KG fiskverkun kaupir útgerð Ólafs Bjarnasonar SH 137

1304. Ólafur Bjarnason SH 137 Ljósmynd Alfons Finnsson.

Eigendur Valafells ehf. í Ólafsvík hafa komist að samkomulagi við KG Fiskverkun ehf. um kaup þess síðarnefnda á öllu hlutafé í Valafelli ehf.

Samningar aðila eru gerðir með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Fiskifréttir greina frá en í tilkynningu frá KG Fiskverjun segir:

KG Fiskverkun gerir út skipið Tjald SH 270 með heimahöfn í Snæfellsbæ. Þá rekur félagið einnig fiskvinnslu í Snæfellsbæ. 

Valafell ehf. er rótgróið útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í Snæfellsbæ sem rekur sögu sína allt til ársins 1961. Fyrirtækið gerir út Ólaf Bjarnason SH 137, sem er 112 lesta bátur, smíðaður á Akranesi árið 1973 og er gerður út á dragnót og net. Árið 1990 tók fyrirtækið í notkun nýtt fiskvinnsluhús og rak þar saltvinnslu til ársins 2011 en þá var saltfiskvinnslan flutt í stærra húsnæði eftir miklar endurbætur og ný tæki keypt til fiskvinnslu.

Fyrirætlanir nýrra eigenda er að efla enn frekar starfsemi sína í Snæfellsbæ.

Í tilkynningunni segja þau Björn Erlingur og Kristín: 

„Við erum mjög ánægð með að samningar hafi tekist við KG Fiskverkun og þannig tryggt að starfsemin verði áfram í heimabyggð og bindum miklar vonir við að hún verði efld enn frekar.“

„Við erum mjög þakklát fyrir það traust sem þau Kristín og Björn Erlingur hafa sýnt okkur og hlökkum til að takast á við nýjar áskoranir,“ segir Daði Hjálmarsson, framkvæmdastjóri KG Fiskverkunar.

Varðskipið Freyja verður gert út frá Siglufirði

Varðskipið Freyja. Teikning af heimasíðu Landhelgisgæslu Íslands.

Bindandi samkomulagi hefur verið komið á varðandi kaup á varðskipinu Freyju á milli United Offshore Support GmbH og Landhelgisgæslu Íslands. 

Í tilkynningu kemur m.a fram að Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið hafi í sameiningu tekið þá ákvörðun að heimahöfn varðskipsins Freyju verði Siglufjörður og njóti skipið þjónustu þar og á Akureyri eftir þörfum.

Lesa tilkynninguna í heild sinni. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

FISK Seafood kaupir 60 % hlut í Steinunni SH 167

1134. Steinunn SH 167 ex Ingibjörg RE 10. Ljósmynd Alfons Finnsson 2020.

Gengið hefur verið frá samkomulagi um kaup FISK Seafood ehf., í gegnum dótturfélag sitt, á 60% eignarhlut í útgerðarfélaginu Steinunni hf. í Ólafsvík sem gert hefur út vertíðarbátinn Steinunni SH-167.

Fimm bræður og fjölskyldur þeirra hafa rekið félagið í u.þ.b. hálfa öld. Eftir kaupin munu tveir bræðranna, þeir Brynjar og Ægir Kristmundssynir, eiga ásamt fjölskyldum sínum sitt hvorn 20% eignarhlutinn í Steinunni hf. og halda áfram störfum sínum sem skipstjóri og vélstjóri Steinunnar SH-167. Aðrir eigendur selja hluti sína í félaginu.

Engar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsemi félagsins í Ólafsvík aðrar en þær sem lúta að frekari uppbyggingu og sóknarfærum.

Í frétt á heimasíðu FISK Seafood segir að markmiðið með kaupunum sé að styrkja umsvif sín í útgerð vertíðarbáta og hafa nokkur skref verið stigin í þá átt á undanförnum misserum. Nálægð Snæfellsnessins við matarkistur Breiðafjarðar er afar heppileg til slíkrar starfsemi. Öflugur rekstur dótturfélags FISK Seafood, Soffaníasar Cecilssonar ehf. í Grundarfirði, gerir frekari uppbyggingu á þessum slóðum enn fýsilegri. Það er skoðun stjórnenda FISK Seafood að Snæfellsnesið sé í raun eitt atvinnusvæði og búi yfir miklum tækifærum til að styrkja stöðu sína á sviði fjölbreytts sjávarútvegs á komandi árum.

