Kaldbakur EA 1

1395. Kaldbakur EA 1 ex Kaldbakur EA 301. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Skuttogarinn Kaldbakur var smíðaður í San Juan skammt frá San Sebastian á Norður-Spáni fyrir Útgerðarfélag Akureringa h/f.

Kaldbakur kom í fyrsta skipti til heimahafnar á Akureyri í desembermánuði 1974 en á efstu og neðstu myndum sem nú birtast er hann að leggja upp í veiðiferð frá Akureyri 14. apríl árið 2012.

Í 1. tbl. Ægis árið 1975 var sagt frá þessum nýja togara Akureyringa og þar kom m.a þetta fram:

19. desember s.l. kom skuttogarinn Kaldbakur EA 301 til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Kaldbakur EA er 4. skuttogarinn sem Útgerðarfélag Akureyringa h. f. eignast og fljótlega mun sá 5. bætast við, Harðbakur EA. Kaldbakur EA er smíðaður hjá spönsku skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S. A., Pasajes de San Juan og er smíðanúmer 313.

Áður hafði stöðin smíðað fjóra skuttogara fyrir Íslendinga eftir sömu teikningu. Fyrsti skuttogarinn af þessari gerð var Bjarni Benediktsson RE 210 (sjá 2. tbl. ’73), en hinir þrír eru Júní GK, Snorri Sturluson RE og Ingólfur Arnarson RE. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á Kaldbak frá fjórum fyrstu og má þar helzt nefna véla og vindubúnað, sem er af annarri gerð.

Stóru Spán­ar­tog­ar­arnir voru sex að tölu og komu til lands­ins á ár­un­um 1973-1975. Kaldbakur EA 301 og Harðbakur EA 303 komu til Akureyrar, BÚH fékk Júní GK. BÚR fékk Bjarna Benediktsson RE 210 , Snorra Sturluson RE 219 og Ingólf Arnarson RE 201 sem nú er einn eftir og heitir í dag Blængur NK 125.

Eins og fram kemur var Kaldbakur upphaflega EA 301 og það var hann til ársins 1999 þegar hann var skráður EA 1. Árið 2004 er Brim h/f orðinn eigandi Kaldbaks en hann heldur nafni og númeri til ársins 2009. Þá fær hann nafnið Sólbakur EA 1.

Árið 2011 fær togarinn sitt gamla nafn aftur en er áfram EA 1 og kominn aftur í eigu Útgerðarfélags Akureringa ehf. á Akureyri.

1395. Sólbakur EA 301 ex Kaldbakur EA 1. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2017.

Það er svo í upphafi ársin 2017 sem hann verður aftur Sólbakur enda von á nýjum Kaldbak EA 1 sem var í smíðum í Tyrklandi. Sólbakur varð EA 301 og þannig fór hann frá landinu áleiðis til Ghent í Belgíu þar sem togarinn fór í brotajárn. Það var haustið 2018.

Gamli Kaldbakur siglir í humátt á eftir þeim nýja og Kaldbakur gnæfir yfir.
Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 4. mars 2017.
1395. Kaldbakur EA 1 ex Kaldbakur EA 301. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Sædís Bára GK 88

2829. Sædís Bára GK 88. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2013.

Sædís Bára GK 88 var smíðuð á Suðurnesjunum og sjósett í júnímánuði árið 2012.

Sædís Bára var með heimahöfn í Garði en eigandi hennar var H. Pétursson ehf.

Útgerðarsaga bátsins, sem var tæplge 19 BT að stærð, varð ekki löng því hann varð eldi að bráð í Sandgerðishöfn þann 13. júní árið 2014.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Eirik H-18-S

Erik H-18-S. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Bátasmiðjan Seigla á Akureyri afhenti þennan bát, Eirik H-18-S til Noregs í aprílmánuði árið 2012.

Á þessum myndum er hann í reynslusiglingu á Eyjafirði en hélt áleiðis til Noregs síðar þennan dag sem var 14. dagur aprílmánaðar.

Eirik, sem var með heimahöfn í Skogsvåg, heitir í dag Moagutt M-18-M.

Eirik H-18-S. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Erika GR-18-119

Erika GR-18-119 ex Birtingur NK 119. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Grænlenska loðnuskipið Erika GR-18-119 lætur hér úr höfn á Húsavík í janúarmánuði árið 2012.

Erika hét upphaflega Hákon ÞH 250 og var smíðuð fyrir Gjögur h/f í Ulsteinsvik, Noregi árið 1987. Skipið er 820 brúttórúmlestir, 57 metrar að lengd og 12,5 metrar að breidd. 

Þegar nýr Hákon leysti þennan af hólmi árið 2001 fékk sá gamli nafnið Áskell EA 48.

Síldarvinnslan h/f keypti Áskel sumarið 2008 og fékk hann nafnið Birtingur NK 119. Síðsumars árið 2009 var Birtingur seldur til Grænlands og fékk þá nafnið Erika og heimahöfnin Tasilaq.

Kaupandinn var Grænlenska útgerðarfélagið East Greenland Codfish A/S en Síldarvinnslan á hlut í því fyrirtæki.

Erika er nú undir flaggi Marakkó.

Erika GR-18-119 ex Birtingur NK 119. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Hásteinn og Múlaberg við bryggju í Þorlákshöfn

1751. Hásteinn ÁR 8 ex Örn VE 244. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Hólmgeir Austfjörð tók þessar myndir í Þorlákshöfn í morgun en þær sýna dragnótabátinn Hástein ÁR 8 og skuttogarann Múlaberg SI 32.

Múlaberg SI 22 ex Múlaberg ÓF 32. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Múlaberg SI 22 er annar tveggja svokölluðu Japanstogara sem eftir eru í flotanum. Hinn er Ljósafell SU 70 en upphaflega voru þeir tíu.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Keilir, nýtt skip Olíudreifingar

2946. Keilir. Ljósmynd Magnús Jónsson 2019.

Keilir, nýtt skip Olíudreifingar, kom til Reykjavíkurhafnar á dögunum en hann var smíðaður hjá Akdeniz skipasmíðastöðinni í Tyrklandi.

Skipið, sem mun leysa olíuskipið Laugarnes af hólmi, siglir undir íslenskum fána og er 378 brúttótonn að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Wilson Mersin lætur úr höfn á Húsavík

Wilson Mersin ex Ramnes. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Ég tók nokkrar myndir nú síðdegis þegar Wilson Mersin lét úr höfn á Húsavík eftir að hafa lestað afurðir frá PCC á Bakka.

Nánar má lesa um skipið í færslu hér að neðan sem birtist í dag.

Wilson Mersin ex Ramnes. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.
Wilson Mersin ex Ramnes. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.
Wilson Mersin siglir út Skjálfanda í dag. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Með því að smella á myndirnar má skoða þær í hærri upplausn.

Ósk ÞH 54

2447. Ósk ÞH 54 ex Guðný NS 7. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Ósk ÞH 54 kemur til hafnar á Húsavík í dag en hún er á netum.

Guðný er tæp 12 bt. að stærð, af AWIgerð og smíðuð í Færeyjum 1999. Það er Sigurður Kristjánsson sem gerir hana út.

Hér má lesa nánar um Ósk ÞH 54

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Guðmundur St. sigraði í norrænni ljósmyndakeppni

Gömul vísindi og ný. Ljósmynd Guðmundur St. Valdimarsson 2019.

Guðmundur St. Valdimarsson, bátsmaður á varðskipinu Tý, sigraði í ljósmyndakeppni sjómanna á Norðurlöndum.

Þetta er í annað sinn sem Guðmundur sigrar í keppninni. Ljósmyndin sem Guðmundur kallar Gömul vísindi og ný sigraði einnig í ljósmyndakeppni sjómannablaðsins Víkings í fyrra.

Úrslitin voru kunngjörð í dag en Guðmundur vann keppnina einnig fyrir sex árum, fyrstur Íslendinga.

Frá þessu segir á vef Landhelgisgæslunnar sem nýtur góðs af ljósmyndaáhuga Guðmundar en hann hefur tekið myndir af starfsemi Landhelgisgæslunnar í fjölmörg ár.

Vinningsmyndin var tekin þegar áhöfn varðskipsins Týs kom að stórum ísjaka en við það tækifæri rifjaði Thorben Lund, sem var skipherra í ferðinni, upp gömul fræði og staðfesti mælingar á ísjakanum með gamalli aðferð.

Guðmundur St. í aksjón með v/s Tý í baksýn. Ljósmynd Kristinn Ó Jóhannsson 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Wilson Mersin í höfn á Húsavík

Wilson Mersin við Bökugarðinn. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Í morgun kom flutningaskipið Wilson Mersin til hafnar á Húsavík eftir siglingu frá Grundartanga.

Skipið lagðist að Bökugarðinum þar sem fljótlega var hafist handa við að skipa út afurðum frá PCC á Bakka.

Wilson Mersin var smíðað árið 1981 og siglir undir kýpverskum fána með heimahöfn í Limassol.

Það mælist 3,937 GT að stærð, er 107 metra langt og 15 metra breitt.

Það hét upphaflega Ramnes en hefur heitið nöfnunum, Eemnes, Raknes og aftur Ramnes áður en það fékk núverandi nafn árið 2004.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.