Nýr og glæsilegur Páll Jónsson GK 7 kominn í heimahöfn

2957. Páll Jónsson GK 7. Ljósmynd Jón Steinar 2020.

Línuskipið Páll Jónsson GK 7 kom til heimhafnar í Grindavík í dag eftir heimsiglingu frá Póllandi.

Á heimasíðu Vísis hf. segir að rúmlega 2 ár séu liðin frá undirritun og stór áfangi fyrir Vísi að fá skipið í heimahöfn. Þetta er fyrsta nýsmíðin af þessarri stærðargráðu í rúmlega 50 ára sögu Vísis.

Þetta er glæsilegt þriggja þilfara nýsmíði, 45 metra á lengd og 10,5 metra á breidd, hannað af íslensku skipahönnunarstofunni Navis í samvinnu við Vísi. Skipið er með Mustad Autoline línukerfi frá Ísfell ehf. og er þar með fyrsta íslenska skipið með sjálfvirku rekkakerfi sem léttir á álagi og vinnu um borð.

Pétur H. Pálsson framkvæmdarstjóri Vísis hf. og Gísli V. Jónsson skipstjóri á nýja skipinu. Ljósmynd Jón Steinar.

Vinnslubúnaðarinn, sem mun bæta alla aflameðhöndlun, svo sem blæðingu, kælingu, flokkun og frágang afla í lest er frá Skaginn 3X og er verkefnið að hluta til unnið í samstarfi við Marel. Það ríkir mikil tilhlökkun að fá skipið heim og mun það styðja enn betur við stefnu fyrirtækisins um ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði sem leiðir til framleiðslu afurða úr fyrsta flokks hráefni.

Skipamyndir.com óskar Vísi hf. til hamingju með nýja skipið.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sigþór

185. Sigþór ÞH 100 ex Sigurpáll GK 375. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1984.

Í dag var ég við útför Harðar Þórhallssonar skipstjóra og útgerðarmanns frá Húsavík en hann var faðir Hödda vinar míns.

Mér finnst við hæfi að birta mynd af bátnum sem þeir feðgar sóttu sjóinn saman á en það var Sigþór ÞH 100 sem Útgerðarfélagi Vísir hf. á Húsavík gerði út. Blessuð sé minning Harðar Þórhallssonar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Bergey VE 144 kom til heimahafnar í dag

2964. Bergey VE 144. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson 2020.

Skömmu fyrir hádegi í dag kom hin nýja Bergey VE til hafnar í Vestmannaeyjum í fyrsta sinn og var vel fagnað eftir því sem segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Bergey var afhent Bergi-Hugin, dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar, hinn 1. október sl. og kom til Akureyrar hinn 6. október. Á Akureyri annaðist Slippurinn frágang á millidekki skipsins. 

Bergey var smíðuð í skipasmíðastöð Vard í Aukra í Noregi og er eitt af sjö systurskipum sem skipasmíðastöðin smíðaði fyrir íslensk fyrirtæki. Eitt þessara skipa er Vestmannaey VE sem kom nýtt til landsins í júlímánuði sl.

Skipin eru hin glæsilegustu og afar vel búin, en um er að ræða togskip sem eru 28,9 m að lengd og 12 m að breidd. Stærð þeirra er 611 brúttótonn. Eru skipin búin tveimur aðalvélum og tveimur skrúfum. Bergey mun ekki staldra lengi við í Eyjum. Veiðarfæri verða tekin um borð og er gert ráð fyrir að haldið verði til veiða á morgun.

Jón Valgeirsson skipstjóri segir að sér lítist mjög vel á skipið. „Það verður gaman að hefja veiðar á þessu nýja skipi. Á leiðinni frá Akureyri fengum við aðeins brælu úti fyrir Norðurlandinu og það lét ágætlega. Það eru öðruvísi hreyfingar á þessu skipi en á gömlu Bergey. Það er flott að hefja veiðar á nýju skipi á laugardegi: Laugardagur til lukku,“ sagði Jón glaður í bragði í viðtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Tryggvi Sigðurðsson tók meðfylgjandi myndir þegar Bergey VE 144 kom til Vestmannaeyja í dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Viðræðum um sameiningu formlega hætt en góðu samstarfi haldið áfram

2957. Páll Jónsson GK 7. Ljósmynd Grímur Gíslason 2020.

Viðræður um mögulega sameiningu sem hófust sl. haust hefur formlega verið hætt hjá eigendum Vísis hf og Þorbjarnar hf. en ákveðið hefur verið að halda áfram góðu samstarfi fyrirtækjanna tveggja.

