Friðgeir Björgvinsson RE 400

1851. Friðgeir Björgvinsson RE 400. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Friðgeir Björgvinsson RE 400 var smíðaður hjá Stálvík í Garðabæ og hafði smíðanúmer 35 hjá stöðinni.

Báturinn, sem smíðaður var fyrir Helga Friðgeirsson í Reykjavík, var afhnetur frá skipasmíðastöðinni 18. desember 1987. Hann var sérstaklega útbúinn til línuveiða með Mustad línuvélasamstæðu eins og segir í 10. tbl. Ægus árið 1988.

Friðgeir Björgvinsson RE 400, sem var yfirbyggður og var þá nýlunda á svo litlum bát, var 20 brl. að stærð. Hann var 13,42 metrar að lengd og 4,01 metrar á breidd. Aðalvélin var 182 kw. Ford Mermaid.

Báturinn var lengdur í 14,95 metra árið 1997 en þá hét hann Arnar SH 157. Við það varð hann 22 brl. að stærð.

Síðar hét báturinn Arnar II SH, Bjarni Svein SH, Kristín Finnbogadóttir BA, Nunni EA, Sólrún EA og loks Sól. Fyrst EA og í dag ÍS 330 en báturinn var keyptur til Suðureyrar eftir mikinn eldsvoða sem varð um borð í bátnum við bryggju á Árskógssandi 12. nóvember 2017.

Árið 2001 var sett ný vél í bátinn, 355 hestafla/261 kw. Deutz.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Maí TH 194

Maí TH 194. Mynd úr safni Helga Árnasonar.

Maí TH 194 var smíðaður á Akureyri 1955, af Nóa bátasmið, og var 8 brl. að stærð búinn 44 hestafla Kelvin díselvél.

Eigendur frá 10. júlí 1956 voru Pálmi Héðinsson, Sigtryggur Brynjólfsson, Helgi Árnason, Kristján St. Jónsson og Halldór Þorvaldsson.

Báturinn fórst á Axarfirði 21. október 1959 og með honum tveir menn. Heimild Íslensk skip.

Í Þjóðviljanum 25. október er að finna þessa frétt:

Talið er nú fullvíst að vélbáturinn Maí frá Húsavík, sem á voru tveir menn, hafi farizt.

Á bátnum voru þessir menn: Kristján Stefán Jónsson,51 árs, kvæntur og átti 5 börn, Aðalsteinn Baldursson, 26 ára, kvæntur og átti 1 barn.

Maí fór í róður frá Húsavík sl. miðvikudag austur að Mánáreyjum. Kl. 12 talaði hann í talstöðina og bjóst við að verða á Húsavík kl hálf-fjögur til fimm. Þá átti hann eftir að draga nokkuð af línunni. Síðan hefur ekkert til hans spurzt. Leit var hafinn þegar hann kom ekki fram á tilsettum tíma. Ýmislegt úr bátnum fannst austan Mánáreyja en leit sem var haldið áfram síðast í gær hefur engan árangur borið, og er nú talið fullvíst að báturinn hafi farið með mjög skjótum hætti.

Myndin kemur úr safni Helga Árnasonar frá Ásgarði á Húsavík en hann var einn eigenda bátsins um tíma.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Dagatalið er komið út

993. Náttfari og 260. Garðar við bryggju á Húsavík í dag. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Dagatal Skipamynda fyrir árið 2020 er komið úr prentun og er þetta í ellefta skipti sem það kemur út.

Eins og sjá má á myndinni fyrir ofan sem tekin var í dag er vetrarveður á landinu, ef einhver hefur ekki tekið eftir fréttum þar um, og kemur dagatalið því ekki til mín fyrr en á fimmtudag eða föstudag.

Myndin tengist ekki dagatalinu sem áhugasamir geta pantað á korri@internet.is, verðið er 3300 kr. og fyrstir koma fyrstir fá.

Á dagatalinu má finna sum af nýjustu skipum flotans í bland við eldri skip og eru þau af öllum stærðum og gerðum.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Ný skip við bryggju í Hafnarfirði

2965. Bárður SH 81, 2962. Vörður ÞH 44. 2958. Áskell ÞH 48. Ljósmynd Magnús Jónsson 2019.

Magnús Jónsson tók þessa mynd í Hafnarfirði fyrir helgi en hún sýnir þrjú af nýjustu skipum flotans.

Bárður SH 81 er nýkominn til landsins en hann var smíðaður í Danmörku og Gjögursbátarnir Vörður ÞH 44 og Áskell ÞH 48 komu fyrr á árinu.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Bergur VE 44 á miðunum í dag

2677. Bergur VE 44 ex Brodd 1. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Hólmgeir Austfjörð tók þessar myndir í morgun af togaranum Bergi VE 44 þar sem hann var á toginu fyrir austan land.

Bergur VE 44 var smíðaður í Danmörku árið 1998 en Bergur ehf. keypti hann til landsins frá Noregi haustið 2005. Bergur VE 44, sem er 569 BT að stærð, hét Bodd 1 og var gerður út frá Álasundi. Hann er 36 metrar að lengd og breiddin er 10,50 metrar.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Samskip Skaftafell og Seifur

IMO 9164562. Samskip Skaftafell. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Flutningaskipið Samskip Skaftafell kom til Akureyrar í dag og naut aðstoðar hafnsögubátsins Seifs þegar komið var að Fiskihöfninni.

Samskip Skaftafell var smíðað árið 2000 og siglir undir fána Antigua & Barbuda með heimahöfn í Saint John´s.

Skipið er 101 metrar að lengd og breidd þess 19 metrar. Það mælist 4,450 GT að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Stjarnan og Ólafur Tryggvason á Hornafirði

202. Stjarnan RE 3 – 162. Ólafur Tryggvason SF 60. Ljósmynd Ágúst Guðmundsson.

Á þessari mynd Ágústs Guðmundssonar sem hann tók á Höfn í Hornafirði má sjá Stjörnuna RE 3 og utan á henni Ólafur Tryggvason SF 60. Í fjarska er Gissur hvíti SF 55 að ég held.

Ólafur Trygvason SF var smíðaður í Noregi 1960 fyrir Tryggva Sigjónsson h/f  á Hornafirði. 1976 er báturinn seldur til Hafnarfjarðar þar sem hann fær nafnið Hringur GK 18. Kaupendur Aðalsteinn og Helgi Einarssynir og Ingimundur Jónsson. Hringur var lengdur 1978.

Selt í júní 1980 Blikamönnum á Dalvík og þar fær hann Blikanafnið og EA 12. Yfirbyggður og skipt um brú 1985 að mig minnir. Síðar fékk hann nöfnin Arnar ÁR 55, Sólrún EA 351, Arnar SH 157 og Fiskaklettur HF 123 áður en hann var seldur til Noregs. 

Stjarnan RE 3 var smíðuð í Svíþjóð 202. Stjarnan 1947 fyrir Ríkissjóð Íslands. Eigandi frá 1949 var Sjöstjarnan h/f í Reykjavík. 1966 er það komið í eigu Sjöstjörnunnar h/f í Njarðvík og 1975  selt austur á Höfn og fær nafnið Svalan SF 3. Eigendur Sigtryggur Benediktz Höfn og Bjarni Jónsson Kópavogi.

1980 er skráður eigandi Svalan h/f Hofn í Hornafirði og sama ár fær það nafnið Jón Bjarnason SF 3. Báturinn strandaði og sökk nálægt Papey 12. okt. 1982. Áhöfnin, 9 manns, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Sturlaug II frá Þorlákshöfn. Heimild: Íslensk skip.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Páll Jónsson GK 7

1030. Páll Jónsson GK 7 ex Goðatindur SU 57. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Línuskipið Páll Jónsson GK 7, nú GK 357, verður leystur af hólmi á nýju ári en von er á nýjum Páli Jónssyni GK 7 frá Póllandi í upphafi árs.

Páll Jónsson GK 7 var smíðaður í Hollandi 1967 og hét upphaflega Örfirisey RE 14. Það verður spennandi að sjá hvað um hann verður. Fer hann í pottinn eða bíða hans einhver verkefni.

Þessi mynd var tekin haustið 2012 þegar hann kom til löndunar á Húsavík.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Fönix ST 177

177. Fönix ST 177 ex Arnfríður Sigurðardóttir RE 14. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2016.

Rækjubáturinn Fönix St 177 kom til Húsavíkur um miðjan mars árið 2016 og þá voru þessar myndir teknar. Þegar hann kom og fór. Erindi hans var að ná í rækjutroll.

Fönix ST 177, sem smíðaður var árið 1960 í Noregi, hefur verið í eigu Ragnars ehf. á Hólmavík frá árinu 2012 en upphaflega hét báturinn Seley SU 10.

Báturinn er 25,96 metrar að lengd, breidd hans er 6,41 metrar og hann mælist 187 BT að stærð. Aðalvél hans er 850 hestafla Caterpillar frá árinu 1985.

Fönix var yfirbyggður árið 1986 og ný brú sett á hann. Hann hafði þá verið lengi í endurbyggingu í Dráttarbraut Keflavíkur h/f sem eignaðist hann árið 1982. Báturinn hafði skemmst mikið eftir að eldur kom upp í honum árið 1978. Þá hét hann Jón Ágúst GK 60. Eftir endurbygginguna fékk hann nafnið Fönix KE 111.

Eftir það hefur hann heitið mörgum nöfnum en sennilega þekktastur sem Bergvík VE 505 eftir að hafa strandað í Vöðlavík í desembermánuði 1993.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Halkion VE 205

969. Halkion VE 205.

Þessa mynd af Halkion VE 205 fékk ég senda í febrúar 2014 og í texta sem fylgdi með segir að hann sé að koma til hafnar með 260 tonn af síld.

Ekki fylgdi með nafn ljósmyndara en ég hef séð hana áður á netinu.  Myndin var í eigu Helga Þorleifs Erlendssonar bónda á Löndum í Stöðvarfirði.

Halkion VE 205 var smíðaður í Boizenburg í Austur-Þýskalandi árið 1964. Eigandi var Halkion h/f í Vestmannaeyjum. Báturinn var 264 brl. að stærð, búinn 660 hestafla Listeraðalvél.

Halkion VE 205 var seldur til Noregs árið 1975, tekinn af skipaskrá 15. apríl það ár.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution