Baffin Bay brann og sökk í Vigo

IMO 8822416. Baffin Bay M1033. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Eldur kom upp í skuttogaranum Baffin Bay í gær þar sem hann lá í höfn í Vigo á Spáni.

Hér má lesa frétt um atburðinn en togarinn sökk að lokum í höfninni.

Og hér er önnur frétt um þetta.

Meðfylgjandi mynd tók ég í Chapela við Vigoflóa sumarið 2019.

Baffin Bay var smíðaður árið 1995 (1993 segja sumar skrár) og siglir undir bresku flaggi með heimahöfn í Milford Haven sem er bær í Pembrokeshire, Wales.

Togarinn er 1,871 GT að stærð, 68 metra langur og 13 metra breiður. Hann veiðir í Suðurhöfum og kom til Vigo 19. nóvember sl. eftir mánaðarsiglingu frá Montevideo í Urugay.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hörður Björnsson lét úr höfn í dag

264. Hörður Björnsson ÞH 260 ex Gullhólmi SH 201. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Línuskipið Hörður Björnsson ÞH 260 lét úr höfn á Húsavík í dag eftir að hafa landað og beðið af sér bræluna.

Það er GPG Seafood ehf. sem gerir skipið út en það er með heimahöfn á Raufarhöfn.

Upphaflega hét skipið Þórður Jónasson, fyrst RE 350 en lengst af EA 350. Smíðaður í Noregi 1964.

GPG Seafood ehf. keypti hann frá Stykkishólmi árið 2015 en þar hét hann Gullhólmi SH 201.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Víkurberg SK 72

1866. Víkurbeg SK 72. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Þarna má sjá kallana á Víkurbergi SK 72 draga netin en báturinn var í eigu Víkufisks með heimahöfn í Haganesvík í Fljótum.

Í jólablaði Einherja, sem var blað Kjördæmissambands framsóknarmanna á Norðurlandi vestra, árið 1987 sagði svo frá:

Nýlega bættist nýr bátur í flota Fljótamanna, Víkurberg SK-72. Skrokkur bátsins, sem er úr trefjaplasti, var framleiddur hjá Trefjaplasti h.f. á Blönduósi sáu síðan um að fullgera bátinn, Vélaverkstæði Jóns og Erlings, Berg h/f og Rafbær s/f. 

Báturinn, sem sýndur var á sjávarútvegssýningunni í Reykjavík í haust, er allur hinn glæsilegasti og vakti mikla athygli á sýningunni. Kostnaðarverð mun vera um 10 milljónir króna. Eigendur eru þeir feðgar frá Syðsta-Mói, Zophonías Frímannsson, Hilmar Zophoníasson og Sveinn Zophoníasson. 

Víkurberg var síðar skutlengt og útbúið til dragnótaveiða.

Fiskkaup hf. kaupir bát og kvóta í ársbyrjun 2003 en hvað varð um bátinn kemur síðar en hann heitir Straumur BA 800 í dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Ísleifur IV ÁR 463

250. Ísleifur IV ÁR 463 ex Ísleifur IV ÁR 66. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Ísleifur IV ÁR 463 var upphaflega VE 463 og var smíðaður í Noregi árið 1964 fyrir Ársæl Sveinsson útgerðarmann í Vestmannaeyjum.

Báturinn var 216 brl. að stærð, búinn 450 hestafla Stork diesel aðalvél.

Sumarið 1975 voru skráðir eigendur Ársæll Ársællsson Selfossi og Erlingur Ævar Jónsson Þorlákshöfn. Skipið hét Ísleifur ÁR 66.

Skipið var endurmælt árið 1975 og mældist þá 171 brl. að stærð. Það var yfirbyggt árið 1981 og eftir það mældist það 172 brl. að stærð. 1982 var sett í það ný aðalvél, 800 hestafla Mirrlees Blackstone.

Í ágúst 1978 er skráður eigandi Ársæll Ársælsson Selfossi og skipið hét Ísleifur IV ÁR 463. Hafnarberg h/f í Þorlákshöfn kaupir Ísleif IV vorið 1979.

Í nóvember árið 1987 var Ísleifur IV ÁR 463 seldur til Hafnar í Hornafirði. Kaupandi Skinney h/f og fékk báturinn nafnið Skinney SF 30. Heimild Íslensk skip.

Árið 1993 var Skinney SF 30 skutlengd hjá Vélsmiðjunni Stál á Seyðisfirði og mældist eftir það 175 brl. að stærð.

Skinney SF 30 fór af íslenskri skipaskrá árið 2008.

Ísleifur IV átti sér tvö systurskip í Vestmannaeyjum, Berg VE 44 og Huginn II VE 55. Hið þriðja var Bára SU 526.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sænes EA 75

797. Sænes EA 75 ex Rikhard SK 77. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1986.

Netabáturinn Sænes EA 75 er hér á miðunum úti fyrir Norðurlandi á vetrarvertíð. Hann var gerður út frá Dalvík árin 1982-1987.

Upphaflega hét báturinn Straumnes ÍS 240 og var smíðaður árið 1959 í A-Þýskalandi fyrir Kögur h/f á Ísafirði. Hann var 94 brl. að stærð og smíðaður í Brandenburgskipasmíðastöðinni.

Straumnes ÍS 240 kom til heimahafnar á Ísafirði um jólin 1959 og hafði samflot með Mími ÍS 30 frá Hnífsdal sem var samskonar bátur smíðaður á sama stað.

Sumarið 1976 var Straumnesið selt til Þorlákshafnar þar sem það fékk nafnið Jón Sturlaugsson ÁR 7. Eigandi Guðni Sturlaugsson. Í desember 1977 kaupir Þór h/f á Eskisfirði bátinn og nefnir Vött SU 37, síðar SU 3.