Eftir meira en fimmtíu ára samfellda sjósókn þótti eigendum Steinunnar hf. kominn tími til þess að stokka upp spilin, sækja sér liðsstyrk og bæta vindi í seglin. Þegar tækifæri gafst til þess að snúa bökum saman með þeim framsæknu hugmyndum sem FISK Seafood hefur oft tjáð sig um þegar kemur að útgerð á Snæfellsnesi gengu viðræður hratt fyrir sig. Það er mikill metnaður af hálfu beggja aðila til þess að blása til frekari sóknar í útgerðinni frá Ólafsvík og efla um leið atvinnustarfsemi á Snæfellsnesinu öllu.

Brynjar og Ægir Kristmundssynir: „Við erum þakklátir fyrir það að þessi langi rekstur fjölskyldunnar hafi nú fengið tækifæri til kraftmikillar endurnýjunar. Innkoma Friðbjörns Ásbjörnssonar með mikla þekkingu á aðstæðum útgerðarinnar á Snæfellsnesi og hið sterka bakland FISK Seafood gefur góð fyrirheit um framhaldið. Samstarf okkar er ekki eingöngu grundvallað á metnaðarfullum markmiðum heldur einnig langri vináttu héðan af nesinu og gagnkvæmu trausti. Það skiptir miklu máli.“

Friðbjörn Ásbjörnsson: „Þetta er stórt og mikilvægt skref fyrir FISK Seafood í sókn sinni til aukinnar fjölbreytni í útgerð, vinnslu og sölu íslensks sjávarfangs. Við lítum á Snæfellsnesið sem mikilvægan hlekk fyrir áframhaldandi sókn okkar í sjávarútveginum og fyrir mig persónulega er auðvitað ánægjulegt að koma með þessum hætti til baka á æskustöðvarnar. Til viðbótar er ég viss um að það verður ákaflega lærdómsríkt að vinna með þeim bræðrum. Þeir hafa sótt sjóinn á þessum slóðum af miklu harðfylgi og hafa þekkingu og áræði sem ég hef dáðst að í áratugi. Steinunn SH 167 hefur verið með aflahæstu bátum landsins í langan tíma og það er mikið tilhlökkunarefni að koma að þessari öflugu útgerð frá Ólafsvík á komandi árum.“

Steinunn SH 167 er 153ja rúmlesta dragnótarbátur, smíðaður árið 1971 hjá Stálvík í Garðabæ. Fiskveiðikvóti félagsins er alls ríflega ellefu hundruð tonn í fimmtán tegundum, m.a. um 850 tonn í þorski auk ýsu, ufsa, skarkola o.fl. FISK Seafood greiðir ríflega 2,5 milljarða króna fyrir eignarhlut sinn í Steinunni hf. og eru viðskiptin gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Breytingar á skipastól Síldarvinnslunnar

2677. Bergur VE 44 ex Brodd 1. Ljósmynd Þór Jónsson 2021.

Bergur ehf. í Vestmannaeyjum hefur samþykkt sölu á Berg VE 44 til Vísis í Grindavík. Skipið verður afhent nýjum eigendum í ágúst á þessu ári. 

Í tilkynningu á vef Síldarvinnslunnar kemur fram að Bergur er með tæplega 1600 þorskígildi, en skipið er selt án aflaheimilda. Bergur ehf. mun í kjölfarið kaupa Bergey VE 144 af móðurfélagi sínu Bergi Hugin ehf.

Er um að ræða hagræðingaraðgerðir til að auka nýtingu skipa félagsins. Þess skal getið að skerðingar Síldarvinnslusamstæðunnar námu um 1500 tonnum í bolfiski fyrir komandi fiskveiðiár.

Dótturfélag Síldarvinnslunnar, Runólfur Hallfreðsson ehf., hefur einnig gengið frá sölu á uppsjávarskipinu Bjarna Ólafssyni AK 70 til erlendra aðila. Salan er þó háð ákveðnum fyrirvörum af hálfu kaupenda sem munu skýrast innan mánaðar.

Ef af verður mun skipið verða afhent nýjum eigendum á haustmánuðum. Eins og kunnugt er tók Síldarvinnslan á móti nýju skipi í júníbyrjun sem fékk nafnið Börkur. Í kjölfarið mun eldri Börkur fá nafnið Bjarni Ólafsson AK 70 og munu áhöfn og aflaheimildir þá flytjast á milli.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Blængur landar úr fyrstu veiðiferð ársins

1345. Blængur NK 125 ex Freri RE 73. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2021.

Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gær að lokinni fyrstu veiðiferð ársins. Skipið hélt til veiða 4. febrúar en það hafði verið í slipp á Akureyri frá því í desember. Aflinn í veiðiferðinni var 471 tonn upp úr sjó að verðmæti 120 milljónir króna. 