Í tilkynningu frá fyrirtækjunum segir að fjölmargir vinnuhópar hafi verið skipaðir til að skoða alla snertifleti og hafa þeir nú skilað inn tillögum sínum. Eftir yfirferð þeirra er niðurstaðan sú að fara ekki með sameiningarmál lengra að sinni, en halda þess í stað góðu samstarfi Þorbjarnar hf. og Vísis hf. áfram og nýta niðurstöðu vinnuhópanna til að styrkja það samstarf enn frekar. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu nú, telja eigendur fyrirtækjanna tveggja að hún útiloki ekki aðra möguleika í framtíðinni. 

Vísir og Þorbjörn eru rótgróin og öflug sjávarútvegsfyrirtæki, svipuð að stærð og hafa í gegnum árin unnið talsvert saman. Eiga þau meðal annars félög saman á borð við Haustak, Codland og sölufyrirtæki á Grikklandi. Vel yfir 600 manns vinna hjá fyrirtækjunum tveimur sem samanlagt hafa um 44.000 tonn af aflaheimildum og er ljóst að gott samstarf mun gagnast fyrirtækjunum vel og auka sóknartækifæri þeirra á erlendri grundu.

Lenneborg í Grindavík

IMO 9421075. Ljósmynd Jón Steinar 2020.

Flutningaskipið Lenneborg kom til Grindavíkur sl. þriðjudag með saltfarm og hélt svo út í morgun að losun lokinni.

Lenneborg er smíðað hjá Nanjing Huatai Shipyard Co., Ltd. í Kína árið 2008.

Lenneborg er 108 metrar að lengd og 18,2 metrar. á breidd og siglir undir hollensku flaggi, með heimahöfn í Delfzijl.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Nýr Páll Jónsson GK 7 lagður af stað heim

2957. Páll Jónsson GK 7. Ljósmynd Grímur Gíslason 2019.

Páll Jónsson GK 7, línuskip Vísis hf., lét úr höfn í Gdansk um hádegisbil í gær áleiðis til heimahafnar í Grindavík.

Á heimasíðu Vísis segir að áætlaður siglingartími velti á veðurskilyrðum en búist er við að það taki skipið um 5-7 daga. Væntanlegur komutími til Grindavíkur er þá á milli næstkomandi sunnudags og þriðjudags en upplýst verður um nánari dagsetningu þegar nær dregur. „Þetta er stór stund í sögu fyrirtækisins og mikil eftirvænting ríkir eftir komu skipsins“ segir í fréttinni..

Páll Jónsson GK 7 er sérhannaður til línuveiða, 45 metra langur og 10,5 metrar að breidd. Skipið er þriggja þilfara búið Caterpillar aðalvél.

Grímur Gíslason tók meðfylgjandi myndir og leyfði síðunni að birta þær.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hrafn Sveinbjarnarson GK 255

1972. Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 ex Snæfell EA 740. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Hólmgeir Austfjörð skipverji á Ottó N Þorlákssyni VE 5 tók þessar myndir af frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni GK 255 nú í upphafi árs.

Togarinn var smíðaður í Flekkefjord í Noregi árið 1988 fyrir Hríseyinga en seldur til Grindavíkur síðla árs 1989. Það var Þorbjörn hf. sem keypti og fékk Snæfellið nafnið Hrafn Sveinbjarnarson GK 255.

Togarinn var lengdur um 15,4 metra í skipasmíðastöð í Stettin í Póllandi sumarið 2014. Hann er nú 62,96 metrar að lengd.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sæbjörg ST 7

554. Sæbjörg ST 7 ex Fanney SH 24. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1993.

Sæbjörg ST 7 hét upphaflega Hávarður ÍS 160 og var smíðaður í Danmörku árið 1959 fyrir Ísver h/f á Suðureyri við Súgandafjörð.

Báturinn var 76 brl. að stærð búinn 310 hestafla Alpha aðalvél. Henni var skipt út fyrir aðra sömu tegundar árið 1974.

Hávarður ÍS 160 var seldur til Vestmannaeyja árið 1967 og vorið 1969 var hann seldur á Akranes. Þar fékk hann nafnið Sæfari AK 171. Í febrúar árið 1973 var Sæfari seldur til Eyrarbakka þar sem hann hélt nafni sínu en varð ÁR 22.

Sæfari ÁR 22 var seldur til Grundarfjarðar árið 1977 þar sem hann fékk nafnið Fanney SH 24 og það nafn bar hann þangað til hann var keyptur til Hólmavíkur árið 1990. Þar fékk hann það nafn sem hann ber á myndinni, Sæbjörg ST 7.

Báturinn var kominn í núllflokk á Fiskistofu sumarið 1997 en þá fékk Höfðavík ehf. nýja Sæbjörgu ST 7.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Haukur GK 134

1378. Haukur GK 134 ex Haukur GK 25. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1991.

Haukur GK 134 liggur hér við bryggju í Sandgerði og bíður örlaga sinna sem voru þau að hann var seldur úr landi.

Þarna var nýr Haukur GK 25 kominn til sögunnar og þessi, sem upphaflega hét Framtíðin KE 4, hafði fengið nýtt númer, GK 134.

Framtíðin KE 4 var keypt frá Noregi árið 1974 en togarinn var þá fjögurra ára gamall og hét Øksfjord.

Í 13. tbl. Ægis 1974 sagði m.a svo frá:

17. apríl bættist skuttogari í flota Keflvíkinga, Framtíðin KE 4. Skuttogari þessi, sem áður bar nafnið Øksfjord, er keyptur frá Noregi en er byggður árið 1970 hjá A/S Storviks Mek. Verksted Kristiansand, nýbygging nr. 37.

Framtíðin KE er sömu gerðar og Dagstjarnan KE, svonefnd R-155 A gerð. Þess má geta, að Stálvík h.f. Garðahreppi hefur byggt einn skuttogara eftir þessari teikningu frá „Storviks“, Stálvík SI 1 og fljótlega mun annar skuttogari af þessari gerð hlaupa af stokkunum hjá Stálvík h.f.

Framtíðin KE er í eigu Fiskmiðlunar Suðurnesja h. f., en aðalhluthafar fyrirtækisins eru Hraðfrystihús Ólafs Lárusonar og Sjöstjarnan h.f.

Togarinn var 299 brl. að stærð, 46,45 metrar að lengd og 9 metra breiður. Búinn 1500 hestafla MAK aðalvél.

Í ársbyrjun 1981 keypti Valbjörn hf. í Sandgerði Framtíðina KE 4 og nefndi Hauk GK 25. Árið 1991 keypti Valbjörn nýjan og stærri togara frá Færeyjum og var sá gamli seldur norskum aðila sem gerði hann út frá Murmansk.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Björg Jónsdóttir ÞH 321

1508. Björg Jónsdóttir ÞH 321 Höfðavík AK 200. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1996.

Þessar myndir sem nú birtast voru teknar í apríl 1996 þegar ný Björg Jónsdóttir ÞH 321 kom til heimahafnar í fyrsta skipti. Þetta var sú sjötta í röðinni ef rétt er munað.

Þriðjudaginn 23. apríl 1996 birtist eftirfarandi frétt í Degi og til gamans má nefna það að ein þessara mynda prýddi frétttina:

Ný Björg Jónsdóttir ÞH-321 kom til heimahafnar, Húsavíkur, sl. laugardag. Skipið er keypt á Akranesi af Krossvík hf. á Akranesi, 500 brl. að stærð og hét áður Höfðavík AK-300.

Útgerðarfyrirtækið Langanes hf. átti fyrir tvö báta; Björgu Jónsdóttur ÞH-321, sem var seld til G. Ben hf. á Árskógssandi, og Björgu Jónsdóttur II ÞH-320, sem seld var til Siglfirðings hf. á Siglufirði.

Skipinu var breytt hjá skipasmíðastöð Þorgeirs & Ellerts hf. á Akranesi og kostuðu breytingarnar um 80 milljónir króna. Á Akranesi var sett í skipið allur nótaveiðibúnaður, m.a. kraftblakkir, nótaniðurleggjari, fiskidælur og loðnuskiljur auk nýs asdictækis.

Mikið af fiskileitar- og siglingatækjum í brú voru endurýjuð og brúin innréttuð að nýju. Lestin hefur verið hólfuð og er með einangruðum síðum, sem tryggir verulega ferskleika hráefnisins. Skipið getur borið um 850 tonn af síld eða loðnu.

Skipstjórar verða Aðalgeir og Sigurður Bjarnasynir, synir Bjarna Aðalgeirssonar, framkvæmdastjóra Langaness hf., sem áður voru með Björgu Jónsdóttur og Björgu Jónsdóttur II. Aflaheimildir þeirra báta verða sameinaðar á nýja skipið.

Svo mörg voru þau orð en skipið fékk nafnið Bjarni Sveinsson ÞH 322 þegar ný Björg Jónsdóttir var keypt árið 2004. Skinney-Þinganes hf. eignaðist Bjarna Sveinson ÞH 322 og Björgu Jónsdóttur ÞH 321 haustið 2006 og um ári síðar var skipið selt til Noregs.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.