Haustið 1980 kaupir Hermann B. Haraldsson á Djúpavogo bátinn sem fær nafnið Flóki SU 18. Í ársbyrjun 1982 er báturinn keyptur til Hofsóss þar sem hann fékk nafnið Rikhard SK 77. Eigandi Kögurvík h/f á Hofsósi.

Í lok sama árs, þ.e.a.s 1982 er báturinn keyptur til Dalvíkur og fær nafnið Sænes EA 26. Eigandi Stórhóll h/f á Dalvík.

Sænes virðist hafa verið selt til Siglufjarðar 1985 en Rán h/f. keypt það til Dalvíkur aftur sama ár og þá færð það EA 75..

Í Morgunblaðinu 19. desember það ár mátti lesa eftirfarandi frétt:

Til Dalvíkur kom í síðustu viku nýr stálbátur, 100 lestir að stærð, Sænes EA 75. Þessi bátur hefur átt hér heimahöfn áður, en var nú keyptur frá Siglufirði. Eigandi er Útgerðarfélagið Rán hf. og er þetta annar bátur fyrirtækisins. Fyrir á það Sæljón EA 55. Skipstjóri er Gunnþór Sveinbjörnsson.

Á Dalvík er báturinn til ársins 1987 en þá kom nýsmíðað og glæsilegt Sænes EA 75 frá Svíþjóð og fór það gamla út í staðinn.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Olga 1

7369089. Olga 1 ex Olga. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2011.

Rússneski togarinn Olga 1 kom til Húsavíkur um árið en hverra erinda ég man ekki.

Olga 1 hét upphaflega Nordkyntraal og var smíðuð í Harstad í Noregi árið 1974. Hún er 485 brúttótonn að stærð og var með heimahöfn í Murmansk. Togaranum hefur verið lagt sýnist mér.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Faxaberg HF 104

1224. Faxaberg HF 104 ex Skálanes NS 20. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1986.

Faxaberg frá Hafnarfirði, sem hér sést á Breiðafirði um árið, hét upphaflega Rita NS 13 og var frá Vopnafirði.

Báturinn var smíðaður árið 1972 í Bátalóni fyrir Guðmund Ragnarsson og Hrein Björgvinsson á Vopnafirði.

Rita NS 13, sem var 11 brl. að stærð, fékk nafnið Þerna NS 113 árið 1975 og fjórum árum síðar Þerney SK 37 með heimahöfn á Hofsósi.

Árið 1984 fékk báturinn nafnið Skálanes NS 20 og ári síðar sem hann fékk það nafn sem hann ber á myndinni, Faxaberg HF 104. Eigandi Ólafur Karlsson.

Faxaberg HF 104 fékk nafnið Faxaberg II HF 114 árið 1992 en í maí það ár var hann felldur af skipaskrá.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sturla farinn áleiðis til Litháen

1272. Sturla GK 124 ex Sturla GK 12. Ljósmynd Jón Steinar 2020.

Línuskipið Sturla GK 124 lét úr höfn í Grindavík í hinsta sinn í dag en skipið hefur verið selt til Litháen þar sem það fer í brotajárn.

Skipið hét upphaflega Guðmundur RE 29 á íslenskri skipaskrá en hann var keyptur til landsins árið 1972. 

Hann var smíðaður árið 1968 hjá  Karmsund Verft & og Mek AS á Karmøy í Noregi fyrir Br. Giertsen & Co. A/S, Bergen. Hét upphaflega Senior B-33-B en þegar hann var keyptur hingað til lands var hann Senior H 033.

Guðmundur RE 29, var í eigu skipstjóranna Hrólfs Gunnarssonar og Páls Guðmundssonar og Fiskiðjunnar s/f í Keflavík, var yfirbyggður árið 1975. :Þess má til gamans geta að það var sama aðalvélin í skipinu alla tíð.

Árið 1983 kaupir Hraðfrystistöð Vestmannaeyja Guðmund sem verður VE 29. Síðar var skipt um brú og sett perustefni á Guðmund ásamt nýju frammastri.

Í fréttum sumarið 1998 mátti m.a lesa að nóta­skipið Guðmund­ur VE sé komið und­ir græn­lensk­an fána og fékk skipið nafnið Tunu GR 1895 og heima­höfn þess var Ammassalik.

Guðmundur VE 29 var seldur til Grindavíkur árið 2004 en einhverju árum áður hafði hann komið aftur inn á íslenska skipaskrá. Grindvíkingur GK 606 fór hina leiðina og fékk nafnið Guðmundur VE 29.

Það var Þorbjörn hf. í Grindavík, þá Þorbjörn-Fiskanes, sem keypti skipið og gerði út til línuveiða alla tíð. Þegar ný Sturla GK 12 kom í flota Þorbjarnarins í sumar fékk sá gamli GK 124 sem hann ber á þessum myndum sem Jón Steinar tók þegar Sturla lét úr höfn í dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Svanur ÍS 214

206. Svanur ÍS 214. Ljósmynd Hannes Baldvinsson Siglufirði.

Svanur ÍS 214 var smíðaður árið 1960 í Þýskalandi og var 101 brl. að stærð. Báturinn var smíðaður fyrir Álftfirðing h/f og var heimahöfn hans Súðavík.

Svanur ÍS 214 sökk í róðri út af Ísafjarðardjúpi þann 29. janúar árið 1969. Sex manna áhöfn hans komst um borð í gúmmíbjörgunarbát þaðan sem áhöfnin á varðskipinu Þór bjargaði þeim.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution