Sigurfari ST 30

1916. Sigurfari ST 30 ex Sigurfari ÓF 30. Ljósmynd Börkur Kjartansson.

Rækjuskipið Sigurfari ST 30 frá Hólmavík liggur hér við bryggju á Húsavík undir lok síðustu aldar.

Ekki er langt síðan fjallað var um skipið hér og birt mynd af því sem Sigurfara ÓF 30.

Sigurfari hét upphaflega Stafnes KE 130 og var smíðað í Kolvereid í Noregi árið 1988 fyrir Keflvíkinga. Skipið er 34,72 metrar að lengd, 8 metra breiður og mælist 176 brl. að stærð. 

Stafnes KE 130 var selt til Ólafsfjarðar árið 1991 og kom í stað Sigurfara ÓF 30 sem fór upp í kaupin. Fékk skipið nafnið Sigurfari ÓF 30.

Sigurfari ÓF 30 var seldur Hólmadrangi hf. á Hólmavík vorið 1998 og þaðan ti Noregs í desember 1999. Sigurfari hét nafninu en varð ST 30 eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Merike komin í rauða litinn

IMO 9227534. Merike EK 1802 ex Regina C. og 2489. Hamar. Ljósmynd Maggi Jóns 2019.

Maggi Jóns tók þessar myndir í dag þegar rækjutogarinn Merike EK 1802 kom úr flotkvínni og að bryggju í Hafnarfirði.

Það voru Hamar og Grettir sterki sem sáu um að koma Merike að bryggju.

Merike EK 1802 var smíðaður fyrir Grænlendinga í Danmörku árið 2002 og hét áður Regina C. Hann er í eigu útgerðafyrirtækisins Reyktal.

Togarinn er 70 metrar á lengd og 15 metra breiður og er með heimahöfn í Tallinn í Eistlandi.

IMO 9227534. Merike EK 1802 ex Regina C., 2975. Grettir sterki og 2489. Hamar. Ljósmynd Maggi Jóns 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hersir HF 227

1626. Hersir HF 227 ex Hafrenningur GK 38. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

28. júní 1982 bættist í íslenska fiskiskipaflotann, skip sem keypt var notað frá Danmörku. Skip þetta hét upphaflega Michelle Cherie og er smíðað hjá Sakskbing Maskinfabrikk og Skibsværft í Danmörku árið 1976 og er smíðanúmer 20.

Þegar skipið kom til landsins varþað keypt af Hafrenningi h.f.í Grindavík og fékk það nafnið Hafrenningur GK 38. Í júní 1984 var það nefnt Hersir HF 227, eigandi Hersir h.f. í Hafnarfirði.

Skipið var upphaflega smíðað sem eins þilfars síðutogari til veiða á bræðslufiski, en árið 1980 var byggt yfir skipið, því breytt til línuveiða og sett í það línubeitingavél frá Mustad ásamt ýmsum tilheyrandi búnaði.

Á miðju ári 1984 var settur um borð búnaður til að sjóða og frysta rækju, og einnig var lestabúnaði breytt miðað við þann veiðiskap. Ægir 12. tbl. 1984.

Hersir var 41 metrar að lengd, hann var 8 metra breiður og mældist 295 brl. að stærð. Aðalvél 800 hestafla Alpha-Diesel.

Skipið átti eftir að vera Hersir ÁR 2, og ÍS 33, Klettur SU 100, Vigdís Helga 700 og Gissur Hvíti SF 55 og GK 457 áður en það var selt til Kanada um miðjan síðasta áratug.

Þar hefur það borið nöfnin Oujukoaq og Sikuvut.

Sett var á skipið ný brú, notuð frá Noregi ef ég man rétt, sennilega 1997.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Særif SH 25 mun veiða fyrir Íslandssögu

2822. Særif SH 25 ex Hálfdán Einarsson ÍS 128. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Íslandssaga ehf. á Suðureyri hefur náð samningum við fyrirtækið Melnes ehf. á Rifi og mun bátur síðarnefnda fyrirtækisins veiða fyrir Íslandssögu næsta mánuðinn. 

Það er bb.is á Ísafirði sem greinir frá þessu og þar segir m.a:

það er Særif SH 25 30 tonna krókaaflamarksbátur sem mun veiða og leggja upp afla sínum til Íslandssögu og Íslandssaga mun leggja bátnum til kvóta eftir föngum auk þess að sem hann mun veiða af kvóta sínum.

Særif SH 25 er beitningavélabátur. Óðinn segir að með þessu sé búið að tryggja samfellu í rekstri Íslandssögu a.m.k. næsta mánuðinn og gefst þá tími til að huga að varanlegri lausn á vanda fyrirtækisins vegna strands Einars Guðnasonar ÍS 303.

Særif SH 25 kom úr fyrsta róðri sínum hér fyrir vestan í gærkvöldi og landaði 12 tonnum, mest þorski.

Særif SH 25 hét upphaflega Hrólfur Einarsson ÍS 255 og var í eigu Völusteins ehf. í Bolungarvík. Hrólfur Einarsson ÍS 255 var smíðaður árið 2012 hjá Trefjum í Hafnarfirði. Eftir að báturinn var lengdur um þrjá metra árið 2013 fékk hann nafnið Hálfdán Einarsson ÍS 128. 2015 er báturinn seldur Melnesi ehf. á Hellisandi og fær nafnið Særif SH 25.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Nanna Ósk II ÞH 133 – Myndasyrpa

2793. Nanna Ósk II ÞH 133. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2010.

Eins og áður hefur komið fram á síðunni kom ný Nanna Ósk II ÞH 133 til heimahafnar á Raufarhöfn þann 5. nóvember árið 2010.

Þessar myndir voru teknar daginn eftir, sama dag og ný Hófaskarðsleið var formlega vígð ef einhver skyldi hafa á huga á að vita það.

Það var Útgerðarfélagið Stekkjavík ehf. á Raufarhöfn sem lét smíða bátinn, sem er af Cleopatra 38 gerð, hjá Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni standa bræðurnir Ragnar Axel og Hólmgrímur Jóhannssynir.

 Nanna Ósk II ÞH 133 er 15 brúttótonn og gerð út í aflamarkskerfinu. Hér að neðan eru nokkrar myndir sem ég tók þennan dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Flatey kemur úr Flatey

7405. Flatey ÞH ex Fugl. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Flatey er skemmtibátur í eigu Ingvars Sveinbjörnssonar á Húsavík og tók ég þessar myndir nú áðan þegar báturinn kom til hafnar á Húsavík.

Ingvar og hans fjölskylda eiga húseignir í Flatey og nota bátinn til siglinga á milli Húsavíkur og eyjunnar. Þaðan var hann að koma í dag.

Flatey var smíðuð í Bátasmiðju Guðmundar í Hafnarfirði árið 1995 og var af gerðinni Sómi 860. Hét, eftir því sem ég kemst, Sæþór RE 41. Báturinn var skráður sem skemmtibátur árið 2003.

Í dag er báturinn Sómi 1000 eftir að hafa farið í breytingar á Akureyri fyrir nokkrum misserum síðan.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Niðurrif togarans Orlik í Njarðvíkurhöfn

Orlik við Norðurgarðinn í Njarðvík. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Vinna við að rífa togarann Orlik se, að legið hefur í Njarðvíkurhöfn er komin í gang aftur eftir að Umhverfisstofnun stöðvaði vinnu við það í september. 

Jón Steinar tók þessar tvær myndir um helgina og sést að m.a er búið að rífa gálgana.

Orlik við Norðurgarðinn í Njarðvík. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Myndirnar hér að neðan tók Jón Steinar fyrr í haust eftir að togaranum var komið fyrir við Norðurgarðinn í Njarðvíkurhöfn.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Einar Guðnason ÍS 303 á strandstað við Gölt

2907. Einar Guðnason ÍS á strandstað við Gölt. Ljósmynd Guðmundur St. Valdimarsson 14. nóvember 2019.

Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á v/s Tý tók þessar myndir af Einari Guðnasyni ÍS 303 á strandstað við Gölt í mynni Súgandafjarðar.

Einar Guðnason ÍS 303 var að koma úr línuróðri skömmu fyrir miðnætti í 13. nóvember þegar strandið varð. Þyrla Landhelgisgæslunnar , TF-Eir, bjargaði áhöfninni.

Á vef Landhelgisgæslunnar segir svo frá:

Rúmlega tuttugu tonna fiskibátur strandaði við Gölt á utanverðum Súgandafirði í kvöld. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá bátnum klukkan 22:00 en fjórir voru um borð. TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út sem og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á norðanverðum vestfjörðum.

Báturinn skorðaðist fljótlega á milli kletta og braut nokkuð á honum. Hægur vindur var á svæðinu og þónokkur alda. 

Ekki reyndist unnt fyrir björgunarskip að komast nálægt strandstað frá sjó sökum brims og voru björgunarsveitir þá sendar landleiðina frá norðanverðum Súgandafirði. 

TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á vettvang klukkan 23:42 og áhöfn hennar hófst þegar handa við að bjarga skipverjunum fjórum um borð í þyrluna. Á miðnætti var búið að bjarga mönnunum, heilum á húfi, um borð í þyrluna. Þeir voru fluttir til Ísafjarðar.

Varðskipið Týr er væntanlegt á strandsstað í fyrramálið og verða aðstæður skoðaðar með tilliti til þess hvort hægt verði að ná bátnum af strandsstað.

Það er skemmst frá því að segja að bátnum varð ekki bjargað af strandstað og er þetta mikið högg fyrir atvinnulífið á Suðureyri. Báturinn, sem var í eigu Norðureyrar ehf., var burðarásinn rekstri fyrirtækisins.

2907. Einar Guðnason ÍS á strandstað við Gölt. Ljósmynd Guðmundur St. Valdimarsson 14. nóvember 2019.

Einar Guðnason ÍS 303, sem var smíðaður árið 2015 og hét upphaflega Indriði Kristins BA 751, var keyptur til Suðureyrar í fyrra.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sjødis á siglingu inn Jössingfjörðinn

Sjødis R-17-SK. Ljósmynd Baldur Sigurgeirsson 2019.

Sjødis heitir hann þessi eikarbátur sem Baldur Sigurgeirsson myndaði í Jössingfirðinum norska í dag.

Báturinn, sem í dag er frístundabátur í eigu Dalane Folkemuseum í Egersund, var smíðaður hjá Eidsbotten Båtbyggeri í Kopervik og afhentur frá þeim í janúar 1966.

Sjødis er 17,53 metrar að lengd, breiddin er 5,21 metrar og hún mælist 25 tonn að stærð. Í bátnum er 195 hestafla Callesen frá 1965.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Hagbarður TH 1

538. Hagbarður TH 1. Ljósmynd Steingrímur Árnason.

Hagbarður TH 1 frá Húsavík kemur hér til hafnar á Raufarhöfn drekkhlaðinn af síldarmiðunum.

Myndina tók Steingrímur Árnason, Steini á Fossi, en hann var vélstjóri á bátum frá Húsavík.

Hagbarður TH 1 var smíðaður í Reykjavík árið 1946 og eigandi hans Húsavíkurhreppur. Báturinn var 47 brl. að stærð búinn 160 hestafla Lister díeselvél. Árið 1955 var báturinn lengdur og mældist þá 54 brl. að stærð. Um leið var sett í hann 240 hestafla Lister í stað þeirra gömlu.

Hagbarður var seldur Útgerðarfélagi Húsavíkur h/f í ársbyrjun 1956 og um 1960 var umdæmisstöfum hans breytt í ÞH. Árið 1968 var Hagbarður seldur frá Húsavík, kaupandinn var Halldór G. Halldórsson ásamt Útvör h/f í Keflavík. Hann hélt nafninu en varð KE 15.

Árið 1968 var sett í hann 250 hestafla Caterpillarvél en í árslok 1969 var hann seldur Hag h/f í Keflavík, Í nóvember 1971 var báturinn seldur austur á Hornafjörð, enn hélt hann nafninu og varð SF 15.

Örlög bátsins urður þau að hann sökk eftir árekstur við eitthvað rekald um 20 sjm. vestur af Ingólfshöfða. Þetta var 13 október 1974 og bjargaðist fjögurra manna áhöfn hans í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Fylki NK. Heimild Íslensk skip.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.