdóttir ÞH 321.

Frá Húsavík var báturinn seldur til Dalvíkur þar sem hann fékk nafnið Hafsteinn EA 262. Þetta var í febrúar 1988, kaupandinn Haraldur hf. á Dalvík.

Meira um bátinn síðar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Geir RE 406

450. Geir RE 406. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Geir RE 406 var smíðaður árið 1960 í Þýskalandi og var upphaflega KE 1 með heimahöfn í Keflavík. Eigendur Ólafur Loftsson og Þorsteinn Þórðarson.

Um komu hans sagði svo frá í 4. tbl. Ægis 1956:

Fyrsti þýzki stálbáturinn kom hingað til Keflavíkur 8. þ. m. og heitir hann Geir.

Ferðin frá Hamborg gekk að óskum. Hún tók fimm og hálfan sólarhring enda þótt aflvélin, sem firmað Mak Kiel hefur smíðað og er 240 hestöfl, hafi ekki verið knúin til fulls.

Báturinn er 22,57 metrar að lengd, 76 smálestir. Hann er búinn fullkomnustu tækjum og vandaður að öllum frágangi. Lestin er klædd aluminium. Þrýstivatns-kerfi fyrir drykkjar- og þvottavatn o. s. frv.

Báturinn er byggður samkvæmt reglum þýzka Lloyds fyrir hafskip. Því hefur hann ýmsan öryggisútbúnað sem mun vera óþekktur hjá okkur, en þessar reglur heimta. Ennfremur fullnægir báturinn kröfum samkvæmt íslenzkum reglum.

Farið hefur verið eftir teikningum og ráðleggingum Egils Þorfinnssonar bátasmiðs um fyrirkomulag og ýmsan útbúnað, sem reynsla hefur fengizt fyrir að hæfi íslenzkum staðháttum.

Óhætt mun að fullyrða að ekkert hefur verið tilsparað að gera bátinn sem bezt úr garði og gera menn sér vonir um að þar með bætist íslenzka fiskiskipaflotanum gott skip.

Þess má geta, að báturinn kom að öllu leyti útbúinn til þorsk- og síldveiða og var því umsvifalaust tilbúinn að hefja róðra.

Eigendur bátsins eru Ólafur Loftsson útgerðarmaður, og hinn góðkunni og fengsæli skipstjóri Þorsteinn Þórðarson, Keflavík.

Annar sams konar bátur er væntanlegur til Vestmannaeyja í þessum mánuði.

Firmað D. W. Kremer Sohn, Elmshorn, hefur smíðað bátinn en umboðsmenn firmans eru Kristján G. Gíslason & Co., hf.

Geir KE 1 var seldur Ingólfi Kristjánssyni í REukjavík í desembermánuði 1964 og varð hann RE 406 við það. Í nóvember ári síðar kaupir Sjófang h/f bátinn. Það var svo í febrúar 1971 sem feðgarnir Pétur Stefánsson og Guðbjörn Stefánsson kaupa bátinn sem heldur nafni sínu og númeri.

Geir RE 406 var seldur til Ólafsvíkur árið 1989 þar sem hann fékk nafnið Jökull SH 15, kaupandinn Hrói hf. í Ólafsvík. Báturinn var seldur á fornar slóðir sumarið 1992 þegar Ísnes ehf. keypti hann til Keflavíkur. Þar fékk hann nafnið Sigurvin Breiðfjörð KE 7.

Í ársbyrjun 1994 fékk báturinn nafnið Skúmur KE 122, eigandi Sæunnur ehf. og það nafn bar hann til ársins 1999. Þá fékk hann nafnið Eldey GK 74 þegar Útgerðarfélagi Skaginn ehf. keypti hann og samkvæmt skipaskrá heitir hann það enn.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Að kveldi annars í jólum

Við Húsavíkurhöfn að kveldi annars í jólum. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Tók smá rúnt niður á bryggju og tók nokkrar myndir í leiðinni og hér birtist ein þeirra.

Það var alveg logn og nýfallin föl svo það var auðvelt að láta freistast til myndatöku.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Gleðileg jól – Merry Christmas – Feliz Navidad

Húsavík 23. desember 2020. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Með þessari mynd sem tekin var á Þorláksmessumorgun hér á Húsavík óska ég öllum þeim sem sækja síðuna heim gleðilegrar jólahátíðar með þökk fyrir innlitið á árinu sem er að líða.

Merry Christmas to you all who visit this site with thanks for stopping by.

Feliz Navidad a todos los que visitan este sitio con gracias por pasar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.