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar sem ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvar hefði verið veitt.

„Við byrjuðum á að leita að ufsa úti fyrir Norðurlandi. Það skilaði litlum árangri. Síðan var haldið austur fyrir land í grálúðu og þar var staldrað við í eina þrjá daga.

Þá lá leiðin suður fyrir landið. Þar hófum við að veiða gulllax á Kötlugrunni og Sneiðinni og það gekk býsna vel. Leiðin lá þá á Selvogsbanka og Reykjanesgrunn og alveg vestur á Belgableyðu í ufsaleit. Staðreyndin er sú að það virðist vera lítið af ufsa um þessar mundir en hins vegar er nóg af ýsu og gullkarfa alls staðar.

Við vorum á eilífum flótta undan ýsu og reyndar vorum við einnig að forðast þorsk. Það er alveg ótrúlegt að ýsukvóti skuli ekki vera aukinn. Þegar upp var staðið var uppistaða aflans í veiðiferðinni gulllax og gullkarfi. Við vorum með um 160 tonn af gulllaxi og um 130 tonn af gullkarfa.

Veðrið í túrnum var almennt gott. Við fengum brælu þegar veitt var fyrir austan en annars var fantagott veður og hálgerður vorbragur á veðrinu,“ segir Theodór. 

Blængur heldur á ný til veiða  síðdegis í dag en meðfylgjandi mynd tók Hólmgeir Austfjörð um sl. helgi þar sem Blængur var að veiðum í Skerjadýpi.

Vinnslustöðin hf. kaupir útgerðarfyrirtækið Hugin í Vestmannaeyjum

2411. Huginn VE 55. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Vinnslustöðin hf. hefur keypt Huginn ehf., útgerðarfélag í Vestmannaeyjum sem gerir út fjölveiðiskipið Hugin VE-55, ásamt aflaheimildum í síld, loðnu, kolmunna og makríl.

Kaupsamningur var undirritaður í Eyjum á föstudaginn var, 29. janúar. Kaupverðið er trúnaðarmál kaupenda og seljenda.

Vinnslustöðin átti fyrir 48% hlut í Hugin en á nú félagið allt og hyggst starfrækja það áfram í óbreyttri mynd.

Seljendur Hugins ehf. eru þrír synir og dóttir hjónanna Guðmundar Inga Guðmundssonar og Kristínar Pálsdóttur. Fjölskyldan eignaðist allt félagið árið 1968 og var meirihlutaeigandi þess þar til nú. Bræðurnir eru skipstjórnarmenntaðir, tveir þeirra skipstjórar á Hugin VE en sá þriðji framkvæmdastjóri félagsins, Páll Þór Guðmundsson.

Samhliða kaupunum hefur verið ákveðið að Guðmundur Ingi Guðmundsson verði skipstjóri á Hugin á móti föður sínum, Guðmundi Hugin Guðmundssyni og föðurbróður, Gylfa Viðari Guðmundssyni. Guðmundur Ingi verður þar með þriðji ættliður skipstjórnarmanna á Hugin VE-55.

Huginn VE-55 var smíðaður árið 2001, öflugt vinnsluskip og fjölveiðiskip og veiðir uppsjávarfisk í nót eða flottroll.

Útgerðarfélagið Huginn var frumkvöðull að makrílveiðum við Ísland og fór að þreifa fyrir sér í þeim efnum á árunum 2002 til 2006 en með misjöfnum árangri. Það var svo sumarið 2007 að áhöfn Hugins VE náði alls um 3.000 tonnum, þar af um 2.500 tonnum í íslenskri lögsögu og 500 tonnum í þeirri færeysku. Þar með hófust beinar makrílveiðar í lögsögu Íslands.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að kaupin á Hugin séu gleðiefni fyrir Vinnslustöðina en ekki síður góðar fréttir fyrir Vestmannaeyjar:

„Það var ekki sjálfgefið að kaupandi meirihluta Hugins væri félag í Eyjum en systkinin eru trú og trygg byggðarlaginu sínu og lögðu áherslu á að félagið, skipið og aflaheimildirnar yrðu hér áfram. Við erum afar ánægð með þá afstöðu þeirra.

Vinnslustöðin hefur byggt upp uppsjávarhluta starfsemi sinnar á undanförnum árum. Samrekstur félaganna mun skila aukinni hagræðingu og leiða til betri nýtingar skipa og verksmiðja samstæðunnar.

Undanfarin ár hefur Huginn ehf. verið í samstarfi við Eskju um vinnslu á makríl. Stjórnendur Vinnslustöðvarinnar sjá áhugaverða kosti í því samstarfi og vonast til að þróa það áfram.“ Segir Sigurgeir Brynjar í tilkynningu frá VSV.

Björgum Blátindi

Ályktun stjórnar Sambands íslenskra sjóminjasafna um Blátind VE 21

347. Blátindur VE 21. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Stjórn Sambands íslenskra sjóminjasafna tekur heilshugar undir með Hollvinafélögum Húna II á Akureyri og Magna í Reykjavík að skora á framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja að falla frá samþykkt um að farga bátnum Blátindi VE 21.

Vestmannaeyjar hafa verið ein stærsta verstöð landsins um aldir enda er þaðan skammt í gjöful fiskimið. Eitt af því sem prýddi bæinn var  Blátindur, sem smíðaður var í Dráttarbraut Vestmannaeyja árið 1947, 45 rúmlestir að stærð, sléttsúðaður eikarbátur, alþilja; meistari: Gunnar Marel Jónsson. Þegar Blátindi var hleypt af stokkunum var hann meðal stærstu og glæsilegustu fiskiskipa í Vestmannaeyjum. Hann var gerður út frá Eyjum til ársins 1959 og síðan frá ýmsum verstöðvum vestan og norðan lands. Þá var Blátindur notaður sem varðskip í Faxaflóa um skeið og var þá búinn fallbyssu.

Árið 1993 lá Blátindur í reiðileysi við bryggju norður í landi og fékkst þá dreginn til Eyja af Landhelgisgæslunni. Þar var hann settur í slipp en ekkert hugsað um hann í nokkur ár. Árið 1998 fóru fram umræður um bátinn og vildu sumir farga honum. Það sem mælti gegn því var að Blátindur væri eini vélbáturinn smíðaður í Eyjum á fyrri hluta 20.  aldar sem eftir væri og í óbreyttu ástandi, jafnvel með sama stýrishúsinu. Auk þess hefði báturinn smíðalag sem einkennandi var fyrir vertíðarbáta smíðaða í Eyjum.

Í september 2001 var stofnað áhugamannafélag um endurbyggingu Blátinds og ákveðið að hraða framkvæmdum svo báturinn yrði afhentur Menningarmálanefnd Vestmannaeyja fullbúinn næsta sjómannadag til varðveislu og sýningar. Það gekk eftir og var sérlega myndarlega staðið að endurbyggingu bátsins. Vorið 2018 var Blátindi komið fyrir hjá Skansinum og átti það að vera endanlegur staður fyrir hann. Hann naut sín vel í fallegu umhverfi en staðurinn var óneitanlega ótraustur, enda hélst báturinn þar ekki á sínum stað nema í hálft annað ár. Næsta skref átti að vera að koma honum í sýningarhæft ástand.

En nú er sú áætlun fyrir bí. Blátindur slitnaði upp frá bryggju í óveðri og sökk í Vestmannaeyjahöfn í febrúar 2020 og var í kjölfarið dreginn á land. Mikið tjón varð á honum eins og vænta mátti.  Sérfræðingur var nýlega fenginn til að meta kostnað við endurbyggingu skipsins. Sú áætlun er afar lausleg, en  skv. henni er kostnaður við að koma Blátindi í sýningarhæft ástand ekki undir hundrað milljónum króna. Jafnframt segir í skýrslu hans að mun dýrara sé að gera Blátind siglingarhæfan, áætlað að sá kostnaður yrði í kringum tvö hundruð milljónir króna. Það sem skortir í þessu samhengi er verk- og kostnaðaráætlun sem rökstyður þær tölur sem fram koma í skýrslunni. Auk þess heldur sérfræðingurinn því fram að verkið sé sérhæft og efniviður illfáanlegur. Því mótmælir stjórn SÍS – einfalt er að kaupa góðan efnivið til bátasmíða og -viðgerða af nágrannaþjóðum okkar. Ennfremur  starfa tréskipasmiðir á Íslandi og víða hefur verið staðið vel og faglega að endursmíði gamalla tréskipa. Má í því sambandi til dæmis benda á Húna II og fjölmörg skip á Húsavík, auk þess sem sjálfstæðir bátasmiðir hafa staðið að viðgerðum og endursmíði trébáta í einkaeigu. Áætlaður kostnaður við förgun skipsins er sagður vera 5 milljónir króna en þeirri tölu fylgir ekki kostnaðaráætlun frekar en öðru í skýrslunni.

Niðurstaða framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja virðist vera að förgun sé eina aðgengilega lausnin. 100 milljónir séu allt of há upphæð til að ráðið sé við hana og þá enn síður 200 milljónir. Ráðinu er þó ljóst að allar ákvarðanir varðandi framtíð Blátinds eru háðar samþykki Minjastofnunar. Blátindur er friðaður á grundvelli aldurs, skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012, og heyrir því undir Minjastofnun Íslands.

Málinu virðist stillt upp á þann veg að sem augljósast sé að farga þurfi Blátindi.

  1. Ábyrgðin á bátnum virðist sett á framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja sem ólíklegt er að hafi hlutverk á sviði minjavörslu og enn ólíklegra er að sé fært um að leggja út háar upphæðir á því sviði.
  2. Stillt er upp kostnaðartölum sem eru nógu háar til að gera verkefnið algerlega óvinnandi. Þær virðast þó ekki byggðar á verk- eða kostnaðaráætlunum.
  3. Því er haldið fram að verkkunnáttu vanti og efniviður sé illfáanlegur – en slíkar staðhæfingar er auðvelt að hrekja.

Augljós niðurstaða framkvæmda- og hafnarráðs virðist því vera förgun skipsins.

Í þessu eins og öðru gildir það að vilji er allt sem þarf. Ein hugmynd sem varpað hefur verið fram er að setja Blátind í gömlu slökkvistöðina í Vestmannaeyjum sem nú mun verið að flytja úr. Þar yrði sett upp sýning um Blátind og sögu hans ásamt sögu skipasmíða og útgerðar í Vestmannaeyjum eftir 1945. Viðgerð á bátnum gæti verið mikilvægur partur af sýningunni og mætti fara fram eftir því sem fjármunir leyfa, jafnvel í allmörg ár. Kostnaður við það væri að sjálfsögðu einhver en ekkert í nánd við þær tölur sem fyrr hafa verið nefndar. Ennfremur mætti sækja um styrki til viðgerðarinnar og líklegt er að sjálfboðaliðar fengjust til verksins að einhverju leyti.

Stjórn SÍS hvetur framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja til að endurskoða ákvörðun sína um förgun skipsins og huga að sögulegu mikilvægi þess og varðveislugildi.

Reykjavík 27. janúar 2021

Helgi Máni Sigurðsson, Borgarsögusafni
Anita Elefsen, Síldarminjasafni Íslands
Inga Hlín Valdimarsdóttir, Byggðasafninu Hnjóti

Nýr Einar Guðnason ÍS 303 til Suðureyrar

2997. Einar Guðnason ÍS 303. Ljósmynd Trefjar 2021.

Útgerðarfélagið Norðureyri ehf. á Suðureyri fékk í síðustu viku afhentan nýjan yfirbyggðan Cleopatra 50 beitningavélarbát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði.

Íslandssaga ehf. tekur við afla bátsins og er einn eigandi Norðureyrar. Framkvæmdastjóri Íslandsögu ehf. er Óðinn Gestsson.

Báturinn heitir Einar Guðnason ÍS 303 og er 15 metrar á lengd og mælist 30brúttótonn.  Hann leysir af hólmi eldri bát útgerðarinnar sem strandaði við Gölt síðla árs 2019.  

Skipstjórar á bátnum eru Bjarni Bjarnason og Friðrik Ólafsson.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Doosan V158 480kW (15L) tengd frístandandi ZF 360 V-gír.

Rafstöð og glussarafall er af gerðinni Scam frá Ásafli ehf.

Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni JRC og Raymarine frá Sónar ehf.

Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifnum hliðarskrúfum að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins.

Báturinn er útbúinn til línuveiða. Beitningavél, rekkakerfi og línuspil er frá Mustad í Noregi.

Búnaður á dekki er frá Stálorku.

Ísvél og forkælir er frá Kælingu ehf.

Í bátnum er ARG250 stöðugleikabúnaður frá Ásafli ehf. 

Lífbátar og annar öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

Rými er fyrir allt að 43 stk. 460 lítra kör í lest.  Millidekk er lokað með aðgreindu dráttarrými.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla.  Stór borðsalur er í brúnni.  Svefnpláss er fyrir fjóra í lúkar auk fullkominnar eldunaraðstöðu með eldavél, bakarofni, örbylgjuofn og ísskáp.

Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn í takt við það.

Báturinn hefur þegar hafið veiðar og gengið vel.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

FISK Seafood kaupir útgerðarfélagið Ölduós

2718. Dögg SU 118 ex Dögg SF 18. Ljósmynd Sigurður Davíðsson 2019.

Gengið hefur verið frá samningi um kaup FISK Seafood á útgerðarfélaginu Ölduósi ehf. á Höfn í Hornafirði og um leið á krókaaflamarksbáti félagsins, Dögg SU 118.

 Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Í tilkynningu frá FISK Seafood segir að aflaheimildir Daggar séu um 700 þorskígildistonn og eru heildarverðmæti viðskiptanna ríflega 1.8 milljarður króna. Dögg hefur til þessa verið gerð út frá Stöðvarfirði munu seljendur bátsins ljúka þessu fiskveiðiári með áhöfn sinni áður en afhending hins selda fer að fullu fram.

Með kaupunum styrkir útgerð FISK Seafood rekstur sinn og hlutdeild í bolfiskvinnslu félagsins. Þorskveiðikvótinn eykst um tæplega 5% og gera má ráð fyrir að viðbótaraflinn samsvari tveggja til þriggja vikna afkastagetu landvinnslu FISK Seafood á Sauðárkróki og Snæfellsnesi. Dögg SU 118 er smíðuð hjá Trefjum árið 2007. Báturinn er tæplega 15 brúttótonn, 11,5 brúttórúmlestir og ríflega 11 metrar að lengd.

Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri FISK Seafood: „Með þessum viðskiptum er FISK Seafood að fikra sig inn í smábátaútgerð á línu og skak og ef vel tekst til munum við halda áfram að byggja okkur upp á því sviði. Vertíðarbátarnir yrðu kærkomin viðbót við það aukna líf sem höfnin hér á Sauðárkróki hefur öðlast á undanförnum árum og þetta fyrsta skref með kaupunum á Dögg verður strax mikil styrking fyrir landvinnsluna og verðmætin sem hún er að skapa á hverjum degi.“

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Vinna við nýja Börk á áætlun

2983. Börkur NK 122. Ljósmynd Karl Jóhann Birgisson 2020.

Þeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri hafa dvalið í Skagen í Danmörku í tvo og hálfan mánuð þar sem þeir hafa fylgst með framkvæmdum um borð í nýjum Berki sem er í smíðum hjá Karstensens Skibsværft.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að þeir félagar hafi komið til landsins í jólafrí 12. desember sl. og er gert ráð fyrir að Karl Jóhann og Hörður Erlendsson vélstjóri haldi til Skagen eftir áramótin þegar framkvæmdir við skipið hefjast á ný fyrir alvöru.

Heimasíðan ræddi stuttlega við Karl Jóhann og spurði frétta.

„Skipið liggur í Skagen og þar er unnið um borð af miklum krafti. Að undanförnu hafa um 160-170 manns starfað um borð í skipinu og til viðbótar er unnið á verkstæðum að verkefnum sem tengjast framkvæmdum um borð. Það er afar gott skipulag á framkvæmdunum.

Verkfundir eru haldnir reglulega og skipinu er skipt upp í svæði og á hverju svæði er verkstjóri sem ber ábyrgð á öllu sem þar fer fram. Það gengur allt snurðulaust fyrir sig og það er í reynd aðdáunarvert hvernig að málum er staðið. Verkið er á áætlun og samkvæmt henni  á skipið að fara í prufusiglingu í lok febrúar og afhending þess að eiga sér stað í apríl. Ýmislegt getur þó raskað áætluninni og það er þá helst covid.

Jóhann Pétur fylgist grannt með öllum framkvæmdum sem snerta vélar og tæki. Hann dvelur löngum stundum í vélarrúminu þar sem meðal annars þarf að ganga frá tveimur aðalvélum og tveimur ljósavélum. Á dögunum var gengið frá öllum krönum og vindum í skipinu og vóg sá búnaður hvorki meira né minna en 200 tonn.

Hafa skal í huga að við framkvæmdir um borð í Berki njótum við þess að systurskipið, Vilhelm Þorsteinsson, er einnig í smíðum hjá Karstensens og framkvæmdir þar eru lengra komnar. Vilhelm fór til dæmis í prufusiglingu á dögunum sem gekk afar vel. Það auðveldar ýmislegt hjá okkur að vera skip númer tvö,“ segir Karl Jóhann.