Eldborg HF 13

1525. Eldborg HF 13. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Eldborg HF 13 siglir hér til hafnar á Eskifirði haustið 1984, eða 1986, og myndin var tekin úr síldveiðibátnum Geira Péturs ÞH 344.

Eldborg HF 13 var smíðuð fyrir samnefnda útgerð árið 1978 og kom til heimahafnar í Hafnarfirði 30. desember það ár.

Skipið var smíðanúmer 136 hjá Fartygsentreprenader AB í Uddevalla í Svíþjóð, sem sá um smíðina. Smíði skipsins var hins vegar með þeim hœtti að smíði á skipsskrokk og yfirbyggingu fór fram í Svíþjóð hjá Karlstadverken.

Síðan var skipið dregið til Danmerkur, þar sem smíðinni var lokið, þ.e. smíði innréttinga, niðursetning á véla- og tœkjabúnaði og annar frágangur.

Það var skipsmíðastöðin Ørskovs Staalskipsvœrft í Fredrikshavn, sem annaðist þennan verkþátt sem ber númer 105 hjá stöðinni. Heimild Ægir 2. tbl. 1979.

Eldborg HF 13 var 59 metrar að lengd, breidd skipsins er 12 metrar og aðalvélar tvær 1600 hestafla Nohab.

Árið 1988 var Eldborg HF 13 keypt til Eskifjarðar þar sem hún fékk nafnið Hólmaborg SU 11.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Svanur RE 45

1029. Svanur RE 45 ex Esjar RE 400. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Svanur RE 45 er hér á siglingu á einhverjum firðinum fyrir austan en myndina tók Hreiðar Olgeirsson á síldarvertíð 1982 eða 3.

Svanur RE 45 hét upphaflega Brettingur NS 50 og var smíðaður árið 1967 fyrir Tanga h/f á Vopnafirði í Flekkufirði í Noregi. Brettingur var 317 brl. að stærð, búinn 800 hestafla Lister aðalvél.

Brettingur NS 50 var seldur til Reykjavíkur sumarið 1972 og fékk nafnið Esjar RE 400. Ári síðar keyptu Ingimundur Ingimundarson og Pétur Axel Jónsson Esjar og gefa honum nafnið Svanur RE 45. 

Rúmu ári síðar er Ingimundur orðinn einn eigandi að Svaninum sem var RE 45 til ársins 2002. Þá varð hann RE 40 þegar nýrri og stærri Svanur RE 45 leysti hann af hólmi.

Svanur RE 40 var seldur úr landi árið 2003 en hann hafði verið lengdur og yfirbyggður árið 1979 og mældist þá 330 brl. að stærð. Þá var einnig skipt um aðalvél, 1.330 hestafla Wartsila kom í stað Listersins.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Guðrún Þorkelsdóttir SU 211

2944. Guðrún Þorkelsdóttir SU 211 ex Qavak GR 2 1. Ljósmynd Þór Jónsson 2020.

Þór Jónsson á Djúpavogi, skipverji á Ljósafelli SU 70, tók þessa mynd af Guðrúnu Þorkelsdóttur SU 211 á miðunum seint í ágústmánuði.

Eskja hf. keypti skipið haustið 2017 en það hét áður Qavak GR 2 1 og var í eigu dótturfélags Brims á Grænlandi.

Upphaflega hét skipið, sem var smíðað í Noregi árið 1999, Vendla H-40-AV og var gert út frá Bergen. Árið 2013 fékk það nafnið Vendla II en 2015 var það selt til Grænlands þar sem það fékk nafnið Qavak GR 2 1.

Guðrún Þorkelsdóttir SU 211 er tæplega 68 metrar að lengd, breidd hennar er 13 metrar og hún mælist 1773 brúttótonn að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Jóna Eðvalds

2618. Jóna Eðvalds SF 200 ex Krossey SF 20. Ljósmynd Sverrir Aðalsteinsson 2020.

Uppsjávarveiðiskipið Jóna Eðvalds SF 200 kom til Hafnar í Hornafirði í dag og tók Sverrir Aðalsteinsson þessa mynd eftir að hún lagðist að bryggju.

Á heimasíðu Skinneyjar-Þinganess segir:

Jóna Eðvalds var smíðuð hjá Flekkefjord skipasmíðastöðinni í Noregi árið 1975.  Skipið hét áður Birkeland, Björg Jónsdóttir og Krossey. Jóna fór í miklar endurbætur í Póllandi árið 2004 þar sem skip var um aðalvél og ný brú sett á skipið. 2008 var frystilestum breytt og RSW kælikerfi sett í lestar skipsins. Jóna Eðvalds stundar uppsjávarveiðar á síld, loðnu og makríl. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Nýr Börkur sjósettur í Póllandi

Börkur NK 122. Ljósmynd svn.is 2020.

Í gær hófst vinna við að sjósetja nýjan Börk en hann er í smíðum hjá danska fyrirtækinu Karstensens Skibsværft AS. Skrokkur skipsins er smíðaður í skipasmíðastöð Karstensens í Gdynia í Póllandi og þar fer sjósetningin fram.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að skrokkurinn verði dreginn í nóvember nk. til Skagen í Danmörku og þar verður skipið fullklárað. Skipið verður sjósett án yfirbyggingar en hún verður sett á eftir sjósetninguna.

Sjósetningin fer þannig fram að hjólabúnaður er settur undir skipsskrokkinn og honum ekið út á stóran flotpramma sem er síðan dreginn frá bryggju og út á nægjanlegt dýpi. Sjó er síðan dælt í tanka prammans og honum sökkt nægilega mikið til að skipið fljóti. Það er síðan dregið að bryggju við skipsamíðastöðina þar sem haldið verður áfram að vinna í því.

Hinn nýi Börkur verður hið glæsilegasta skip í alla staði en það er byggt til nóta – og flotvörpuveiða. Lengd skipsins er 88 metrar, breiddin 16,6 metrar og dýptin 9,6 metrar. Stærð skipsins er 4.100 brúttótonn. Í skipinu verða tvær aðalvélar 3.600 kw hvor og ásrafall skipsins verður 3.500 kw. Þá verður í skipinu 820 kw hjálparvél. Alls verða 13 kælitankar í skipinu og til að kæla aflann verða tvö kerfi, hvort um sig 1.500 kw. Samtals verða tankarnir 3.420 rúmmetrar. Vistarverur verða fyrir 16 manns.

Gert er ráð fyrir að smíði skipsins verði að fullu lokið á komandi vori.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Skinney SF 20 kom til Grindavíkur í dag

2732. Skinney SF 20. Ljósmynd Jón Steinar 2020.

Skinney SF 20 kom til löndunar í Grindavík í dag en hún er á humarveiðum sem ganga tregla nú sem síðustu ár.

Skinney, var líkt og systurskipið Þórir SF 77,  smíðuð hjá Ching Fu Shipbuilding co.,LTD skipasmíðastöðinni í Taiwan árið 2008 fyrir Skinney-Þinganes hf. á Höfn í Hornafirði.

Þau komu til landsins vorið 2019 eftir umfansmiklar breytingar í Póllandi sem m.a fólust í um 10 metra lengingu.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Kap kom með makríl til Eyja

1742. Kap VE 4 ex Faxi RE 9. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2020.

Kap VE 4 kom með 250 tonn af makríl til Vestmannaeyja í morgun og tók Hólmgeir Austfjörð þessar myndir þá.

Eins og margir vita hér skipið upphaflega Jón Finnsson RE 506 og hér má fræðast meira um það.

Annars látum við myndirnar tala sínu máli.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Huginn kom með makríl til Eyja

2411. Huginn VE 55. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2020.

Huginn VE 55 kom með makrílfarm til Vestmannaeyja í morgun og þá tók Hólmgeir Austfjörð þessar myndir sem nú birtast.

Huginn VE 55 var smíðaður í Chile fyrir samnefnt félag árið 2001 og lengdur um 7,2 metra í Póllandi á síðasta ári.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Nýr Vilhelm sjósettur í Gdynia

Vilhelm Þorsteinsson EA 11. Ljósmynd Samherji.is 2020.

Nýr Vilhelm Þorsteinsson EA var sjósettur hjá skipasmíðastöðinni Kar­sten­sens Skibsværft í Gdynia í Póllandi hinn 12. júní síðastliðinn. 

Skrokkurinn var tilbúinn til sjósetningar fyrir átta vikum en vegna Covid-19 heimsfaraldursins var ekki að ráðist í hana fyrr en nú.

Á heimasíðu Samherja segir að skipið muni leysa af hólmi núverandi Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins fyrir tveimur áratugum. Burðargeta skipsins verður um 3.000 tonn af kældum afurðum.

„Um er að ræða nýsmíði sem við höfum beðið eftir með töluverðri eftirvæntingu. Skrifað var undir samninga vegna smíði skipsins hinn 4. september 2018 en þann dag hefðu tvíburarnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinssynir orðið 90 ára. Búnaður skipsins verður einstaklega góður, bæði hvað varðar veiðarnar sjálfar og meðferð aflans en einnig hvað varðar vinnuaðstöðu og vistarverur áhafnar,“ segir Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja hf.

Sjósetningin fer þannig fram að hjólabúnaður er settur undir skrokkinn og hann „keyrður“ út á stóran flotpramma sem er síðan dreginn frá bryggjunni og út á nægilegt dýpi. Sjó er þá dælt í tanka prammans þannig að hann fer á kaf nægilega mikið til þess að skipið fljóti. Það er síðan dregið aftur að bryggju við skipasmíðastöðina.

Í byrjun síðustu viku, eftir sjósetninguna, voru tvær aðalvélar skipsins, stýrishúsið með einni íbúðarhæð undir og radarmastrið sett um borð. Nokkurra daga vinna er eftir við skipið í Gdynia en það verður svo dregið til Skagen í Danmörku og smíðin kláruð þar. Er búist við að smíði skipsins ljúki vel fyrir jól.

Starfsmenn Karstensens tóku myndband af sjósetningu Vilhelms Þorsteinssonar EA. Hlekkur á myndbandið: Sjósetning Vilhelms Þorsteinssonar EA.

Guðmundur Ólafur ÓF 91

2329. Guðmundur Ólafur ÓF 91 ex Sveinn Benediktsson SU 77. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson

Guðmundur Ólafur ÓF 91 hét áður Sveinn Benediktsson SU 77 og var keyptur til landsins af SR Mjöl hf. árið 1999.

Skipið var smíðað í Noregi árið 1990 og er 56 metra langt og 11 metra breitt, alls 1.230 brúttólestir. Hét upphaflega Torson en bar nafnið Talbor þegar það var keypt hingað.

Skipið fékk nafnið Birtingur NK 119 áður en það var selt aftur til Noregs árið 2009. Þar fékk það nafnið Magnarson en síðar um árið var það selt til Færeyja þar sem það fékk nafnið Atlantsfarid VG 218.

Árið 2016 fékk það nafnið Norðhavið en ber í dag nafnið Cap Blanc CUR-135. Er í eigu Færeyinga en leigður hollensku fyrirtæki. Skráð í Willemstad á Curacao sem heyrir undir Holland.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution