Jónas Guðmundsson GK 275

1499. Jónas Guðmundsson GK 275 ex Jónas Guðmundsson SH 317. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2004.

Jónas Guðmundsson GK 275 kemur hér að landi í Sandgerði í febrúarmánuðið árið 2004. Báturinn var gerur út af J&G ehf. og með heimahöfn í Garði.

Í dag heitir báturinn Óskasteinn ÍS 16 en frá því að hann bar nafnið Jónas Guðmundsson og til dagsins í dag hefur hann borið nöfnin Fagurey HU 9 og Fagurey HF 21, Ígull HF 21, Ýmir BA 32 Ýmir ÁR 16 og Óskasteinn ÍS 16.

Báturinn hét upphaflega Flosi ÍS 15 og er 29 brl. að stærð. Flosi var smíðaður í Bátasmiðjunni Vör h/f á Akureyri árið 1977. Báturinn, sem smíðaður var fyrir Græði h/f og Jón Egilsson skipstjóra í Bolungarvík, hafði smíðanúmer nr. 9 hjá Vör.

Árið 1983 var báturinn seldur til Reykjavíkur og fékk nafnið Sæljón RE 19 sem hann bar næstu 17-18 árin. Eigandi Guðmundur Gunnarsson skipstjóri og útgerðarmaður.

Árið 2001 fékk útgerðin nýtt Sæljón RE 19 sem smíðað var í Kína og fékk báturinn þá nafnið Sæljón II RE 119 í stuttan tíma en var síðan keyptur til Hafnar í Hafnarfirði haustið 2001. Þar fékk hann nafnið Jón Aðal SF 63.

Það var svo haustið 2002 sem hann fék nafnið Jónas Guðmundsson GK 275. Skráður fljótlega í Ólafsvík með SH 317 en varð aftur GK 275 haustið 2003.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Haffari GK 240

78. Haffari GK 240 ex Haffari SH 275. Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

Haffari GK 240 er hér innan fjarðar á Austfjörðum þegar síldin gaf sig þar um árið.

Fiskverkun Garðars Magnússonar hf. í Njarðvík keypti bátinn frá Grundarfirði sumarið 1983 en þar bar hann nafnið Haffari SH 275.

Upphaflega Hafþór NK 76, smíðaður í Stralsund í Austur-Þýskalandi árið 1959.

Haffari GK 240 var seldur Álftfirðingi hf. á Súðavík árið 1986 og varð þá Haffari ÍS 430.

Meira um hann síðar..

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Fróði ÁR 33

10. Fróði ÁRr 33 ex Arnarnes GK 52. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hér liggur Fróði ÁR 33 frá Stokkseyri við bryggju í Hafnarfirði þar sem hann hefur verið í slipp og skverun. Handan bryggjunnar liggur Náttfari HF 185.

Fróði Ár 33 hét upphaflega Arnarnes GK 52 og var smíðaður árið 1963 í Stálsmiðjunni hf.í Reykjavík.

Báturinn var 103 brl. að stærð og smíðaður fyrir Íshús Hafnarfjarðar hf. í Hafnarfirði. Hann var fyrsta stálfiskiskipið sem smíðað var á Íslandi.

Arnarnes GK 52 var selt Hraðfrystihúsi Stokkseyrar ofl. í desembermánuði 1973. Báturinn fékk nafnið Fróði ÁR 33 sem hann hét allt til enda en hann var tekinn af skipaskrá sumarið 2008. Seldur í brotajárn.

Fróði Ár 33 gekk í gegnum breytingar á sínum tíma sem m.a fólust í nýrri brú, síðar var hann lengdur og yfirbyggður.

Allt um það síðar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hallsteinn EA 130

541. Hallsteinn EA 130 ex Hersteinn RE 351. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1963.

Hallsteinn EA 130 er hér við bryggju á Akureyri í októbermánuði árið 1963 en þar beið hann nýrra eigenda.

Þeir voru Olgeir Sigurgeirsson og synir hans Sigurður og Hreiðar sem tók þessa mynd. Þeir höfðu bátaskipti á Akureyri, komu siglandi á Nirði ÞH 44 sem var 10 brl. að stærð og sigldu heim til Húsavíkur á Hallsteini sem var 22 brl. að stærð.

Hallsteinn fékk nafnið Kristbjörg ÞH 44 og var sú fyrsta af fjórum bátum sem áttu eftir að bera þetta nafn og númer.

Báturinn var smíðaður í Danmörku 1934 og hét upphaflega Ægir GK 8, 22 brl. að stærð, og var frá Gerðum. Síðar hét hann Hersteinn ÁR, Hersteinn RE, Hallsteinn EA og loks Kristbjörg ÞH 44 árið 1963. 

Skálabrekkufeðgar gera hann út til ársins 1970 að hann er seldur til Suðurnesja. Þar heldur hann nafni sínu en verður GK 404 en örlög hans réðust þann 13 nóvember 1971 þegar hann strandaði á Stafnesi og eyðilagðist.

Hér má lesa frásögn sem segir frá því þegar Ægi GK 8 hvolfdi þann 12. febrúar 1944.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Bátar við bryggju á Húsavík

Bátar við bryggju á Húsavík. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Bátar við bryggju á Húsavík um árið, sést í skut Fanneyjar ÞH 130 og Kristbjörg ÞH 44 liggur utan á Sæljóni EA 55 frá Dalvík. Aftan við þá liggur Sæborg ÞH 55.

Sæljónið sökk haustið 1988 en hinir þrír voru seldir frá Húsavík.

Fanney og Sæborg komu aftur, eru hvalaskoðunarbátar í dag og bera sömu nöfn og á myndinni.

Kristbjörgin heitir í dag Örkin og er skemmtibátur frá Siglufirði.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Hjalteyrin EA 310

1514. Hjalteyrin EA 310 ex Arinbjörn RE 54. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hér birtist mynd af Hjalteyrinni EA 310 við bryggju á Akureyri og var hún tekin áður en skipið komst í rauða Samherjalitinn.

Togarinn, sem er 378 brl. að stærð, hét upphaflega Arinbjörn RE 54, smíðaður í Stálvík árið 1978 fyrir Sæfinn hf. í Reykjavík. Arinbjörn hafði smíðanúmer 26 hjá stöðinni en var fjórði skuttogarinn sem var smíðaður þar.

Honum var breytt í frystitogara í Stálvík árið 1985.

Samherji hf. á Akureyri keypti Arinbjörn RE 54 haustið 1989 og fékk hann nafnið Hjalteyrin EA 310.

Það nafn bar hann til ársins 1997 en snemma það ár var hann seldur til Onward Fishing Co., dótturfyrirtækis Samherja í Skotlandi. Hjalteyrin fékk nafnið Onward Highlander.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Hið nýja skip Fiskkaupa kom til Reykjavíkur í dag

IMO 9249398. Argos Froyanes JT9 ex Froyanes. Ljósmynd Guðmundur St. Valdimarsson 2021.

Fiskiskipið Argos Froyanes, sem Fiskkaup hf. hefur fest kaup, kom til hafnar í Reykjavík í dag.

Skipið, sem reyndar er komið á Íslenska skipaskrá undir nafninu Kristrún RE 177 og með skipaskrárnúmerið 3017, var smíðað 2001.

Skipið sem stundað hefur veiðar á tannsfiski í Suðurhöfum kom frá Kanaríeyjunm þar sem það var í slipp.

Nýja Kristrún mun verða útbúin til veiða á grálúðu í net.

Hún kemur í stað Kristrúnar RE 177 sem var smíðuð 1988. Sú var síðar lengd og er eftir það 47.7 metrar að lengd, breiddin 9 metra og mælist 765 brúttótonn að stærð.

Nýja skipið er 48,8 metrar að lengd og breidd þess 11,03 metrar. Það mælist 1,335 BT að stærð og er því mun stærra en það gamla.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Svanur RE 45 við Norðurgarðinn

3015. Svanur RE 45 ex Ilvid GR-18-318 Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2021.

Svanur RE 45, nóta- og togskip í eigu Brims hf. liggur hér við Norðurgarðinn í Húsavíkurhöfn.

Skipið hét áður Ilvid GR-18-318 og er nýkomið í flota Brims.

Svanur RE 45 hét upphaflega Strand Senior og var smíðað árið 1999, lengd skipsins er 67 metrar og breidd þess 13. Það mælist 1,969 brúttóttonn að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Andey ÍS 440

1980. Andey ÍS 440 ex Andey SF 222. Ljósmynd Olgeir Sigurðsson.

Rækjutogarinn Adney ÍS 440 er hér á toginu um árið en Frosti hf. í Súðavík keypti skipið frá Hornafirði og kom það til heimahafnar í marsmánuði 1994.

Haustið 1998 fór Andey til Gdansk í Póllandi þar sem skipið var upphaflega smíðað árið 1989. Erindið var m.a að láta lengja skipið sem var og gert um 12 metra. Þannig kom hún heim í byrjun febrúarmánaðar 1999. Eftir það mældist hún 331 brl. að stærð.

Andey ÍS 440 var seld til Færeyja árið 2008 þar sem hún fékk nafnið Beinisvörð TG 440.

Skipið fór í brotajárn fyrir nokkrum árum.

Í 5. tbl. Ægis árið 1989 er sagt frá komu Andeyjar SU 210 til Breiðdalsvíkur:

Andey SU 210 kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar 10 apríl s.l. Skip þetta er smíðað sem skuttogari og er með búnaði til fullvinnslu afla um borð. Skipið er smíðað hjá Northern Shipyard í Gdansk, Póllandi, nýsmíði númer B 284, og er hannað afstöðinni í samvinnu við Ráðgarð hf. 

Andey SU kemur í stað Stakkavíkur ÁR 107 (247), sem væntanlega verður úrelt.Andey SU er í eigu Hraðfrystihúss Breiðdælinga hf., Breiðdalsvík.

Skipstjóri á skipinu er Guðmundur Ísleifur Gíslason og yfirvélstjóri Sigurður Vilhjálmsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Svavar Þorsteinsson.

Andey SU 210, sem var 211 brl. að stærð, var seld til Garðeyjar hf. á Hornafirði síðla árs 1990. Eins og fyrr segir var hún seld til Súðavíkur árið 1994.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Brimnes SH 257

98. Brimnes SH 257 ex Magnús Kristinn GK 99. Ljósmynd Vigfús Markússon.

Brimnes SH 257 hét upphaflega Hilmir II KE 8 og var smíðaður árið 1963. Smíðin fór fram í Halsöy í Svíþjóð.

í 8. tbl. Faxa árið 1963 sagði svo frá:

Sunnudaginn 28. júlí í sumar kom nýr bátur til Keflavíkur, Hilmir II KE 8.

Báturinn er 110 lestir, smíðaður úr eik hjá J. W. Berg í Halsöy í Svíþjóð. Báturinn er búinn öllum fullkomnustu siglinga- og fiskileitartækjum og eru lestar klæddar aluminium, svo og eru skilrúm úr sama efni. Í bátnum er 470 ha. Kromhont dieselvél og gekk hann 10.5 sjómílur í reynsluferð.

Eigandi bátsins og framkvæmdastjóri er Sigurbjörn Eyjólfsson. Skipstjórinn, sem sigldi bátnum heim og verður með hann, er hinn kunni aflamaður, Einar Guðmundsson. 1. vélstjóri er Eiríkur Sigurðsson.

Hilmir II fór strax norður á síld og er nú fyrir stuttu kominn suður úr þeim leiðangri. Mun nú ætlunin, að hann fari á haustsíldveiðar við Faxaflóa.

Hilmir II var seldur Frosta hf. í Súðavík árið 1968 og fékk hann nafnið Valur ÍS 420. Sumarið 1972 kaupa Guðlaugur Guðmundsson, Óttar Guðlaugsson og Steinþór Guðlaugsson bátinn til Ólafsvíkur og nefna hann Jökulk SH 77. Í lok þessa árs er skráður eigandi Enni hf. í Ólafsvík.

Árið 1977 er sett í bátinn 650 hestafla GM dieselvél og 1980 er Jökull SH 77 seldur Guðjóni Bragasyni í Sandgerði. Hann nefndi bátinn Magnús Kristinn GK 99.

Stefán Hjaltason kaupir bátinnn aftur til Ólafsvíkur í febrúar 1982 og fær hann þá nafnið Brimnes SH 257.

Þann 3. september 1983 brann báturinn og sökk út af Jökli. Áhöfnin, fimm manns, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Saxhamar fra Rifi sem kom áhöfninni til lands. Heimild: Íslensk skip.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.