Bergey VE 544

1478. Bergey VE 544. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Skuttogarinn Bergey VE 544 hét upphaflega Lárus Sveinsson SH 126 á íslenskri skipaskrá en hann var keyptur notaður til landsins árið 1978.

Hann hét áður President Arthur Brien og var keyptur frá Frakklandi en hann var smíðaður þar í landi árið 1974.

Það voru fyrirtækin Hraðfrystihús Ólafsvíkur hf. og Lóndrangar hf. í Ólafsvík sem keyptu Lárus Sveinsson SH 126 til landsins en hann var seldur til Vestmannaeyja árið 1983.

Þar fékk hann nafnið Bergey VE 544 en kaupandinn var Bergur-Huginn.

Togarinn var 43,50 metrar að lengd, 9,40 metra breiður og mældist 339 brl. að stærð. Aðalvél 1400 hestafla MAK.

Bergey VE 544 var seld til Uruguay í ársbyrjun 2003 en togarinn hafði verið gerður út af Ísfélagi Vestmannaeyja hf. í rúman áratug.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Viðey RE 6

1365. Viðey RE 6 ex Hrönn RE 10. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Togarinn Viðey RE 6 lætur hér úr höfn í Reykjavík um árið en upphaflega hét togarinn Hrönn RE 10.

Hrönn RE 10 var eitt fimm systurskipa sem smíðuð voru fyrir Íslendinga í Gdynia í Póllandi árið 1974. Eigandi Hrönn hf. í Reykjavík. Árið 1979 fékk skipið nafnið Viðey RE 6, þá komið alfarið í eigu Hraðfrystistöðvar Reykjavíkur.

Á myndinni er Viðey, sem var lengd árið 1982 og mældist þá 865 brl. að stærð, komin í Grandalitina en Hraðfrystistöðin í Reykjavík sameinaðist Granda hf. árið 1990.

Vorið 1998 fékk Viðey RE 6 nafnið Sjól HF 1 og var það síðasta nafn þessa skips á Íslenskri skipaskrá en það var komið í núllflokk hjá Fiskistofu árið 2002. Eigandi Hafnarfell hf.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Jón á Hofi ÁR 42

1645. Jón á Hofi ÁR 42 ex Þuríður Halldórsdóttir GK 94. Ljósmynd Þór Jónsson 2020.

Jón á Hofi frá Þorlákshöfn landaði á Djúpavogi í vikunni og tók Þór Jónsson þessa mynd af honum.

Jón á Hofi ÁR 42 hét áður Þuríður Halldórsdóttir GK 94 en Rammi hf. keypti skipið af Þorbirninum hf. sumarið 2007.

Upphaflega hét skipið Hafnarey SU 110 frá Breiðdalsvík og var eitt af raðsmíðaskipunum svokölluðu. Smíðað 1983 hjá Þorgeir & Ellert á Akranesi.

Jón á Hofi ÁR 42 er 38,99 metrar að lengd, 8,1 metra breiður og mælist 274 brl./497 BT að stærð.

Skipt var um brú á skipinu fyrir nokkru í Póllandi.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Þórunn Sveinsdóttir VE 401

2401. Þórunn Sveinsdóttir VE 401. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2020.

Hólmgeir Austfjörð tók þessar myndir í gær þegar skuttogarinn Þórunn Sveinsdóttir VE 401 lét úr höfn í Vestmannaeyjum.

Þórunn Sveinsdóttir VE 401 var smíðuð fyri Ós ehf. í Vestmannaeyjum í Karstensens Skibsværft A/S í Skagen árið 2010. Hún var lengd í fyrra um 6,6 metra í sömu skipasmíðastöð.

Þórunn Sveinsdóttir mælist í dag 929 brúttótonn að stærð.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Blængur NK 125

1325. Blængur NK 125 ex Freri RE 73. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Ég tók svo margar myndir af Blæng NK 125 á dögunum þar sem hann sigldi til hafnar á Húsavík að það er ekki hægt annað en að birta þær annað slagið.

Annars er það að frétta af Blæng að hann átti að halda í Barentshafið í gær.

Af heimasíðu Síldarvinnslunnar:

Frystitogarinn Blængur NK mun halda til veiða í Barentshafi á morgun. Það mun taka skipið um þrjá og hálfan sólarhring að sigla þangað. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvort gert væri ráð fyrir löngum túr.

„Það er gert ráð fyrir 34 daga túr og það þýðir að við verðum komnir heim um 25. nóvember. Ráðgert er að veiða  um 600 tonn og við eigum eftir að sjá hvernig það gengur. Síðustu fréttir herma að ekki sé mikið fiskirí á þessum slóðum akkúrat núna en það getur breyst á skömmum tíma. Auðvitað vona allir að það gangi sem best að veiða og við náum aflanum á skemmri tíma en gert er ráð fyrir. Veður hefur mikil áhrif á veiðarnar en það er allra veðra von á þessum slóðum á þessum árstíma. Annars eru menn bara bjartsýnir og vonandi á þetta eftir að ganga vel,“ segir Theodór.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Múlaberg við Eyjar

1281. Múlaberg SI 22 ex Múlaberg ÓF 32. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2020.

Hólmgeir Austfjörð tók þessar myndir í dag af Múlabergi SI 22 þar sem það beið af sér brælu við Vestmannaeyjar.

Múlaberg er í togararalli Hafró þessa dagana.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Klakkur við bryggju á Húsavík

1472. Klakkur ÍS 903 ex Ísborg II ÍS 260. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Skuttogarinn Klakkur ÍS 903, sem stundar rækjuveiðar, liggur við Norðurgarðinn á Húsavík og var myndin tekin fyrir stundu.

Tjaldtangi ehf. á Ísafirði er eigandi Klakks sem er með heimahöfn á Flateyri.

Klakkur hét um stuttan tíma Ísborg II ÍS 260 en hét áður Klakkur SK 5, Klakkur SH 510 og Klakkur VE 103. Smíðaður árið 1977 í Gdynia í Póllandi.

Hafliði Óskarsson var á bryggjunni og sagði mér að Klakkur hefði tengingu til Húsavíkur. Hún er sú að Barðinn hf., þá í Kópavogi, samdi um smíði á togaranum sem á smíðatíma fékk nafni Klakkur.

Það nafn mun vera komið frá sexæringnum Klakki sem var fyrsti bátur þeirra Borgarhólsbræðra, Stefáns og Þórs Péturssona, sem síðar stofnuðu Barðann hf. á Húsavík.

En ekki fór það svo að Barðinn tæki við togaranum því á smíðatímanum var hann seldur til Vestmannaeyja.

Í Vísi þann 12. ágúst 1976 mátti lesa eftirfarandi frétt:

Þrír stærstu útgerðaraðilar í Eyjum, Ísfélag Vestmannaeyja, Fiskiðjan og Vinnslustöðin, hafa stofnað hlutafélagið Klakk. Meginmarkmið hins nýja hlutafélags er að kaupa og reka skuttogara sem gerður verður út frá Eyjum. 

Formaður hins nýja félags er Guðmundur Karlsson. Guðmundur sagði í samtali við Vísi í morgun, að þegar reynt var að fá leyfi til skuttogarakaupa erlendis frá á sínum tíma, þá hefðu þessir aðilar ekki fengið tilskilin leyfi yfirvalda.

Nú hefði Klakkur hf. hins vegar yfirtekið kaup Barðans hf. í Kópavogi á skuttogara í Póllandi, og gengi Klakkur algjörlega inn í þann samning sem Barðinn hefði verið búinn að gera, og yfirtæki þá um leið þá aðstoð sem hið opinbera veitti Barðanum hf. 

Guðmundur sagði að hið nýja skip væri væntanlegt til Vestmannaeyja um áramótin, en skipið er um 490 tonn að stærð. 

Nú er aðeins einn skuttogari gerður út frá Eyjum, skuttogarinn Vestmannaey.

Svo mörg voru þau orð en Klakkur var gerður út frá Eyjum til ársins 1993 er hann var seldur til Grundarfjarðar.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Bylgja VE 75 – Myndasyrpa

2025. Bylgja VE 75. Ljósmynd Jón Steinar 2020.

Jón Steinar tók þessa myndasyrpu af Bylgju VE 75 í gær þegar hún fór, kom og fór aftur frá Grindavík.

Eins og Jón segir:

Hér er Bylgja að fara út fyrr í dag, en hún kom inn til löndunar í Grindavík um síðastliðna helgi. Ástæðan fyrir löngu stoppi var að það var farið að blása undan heddum á aðalvélinni og þörf var á að kippa því í liðinn. Hún snéri nú við skömmu eftir að látið var úr höfn þar sem hlutirnir voru ekki alveg eins og þeir áttu að vera. Því var kippt í liðinn á skömmum tíma og hélt hún úr höfn skömmu síðar.

Bylgjan er hönnuð sem skuttogari með búnað til vinnslu og frystingar á flökum og smíðuð 1992 af Slippstöðinni á Akureyri og er nýsmíði stöðvarinnar númer 70. Smíði skipsins hófst nokkrum árum áður án kaupanda og lá skipið í nokkurn tíma áður en það seldist.Bylgja VE 75 er gerð út af samnendu fyrirtæki sem Matthías Óskarsson stendur að. Vísir hf í Grindavík leigir og gerir Bylgju út um þessar mundir.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Blængur á Skjálfanda

1345. Blængur NK 125 ex Freri RE 73. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Frystitogarinn Blængur NK 125 frá Neskaupstað kom inn Skjálfandann síðdegis í dag og stoppaði um stund framan við höfnina á Húsavík hvar léttabátur fór að bryggju.

Heppnin var með mér er ég sá til skólabróðurs sem var að koma að landi eftir að hafa verið að veiða í soðið, og var hann meira en til í það að fara með mig til móts við Blæng og mynda hann. Takk Siddi.

Blængur NK 125 hét upphaflega Ingólfur Arnarson RE 210, og var einn stóru Spánartogaranna svokölluðu og sá eini sem er enn í fiskiskipaflotanum.

Hann var smíðaður fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur árið 1973 í Astilleros Luzuriaga S.A. skipasmíðastöðinni í Pasajes de San Juan í Baskalandi.

Ögurvík hf. keypti Ingólf Arnarson RE 210 árið 1985 og gaf honum nafnið Freri RE 73. Honum var í framhaldinu breytt í frystitogara í Slippstöðinni á Akureyri.

Árið 2000 fór Freri RE 73 til Póllands umfangsmiklar breytingar þar sem fólust m.a í því að hann var lengdur um 10 metra og skipt um aðalvél. Togarinn er nú tæplega 79 metrar og í honum er 5000 hestafla Wartsila aðalvél.

Síldarvinnslan hf. festi kaup á Frera RE 73 í júní 2015 og fékk hann nafnið Blængur NK 125.

Eftir að Síldarvinnslan eignaðist Blæng NK 125 fór togarinn í gagngerar endurbætur í Póllandi og ný vinnslulína var sett í hann hjá Slippnum á Akureyri.

Blængur NK 125 hóf veiðar fyrir Síldarvinnsluna í febrúar 2017.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Geiri Péturs ÞH 344

2285. Geiri Péturs ÞH 344 ex Sverri Olason TG 730. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1997.

Geiri Péturs ÞH 344, sá fjórði í röðinni, var keyptur frá Færeyjum í desember árið 1996 en kom til heimahafnar á Húsavík í janúar 1997.

Þessar myndir sem hér birtast voru teknar vorið 1997 eftir að togarinn hafði verið um tíma á Akureyri þar sem hann var m.a útbúinn til að frysta rækju. Þarna var verið að leggja í´ann heim.

Það var Geiri Péturs ehf. sem átti og gerði Geira Péturs ÞH 344 út en togarinn, sem er 520 brúttótonn að stærð, var smíðaður árið 1989.

Sumarið 2004 keypti Sigurður Ágústsson ehf. í Stykkishólmi Geira Péturs og gaf honum nafnið Kristinn Friðriksson SH 3. Í nóvember sama ár var Kristinn Friðriksson SH 3 seldur til Kanada þar sem hann fékk nafnið Viking Enterprise. Nafn sem hann ber enn.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution