Björn Jónsson ÞH 345

7456. Björn Jónsson ÞH 345 ex Hilmir ST 1. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2014.

Grásleppubáturinn Björn Jónsson ÞH 345 frá Raufarhöfn kemur hér að landi á Húsavík þann 5. maí árið 2014.

Doddi Ásgeirs ehf. á Húsavík gerði bátinn út þessa grásleppuvertíðina en hann var í eigu Útgerðarfélagsins Röðuls ehf. á Raufarhöfn.

Þórður Birgisson skipstjóri og Baldur Kristinsson réru bátnum og komu þarna með han smekkfullann.

Báturinn hét upphaflega Bensi BA 46 og var smíðaður fyrir Leif Halldórsson á Patreksfirði árið 1997. Bátuinn, sem upphaflega var Víkingur 800, var smíðaður hjá Bátagerðinni Samtak í Hafnarfirði.

Árið 2003 fékk báturinn einkennisstafina ÍS 325 og heimahöfn í Bolungarvík en haustið 2004 var hann kominn til Hólmavíkur. Þar fékk hann nafnið Hilmir ST 1 eigandi Æður ehf. á Hólmavík.

Snemma árs 2014 höfðu Æður ehf. og Útgerðarfélagið Röðull ehf. bátaskipti og þá fékk báturinn það nafn sem hann ber á þessum myndum.

Um haustið var Björn Jónsson ÞH 345 seldur Von SH ehf. og fékk báturinn nafnið Gestur SH 187. Það nafn ber báturinn enn þann dag í dag og er heimahöfn hans Arnarstapi á Snæfellsnesi.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Björg Jónsdóttir ÞH 321

263. Björg Jónsdóttir ÞH 321 ex Gandí VE 171. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Björg Jónsdóttir ÞH 321 frá Húsavík er hér á síldarvertíð austanlands sennilega haustið 1986.

Upphaflega hét báturinn Þorbjörn II GK 541 og var smíðaður árið 1964 fyrir Hraðfrystihús Þórkötlustaða h/f í Grindavík. Smíðin fór fram í Djupvík í Svíþjóð en báturinn var 168 brl. að stærð. Hann var endurmældur síðar og mældist þá 131 brl. að stærð.

Árið 1977 kaupir Gunnlaugur Ólafsson í Vestmannaeyjum bátinn og nefnir Gandí VE 171. Gandí var gerður út frá Eyjum til ársins 1985 en í janúar það ár kaupir Langanes hf. á Húsavík bátinn sem fékk nafnið Björg Jónsdóttir ÞH 321.

Frá Húsavík var báturinn seldur til Dalvíkur þar sem hann fékk nafnið Hafsteinn EA 262. Þetta var í febrúar 1988, kaupandinn Haraldur hf. á Dalvík.

Meira um bátinn síðar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Olíutaka vestan við Svalbarða

Olíutaka við Svalbarða. Ljósmynd Eiríkur Sigurðsson 2020.

Eiríkur Sigurðsson skipstjóri á rækjufrystitogaranum Reval Viking tók þessa mynd í nótt þegar togarinn var að taka olíu.

Olíutakan fór fram vestan við Svalbarða en þangað kom olíuskipið Nordstraum með olíu fyrir togarann.

„Nánar tiltekið á 78 gráðum norður og 12 gráðum austur. Beint vestur af Isfjord“. Sagði Eiríkur skipstjóri aðspurður um staðssetninguna.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Margrét EA 710 seld til Færeyja

2903. Margrét EA 710 ex Antares LK 419. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Útgerð færeyska uppsjávarveiðiskipsins Christian í Grótinum hefur keypt uppsjávarveiðiskipið Margréti EA 710 af Samherja. Skipið verður afhent strax upp úr áramótunum.

Samherji keypti skipið frá Hjaltlandseyjum árið 2015 þar sem það bar nafnið Antares LK 419 og hafði heimahöfn í Hvalsey.

Frá því að Vilhelm Þorsteinsson EA 11 var seldur árið 2018 hefur Margrét EA 710 veitt kvóta Samherja í uppsjávarfiski. Eins og margir vita er nýr Vilhelm Þorsteinsson EA 11 í smíðum hjá Kar­sten­sensskipa­smíðastöðinni í Ska­gen í Danmörku og er stefnt að afhendingu hans í febrúar. 

Margrét EA 710 var smíðuð í Flekkefjord í Noregi árið 1995 en skipið var lengt árið 2009. Mesta lengd skipsins er 73 metrar og breiddin er um 13 metrar. Aðalvélin er af gerðinni Wartsila Vasa og er 4920kW. Í skipinu eru RSW kælitankar sem taka alls rúm 2.000 tonn.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Margréti EA 710 sé ætlað að brúa bilið þangað til nýr Christian í Grót­in­um, sem er í smíðum hjá Kar­sten­sensskipa­smíðastöðinni í Ska­gen, verður klár en hann er vænt­an­leg­ur til Fær­eyja í byrj­un árs 2022. 

Gamli Christian í Grót­in­um var seldur til Grænlands fyrir skömmu þar sem hann fékk nafnið Tasiilaq. Kaupandinn er fyr­ir­tækið Pelagic Green­land, sem er dótt­ur­fyr­ir­tæki Royal Green­land. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Geir RE 406

450. Geir RE 406. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Geir RE 406 var smíðaður árið 1960 í Þýskalandi og var upphaflega KE 1 með heimahöfn í Keflavík. Eigendur Ólafur Loftsson og Þorsteinn Þórðarson.

Um komu hans sagði svo frá í 4. tbl. Ægis 1956:

Fyrsti þýzki stálbáturinn kom hingað til Keflavíkur 8. þ. m. og heitir hann Geir.

Ferðin frá Hamborg gekk að óskum. Hún tók fimm og hálfan sólarhring enda þótt aflvélin, sem firmað Mak Kiel hefur smíðað og er 240 hestöfl, hafi ekki verið knúin til fulls.

Báturinn er 22,57 metrar að lengd, 76 smálestir. Hann er búinn fullkomnustu tækjum og vandaður að öllum frágangi. Lestin er klædd aluminium. Þrýstivatns-kerfi fyrir drykkjar- og þvottavatn o. s. frv.

Báturinn er byggður samkvæmt reglum þýzka Lloyds fyrir hafskip. Því hefur hann ýmsan öryggisútbúnað sem mun vera óþekktur hjá okkur, en þessar reglur heimta. Ennfremur fullnægir báturinn kröfum samkvæmt íslenzkum reglum.

Farið hefur verið eftir teikningum og ráðleggingum Egils Þorfinnssonar bátasmiðs um fyrirkomulag og ýmsan útbúnað, sem reynsla hefur fengizt fyrir að hæfi íslenzkum staðháttum.

Óhætt mun að fullyrða að ekkert hefur verið tilsparað að gera bátinn sem bezt úr garði og gera menn sér vonir um að þar með bætist íslenzka fiskiskipaflotanum gott skip.

Þess má geta, að báturinn kom að öllu leyti útbúinn til þorsk- og síldveiða og var því umsvifalaust tilbúinn að hefja róðra.

Eigendur bátsins eru Ólafur Loftsson útgerðarmaður, og hinn góðkunni og fengsæli skipstjóri Þorsteinn Þórðarson, Keflavík.

Annar sams konar bátur er væntanlegur til Vestmannaeyja í þessum mánuði.

Firmað D. W. Kremer Sohn, Elmshorn, hefur smíðað bátinn en umboðsmenn firmans eru Kristján G. Gíslason & Co., hf.

Geir KE 1 var seldur Ingólfi Kristjánssyni í REukjavík í desembermánuði 1964 og varð hann RE 406 við það. Í nóvember ári síðar kaupir Sjófang h/f bátinn. Það var svo í febrúar 1971 sem feðgarnir Pétur Stefánsson og Guðbjörn Stefánsson kaupa bátinn sem heldur nafni sínu og númeri.

Geir RE 406 var seldur til Ólafsvíkur árið 1989 þar sem hann fékk nafnið Jökull SH 15, kaupandinn Hrói hf. í Ólafsvík. Báturinn var seldur á fornar slóðir sumarið 1992 þegar Ísnes ehf. keypti hann til Keflavíkur. Þar fékk hann nafnið Sigurvin Breiðfjörð KE 7.

Í ársbyrjun 1994 fékk báturinn nafnið Skúmur KE 122, eigandi Sæunnur ehf. og það nafn bar hann til ársins 1999. Þá fékk hann nafnið Eldey GK 74 þegar Útgerðarfélagi Skaginn ehf. keypti hann og samkvæmt skipaskrá heitir hann það enn.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Elín ÞH 82

2392. Elín ÞH 82 ex Særós GK 208. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Elín ÞH 82 frá Grenivík var smíðuð hjá Trefjum í Hafnarfirði árið 2000 og hét upphaflega Inga Hrund ÁR 388. Eigandi Útgerðarfélagið Saga ehf. í Þorlákshöfn.

Elín ÞH 82 er í eigu Elínar ÞH 82 ehf. en báturinn var keyptur til Grenivíkur frá Grindavík árið 2004. Þar hafði báturinn verið frá árinu 2003 og borið nafnið Særós GK 8, síðar GK 208.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Að kveldi annars í jólum

Við Húsavíkurhöfn að kveldi annars í jólum. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Tók smá rúnt niður á bryggju og tók nokkrar myndir í leiðinni og hér birtist ein þeirra.

Það var alveg logn og nýfallin föl svo það var auðvelt að láta freistast til myndatöku.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þráinn ÞH 2 í Húsavíkurhöfn

5357. Þráinn ÞH 2 ex Leiknir SI 33. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Þráinn ÞH 2 er hér að færa sig til eftir löndun, Pálmi við stýrið og Benni klár með endann.

Um Þráinn, sem var smíðaður á Siglufirði árið 1972, má lesa hér en báturinn var í eigu bræðranna Pálma og Benedikts Héðinssona á Húsavík.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution