Guðmundur í Nesi RE 13

2626. Guðmundur í Nesi RE 13. Ljósmynd Magnús Jónsson 2021.

Guðmundur í Nesi RE 13 kom til hafnar í Reykjavík í gær og signalinn kominn upp í tilefni Sjómannadagsins.

Guðmund­ur í Nesi var smíðaður í Nor­egi árið 2000, en Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur keypti skipið 2004 og gerði út til loka árs 2018. Þá var skipið var selt til Arctic Prime Fis­heries í Græn­landi fékk nafnið Ili­vi­leq. 

Vorið 2020 keypti Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur skipið afur og fékk hann sitt fyrra nafn, Guðmundi í Nesi RE 13.

Guðmundur í Nesi RE 13 var smíðaður í Tomrefjørd í Noregi, skrokkurinn reyndar smíðaður í Rúmeníu, og er 66 metrar að lengd og 14 metra breiður, mælist 2,464 brúttótonn að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Bergur VE 44

2677. Bergur VE 44 ex Brodd 1. Ljósmynd Þór Jónsson 2021.

Þór Jónson tók þessa mynd um sl. helgi á Stokksnesgrunni en hann er skipverji á Ljósafelli SU 70 sem var þar að veiðum.

Þá sigldi hjá Bergur VE 44 sem var á austurleið en hann var smíðaður hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku árið 1998.

Útgerðarfélagið Bergur ehf. í Vestmannaeyjum keypt togarann hingað til lands árið 2005. Bergur er 569 brúttótonn að stærð og með 1.300 hestafla vél. 

Bergur-Huginn hf., dótturfélag Síldarvinnslunnart, keypti Útgerðarfélagið Berg ehf. í Vestmannaeyjum á síðasta ári og gerir Berg út.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Bessi í flotkví í Hafnarfirði

2013. Bessi ÍS 410. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Bessi ÍS 410 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, í Flekkefjord í Noregi og hafði smíðanúmer 144 hjá stöðnni.

Hann var smíðaður fyrir Álftfirðing h.f í Súðavík og leysti af hólmi eldra skip með sama nafni. Bessi var 807 brl. að stærð.

Bessi ÍS 410 var seldur til Færeyja árið 2000 en þá var hann í eigu Hraðfrysti­húss­ins-Gunn­var­ar hf. í Hnífs­dal.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Tómas Þorvaldsson að veiðum

2173. Tómas Þorvaldsson GK 10 ex Sisimiut GR 6-500. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2021.

Hólmgeir Austfjörð tók þessar myndir af frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni GK 10 þar sem hann var að veiðum sunnan við Eyjar um páskana.

Togarinn var smíðaður í Noregi árið 1992 fyrir Skagstrending hf. á Skagaströnd og hét þá Arnar HU 1. Arnar var seldur til Grænlands árið 1995 og fékk þá nafnið Sisimiut. 

Þorbjörn hf. keypti Sisimiut og fékk skipið afhent í júní 2019. Það fékk nafnið Tómas Þorvaldsson GK 10 fór fyrst til veiða undir því nafni 22. júlí sama ár.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Klakkur og Óli á Stað

1472. Klakkur ÍS 903 og 2842. Óli á Stað GK 99. Ljósmynd Vigfús Markússon 2020.

Á þessari mynd Vigfúsar Markússonar sem hann tók á Siglufirði gefur að líta línubátinn ÓIla á Stað GK 99 kom að landi um leið og rækjutogarinn Klakkur ÍS 903 heldur til veiða.

Skemmtileg mynd þetta finns mér.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Ljósafellið með fullfermi til Þorlákshafnar

1277. Ljósafell SU 70. Ljósmynd Jón Steinar 2021.

Togarinn Ljósafell SU 70 frá Fáskrúðsfirði kom til hafnar í Þorlákshöfn í dag með fullfermi sem gerir rúm 330 kör.

Uppstaða aflans var ufsi sem fékkst á svokölluðum Heimsmeistarahrygg og þar í kring á um það bil fjórum dögum.

Jón Steinar tók þessar myndir en Ljósafell SU 70 var smíðað 1973 í Japan en fór í umtalsverðar breytingar og endurbætur í Póllandi 1989 og aftur 2007. Skipið er 55,9 m langt, 9,5 m breitt og er um 844 BT að stærð. 

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði er eigandi og útgerðaraðili Ljósafellssins sem sér frystihúsi fyrirtækisins fyrir hráefni.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Stakfell frá Þórshöfn

1609. Stakfell ÞH 360. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Þórshafnartogarinn Stakfell ÞH 360 er hér við bryggju á Húsavík en komur þess til Húsavíkur voru ekki tíðar ef ég man rétt.

Stakfellið er 50,75 metrar að lengd og 10,30 metrar að breidd og mældist 471 brl. að stærð. í því var, og er kannski enn, 2200 hestafla Wichmann aðalvél. Það var smíðað í Noregi og kom til heimahafnar á Þórshöfn sumarið 1982.

Stakfell ÞH 360 var selt til Rússlands árið 2000 og hélt nafni sínu þar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Í vari inn á Stakksfirði

Polar Amaroq og Hákon EA 148 á Stakksfirði í dag. Ljósmynd Jón Steinar Sæmundsson 2021.

Jón Steinar myndaði nokkur skip inni á Stakksfirðinum í dag þar þar sem þau lágu í vari fyrir veðrinu.

Þarna mátti kenna Tómas Þorvaldsson GK 10, Valdimar GK 195, Hákon EA 148 og Polar Amaroq.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Blængur landar úr fyrstu veiðiferð ársins

1345. Blængur NK 125 ex Freri RE 73. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2021.

Frystitogarinn Blængur NK kom til heimahafnar í Neskaupstað í gær að lokinni fyrstu veiðiferð ársins. Skipið hélt til veiða 4. febrúar en það hafði verið í slipp á Akureyri frá því í desember. Aflinn í veiðiferðinni var 471 tonn upp úr sjó að verðmæti 120 milljónir króna. 

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar sem ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvar hefði verið veitt.

„Við byrjuðum á að leita að ufsa úti fyrir Norðurlandi. Það skilaði litlum árangri. Síðan var haldið austur fyrir land í grálúðu og þar var staldrað við í eina þrjá daga.

Þá lá leiðin suður fyrir landið. Þar hófum við að veiða gulllax á Kötlugrunni og Sneiðinni og það gekk býsna vel. Leiðin lá þá á Selvogsbanka og Reykjanesgrunn og alveg vestur á Belgableyðu í ufsaleit. Staðreyndin er sú að það virðist vera lítið af ufsa um þessar mundir en hins vegar er nóg af ýsu og gullkarfa alls staðar.

Við vorum á eilífum flótta undan ýsu og reyndar vorum við einnig að forðast þorsk. Það er alveg ótrúlegt að ýsukvóti skuli ekki vera aukinn. Þegar upp var staðið var uppistaða aflans í veiðiferðinni gulllax og gullkarfi. Við vorum með um 160 tonn af gulllaxi og um 130 tonn af gullkarfa.

Veðrið í túrnum var almennt gott. Við fengum brælu þegar veitt var fyrir austan en annars var fantagott veður og hálgerður vorbragur á veðrinu,“ segir Theodór. 

Blængur heldur á ný til veiða  síðdegis í dag en meðfylgjandi mynd tók Hólmgeir Austfjörð um sl. helgi þar sem Blængur var að veiðum í Skerjadýpi.