Hrafn Sveinbjarnarson GK 255

1972. Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 ex Snæfell EA 740. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Hólmgeir Austfjörð skipverji á Ottó N Þorlákssyni VE 5 tók þessar myndir af frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni GK 255 nú í upphafi árs.

Togarinn var smíðaður í Flekkefjord í Noregi árið 1988 fyrir Hríseyinga en seldur til Grindavíkur síðla árs 1989. Það var Þorbjörn hf. sem keypti og fékk Snæfellið nafnið Hrafn Sveinbjarnarson GK 255.

Togarinn var lengdur um 15,4 metra í skipasmíðastöð í Stettin í Póllandi sumarið 2014. Hann er nú 62,96 metrar að lengd.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Haukur GK 134

1378. Haukur GK 134 ex Haukur GK 25. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1991.

Haukur GK 134 liggur hér við bryggju í Sandgerði og bíður örlaga sinna sem voru þau að hann var seldur úr landi.

Þarna var nýr Haukur GK 25 kominn til sögunnar og þessi, sem upphaflega hét Framtíðin KE 4, hafði fengið nýtt númer, GK 134.

Framtíðin KE 4 var keypt frá Noregi árið 1974 en togarinn var þá fjögurra ára gamall og hét Øksfjord.

Í 13. tbl. Ægis 1974 sagði m.a svo frá:

17. apríl bættist skuttogari í flota Keflvíkinga, Framtíðin KE 4. Skuttogari þessi, sem áður bar nafnið Øksfjord, er keyptur frá Noregi en er byggður árið 1970 hjá A/S Storviks Mek. Verksted Kristiansand, nýbygging nr. 37.

Framtíðin KE er sömu gerðar og Dagstjarnan KE, svonefnd R-155 A gerð. Þess má geta, að Stálvík h.f. Garðahreppi hefur byggt einn skuttogara eftir þessari teikningu frá „Storviks“, Stálvík SI 1 og fljótlega mun annar skuttogari af þessari gerð hlaupa af stokkunum hjá Stálvík h.f.

Framtíðin KE er í eigu Fiskmiðlunar Suðurnesja h. f., en aðalhluthafar fyrirtækisins eru Hraðfrystihús Ólafs Lárusonar og Sjöstjarnan h.f.

Togarinn var 299 brl. að stærð, 46,45 metrar að lengd og 9 metra breiður. Búinn 1500 hestafla MAK aðalvél.

Í ársbyrjun 1981 keypti Valbjörn hf. í Sandgerði Framtíðina KE 4 og nefndi Hauk GK 25. Árið 1991 keypti Valbjörn nýjan og stærri togara frá Færeyjum og var sá gamli seldur norskum aðila sem gerði hann út frá Murmansk.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Það bar svo við á Húsavík í dag….

1937. Björgvin EA 311. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Það bar svo við á Húsavík í dag að togari kom til hafnar en stoppaði hann þó stutt við.

Um er að ræða togara þann sem Dalvíkingar létu smíða fyrir sig í Noregi árið 1988 og nefndu Björgvin EA 311. Á Dalvík hefur hann átt heimahöfn allar götur síðan þó eignarhaldið hafi breyst. Já og liturinn.

Í 8. tölublaði Ægis 1988 sagði m.a svo frá:

Nýr skuttogari, m/s Björgvin EA 311, bættist við fiskiskipastólinn 26.júlí s.l. en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Dalvíkur. Björgvin EA er smídaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord f Noregi, smíðanúmer 142 hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni hf. í Reykjavík.

Björgvin EA er fimmtándi skuttogarinn, sem umrædd stöð smíðar fyrir íslendinga, en auk þess hefur stöðin séð um smíði á einum skuttogaraskrokk (Björgúlf EA) fyrir Slippstöðina. Skrokkar allra þessara togara eru smíðaðirhjá Kvina Verft í Flekkefjord, sem annast hefur þann þátt smíðinnar fyrir Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk.

Hinn nýi Björgvin kemur í stað samnefnds skuttogara, sem einnig var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk (afhentur í janúar 1974) fyrir sömu útgerð. Gamli Björgvin hefur nú verið seldur til Noregs. Björgvin EA er með búnaði til heilfrystingar á karfa og gráluðu, auk búnaðar til ísfiskmeðhöndlunar.

Björgvin EA er í eigu Útgerðarfélags Dalvíkinga hf., Dalvík. Skipstjóri á skipinu er Vigfús R. Jóhannesson og yfirvélstjóri Hafsteinn Kristinsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Valdimar Bragason.

Mesta lengd Björgvins EA 311 er 50,53 metrar og breidd hans 12 metrar. Hann mælist 499 brl./1142 BT að stærð. Aðalvél hans er 2515 hestafla Deutz.

Eigandi Björgvins EA 311 er Samherji Ísland ehf. og er hann gerður út sem ísfisktogari.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Þeir sem áhuga hafa á dagatali Skipamynda 2020 geta pantað sér eintak á korri@internet.is Örfá eintök eftir – Verðið er 3300 kr. 

Stakfell ÞH 360

1609. Stakfell ÞH 360. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Þórshafnartogarinn Stakfell ÞH 360 er hér á toginu en myndin var tekin úr Geira Péturs ÞH 344 skömmu fyrir 1990.

Í 10 tbl. Ægis árið 1982 sagði m.a svo frá:

28. júní s.l. kom skuttogarinn Stakfell ÞH 360 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Þórshafnar.

Skipið er hannað hjá Storvik Mek. Verksted A/S í Kristiansund í Noregi, svonefnd S-165 gerð, og fór smíði skrokksins þar fram (smíðanúmer 95), en síðan yfirtók skipasmíðastöðin Sterkoder Mek. Verksted A/S í Kristiansund samninginn og lauk smíði skipsins, og ber skipið smíðanúmer 95A hjá umrœddri stöð.

Stakfell ÞH er fyrsti skuttogarinn hérlendis eftir þessari teikningu frá Storvik Mek. Verksted, en eldri gerðir frá umræddri stöð (R-155A), þ.e. 9.0 m á breidd og síðar 9.4 m á breidd, eru þekktar hérlendis. Níu skuttogarar í eigu landsmanna eru smíðaðir hjá Storvik Mek. Verksted A/S og er þá Stakfell ÞH ekki meðtalinn.

Stakfell ÞH er útbúið afkastamiklum kæliþjöppum og er gert ráð fyrir þeim möguleika að koma fyrir frystitœkjum síðar og geyma frystan fisk í lestum. Nefna má sérstaklega að allir svefnklefar (12 talsins) eru búnir baðklefa, en það hefur ekki þekkzt áður í íslenzkum fiskiskipum.


Stakfell ÞH er í eigu Útgerðarfélags Norður- Þingeyinga h.f. Skipstjóri á skipinu er Ólafur J. Aðalbjörnsson og 1. vélstjóri Sigurður Vilmundarson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Páll Árnason.

Stakfellið er 50,75 metrar að lengd og 10,30 metrar að breidd og mældist 471 brl. að stærð. í því var, og er kannski enn, 2200 hestafla Wichmann aðalvél.

Stakfell ÞH 360 var selt til Rússlands árið 2000 og hélt nafni sínu þar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Óseyri ÍS 4

1348. Óseyri Ís 4 ex Eyvindur Vopni NS 70. Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

Óseyri ÍS 4 var upphaflega Aðalvík KE 95, einn af fimm minni Spánartogurunum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga á sínum tíma.

Aðalvík KE 95 kom síðust togaranna fimm en hún kom til heimahafnar í Keflavík 5. júní 1974. Skipið, sem var 451 brl. að stærð var seld til Sauðárkróks árið 1988. Réttara sagt voru höfð skipaskipti, Drangey SK 1 sem var einn Japanstogaranna, fór til Keflavíkur.

Aðalvík KE 95 fékk nafnið Drangey SK 1 sem hún bar til ársins 1995 þegar Tangi hf. á Vopnafirði keypti hana og nefndi Eyvins Vopna NS 70.

Árið 1998 fær togarinn svo nafnið Óseyri ÍS 4 þegar Þorbjörn hf. í Grindavík kaupir hann. Ári síðar heitir hann Skúmur GK 111 og í lok þess árs Skúmur RE 373 og kominn í eigu Ingimundar hf. í Reykjavík. Árið 1999 fær togarinn nafnið Helga II RE 373 og árið 2000 var hún seld úr landi.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hamra-Svanur SH 201

1757. Hamra-Svanur SH 201 ex Oddeyrin EA 210. Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

Hamra-Svanur SH 201 hét upphaflega Oddeyrin EA 210 og var smíðuð í Slippstöðinni á Akureyri.

Togarinn var annað tveggja svokallaðra raðsmíðaskipa sem voru smíðuð í Slippstöðinni á þessum árum, hitt var Nökkvi HU 15.

Árið 1996 keypti Sigurður Ágústsson ehf. Oddeyrina EA 210 og nefndi Hamra-Svan SH 201. Skipið er 274 brl. að stærð, 38,80 metrar að lengd og 8,10 metra á breidd.

Hamra-Svanur SH 201 var seldur til Færeyja árið 2002.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Blængur NK 117

2197. Blængur NK 117. Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

Haustið 1993 kom til Neskaupstaðar nýr frystitogari sem Síldarvinnslan hf. festi kaup á frá Spáni. Blængur NK 117 hét hann og tók Þorgeir Baldursson þessa mynd af honum á Eyjafirði.

Í 11. tbl. Ægis það ár sagði m.a:

28. september sl. kom skuttogarinn Blængur NK 117 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar. Neskaupstað. Skuttogari þessi er smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni, smíðanúmer 639 hjá stöðinni. Skipið er hannað af Nordvestconsult A/S í Álesund í samvinnu við Cramaco A/S í Tromsö.

Skipið er búið til rækjuvinnslu og heilfrystingar á karfa og grálúðu. Eftir að skipið kom til landsins var settur í það vinnslubúnaður og annaðist það verk Slippstöðin Oddi hf. á Akureyri og lauk þeirri vinnu í byrjun nóvember. Á móti hinu nýja skipi úreldir útgerðin Hilmi NK 171 (1551), 642 rúmlesta nótaveibiskip, smíðað árið 1980 á Akureyri. Hinn nýi Blængur er smíðaður eftir sömu teikningu og Otto Wathne NS sem keyptur var til landsins á sl. ári, en er smíðaður í mun hærri ísklassa, eða Ice 1B.

Blængur NK er í eigu Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Skipstjóri á skipinu er Helgi Geir Valdimarsson og yfirvélstjóri Jón Már Jónsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Jóhann K. Sigurðsson.

Blængur, sem hét Hekktind á smíðatímanum, var 51,45 metrar að lengd, 11,90 metra breiður og mældist 736 brl./1199 BT að stærð.

Blængur NK 117 var seldur til Skagastrandar í árslok 1998. Það var Skagstrendingur hf. sem keypti togarann og nefndi Örvar HU 2.

Snemma árs 2014 var Örvar, sem þá var SK 2 og í eigu FISK Seafood, seldur úr landi.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þeir sem áhuga hafa á dagatali Skipamynda 2020 geta pantað sér eintak á korri@internet.is – Verðið er 3300 kr. 

Jón Baldvinsson RE 208

1553. Jón Baldvinsson RE 208. Ljósmynd Þór Jónsson.

Þessa flottu mynd af skuttogaranum Jóni Baldvinssyni RE 208 tók Þór Jónsson á Djúpavogi.

Jón Baldvinsson RE 208 var smíðaður fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur í Portúgal og kom til landsins í júnímánuði það ár.

Í 9 tbl. Ægis 1980 segir svo:

Nýr skuttogari, m/s Jón Baldvinsson RE-208, bœttist við fiskiskipastól landsmanna 24. júní s.l, en þann dag kom hann til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur.

Jón Baldvinsson RE er smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Estaleiros Navais De Viana Do Castelo, EP í Portugal, og er smíðanúmer 112 hjá stöðinni. Þetta er annað fiskiskipið sem Portúgalir smíða fyrir íslendinga, en hið fyrra var skuttogarinn Már SH-127, sem kom til landsins í maí s.l. Samið var um þessi tvö skip í ágúst árið 1978.

Jón Baldvinsson RE, sem er systurskip Más SH, er smíðaður eftir norskri teikningu frá fyrirtækinu Ankerlökken Marine A/S, sömu teikningu og skuttogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS, sem vars míðaður í Noregi og kom í júní á s.l. ári.

Helztu frávik á smíði og fyrirkomulagi frá Júlíusi Geirmundssyni komu fram í lýsingu á Má SH í 7.tbl. Ægis.

Jón Baldvinsson RE er í eigu Bœjarútgerðar Reykjarvíkur og er þetta fimmti skuttogarinn í eigu B.Ú.R.en fyrir eru þrír spœnskir skuttogararar af stærri gerð, þ.e. Bjarni Benediktsson, Ingólfur Arnarson og Snorri Sturluson; og Hjörleifur (áður Freyja RE), skuttogari af minni gerð sem keyptur var þriggja ára til landsins.

Skipstjóri á Jóni Baldvinssyni RE er Snorri Friðriksson og l. vélstjóri Vilberg Normann. Framkvœmdastjóri útgerðar er Marteinn Jónasson.

Jón Baldvinsson var 53,45 metrar að lengd og 10,50 metra breiður. Hann mældist 493 brl. að stærð. Aðalvélin var 2350 hestafla Wichmann.

Grandi hf. seldi Jón Baldvinsson RE 208 til Chile haustið 1997.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þeir sem áhuga hafa á dagatali Skipamynda 2020 geta pantað sér eintak á korri@internet.is – Verðið er 3300 kr. 

Berglín GK 300 á toginu

1905. Berglín GK 300 ex Jöfur ÍS 172. Ljósmynd Þór Jónsson 2018.

Þór Jónsson skipverji á Ljósafelli SU 70 tók þessar myndir sem nú birtast og sýna skuttogarann Berglín GK 300 að veiðum.

Berglín GK 300, sem er í eigu Nesfisks hf. í Garði, var smíðuð í skipasmíðastöðinni Stálvík í Garðabæ og hét upphaflega Jöfur KE 17.

Njáll ehf. (sömu eigendur og að Neskfiski) keypti Jöfur íS 172 árið 1998 og svo sagði frá í Morgunblaðinu 5. ágúst það ár:

Njáll ehf. í Garði er byrjaður að gera út togskipið Berglín GK 300 sem keypt var af Þormóði ramma-Sæbergi á Siglufirði, en skipið hét áður Jöfur ÍS 172. Skipið var smíðað í Garðabæ árið 1988 og er um 300 tonn, en það er eitt af raðsmíðaskipunum svokölluðu.

Að sögn Bergþórs. Baldvinssonar, framkvæmdastjóra Njáls ehf., fylgdi skipinu 400 tonna kvóti og var kaupverð skipsins 350 milljónir króna. Kvótinn sem keyptur var með skipinu er 200 tonn í þorski, 100 tonn í karfa og 100 tonn í ufsa. Bergþór sagði að nokkrar breytingar og lagfæringar hefðu verið gerðar á skipinu frá því það var keypt í maí síðastliðnum og færi það á veiðar með fiskitroll.

Skipið var upphaflega í eigu Stálvíkur hf. og gerði Jarl hf. í Keflavík það þá út. Í apríl 1989 keypti Muggur hf. á Hvammstanga skipið, en það var selt til Leitis hf. á Ísafirði í ársbyrjun 1993. Þormóður rammi- Sæberg eignaðist skipið þegar Leiti hf. sameinaðist fyrirtækinu 1996.

Eigendur Njáls ehf. eiga einnig Nesfisk ehf. í Garði sem rekur frystihús og saltfiskverkun. Frystihúsið var byggt 1987 eftir að eldra frystihús fyrirtækisins brann. Njáll ehf. gerir nú út átta skip og er samanlagður kvótí þeirra um 5.000 þorskígildistonn.

Auk Berglínar GK, sem er stærst skipanna, er um að ræða Sigga Bjarna GK 104, Berg Vigfús GK 53, Benna Sæm GK 26, Baldur GK 97, Unu í Garði GK 100, Sóleyju Sigurjóns GK 200 og Sigurfara GK138.

Árið 2000 er Nesfiskur hf. skráður eigandi Berglínar GK 300.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þeir sem áhuga hafa á dagatali Skipamynda 2020 geta pantað sér eintak á korri@internet.is – Verðið er 3300 kr. 

Svalbakur EA 2 á toginu á Flæmska

2220. Svalbakur EA 2 ex Cape Adair. Ljósmynd Ómar Örn Jónsson.

Svalbakur EA 2 er hér á toginu á Flæmska hattinum um árið en myndina tók Ómar Örn Jónsson skipverji á Þórunni Havsteen ÞH 40.

ÚA keypti togarann frá Kanada og kom hann í fyrsta skipti til heimahafnar á Akureyri þann 22. apríl 1994.

Um skipið segir m.a eftirfarandi í júnítölublaði Ægis það ár:

Nýr skuttogari bœttist við flota Akureyringa 22. apríl sl., en þann dag kom Svalbakur EA 2 í fyrsta sinn til heimahafnar. Skuttogari þessi, sem áður hét Cape Adair, er smíðadur árið 1989 fyrir Kanadamenn hjá Qrskov Christensens Staal- skibsvœrft A/S í Frederikshavn í Danmörku, smíðanúmer 171 hjá stöðinni. Hönnun skipsins var í höndum Nordvestconsult A/S í Álesund í Noregi.

Hinn nýi Svalbakur EA kemur í stað Svalbaks EA 302 (sk.skr.nr. 1352), 781 rúmlesta skuttogara, smíðaður árið 1969, en keyptur til landsins árið 1973. Þess má geta að um- rœddur togari var flakavinnslutogari, þegar hann var keyptur til landsins, en sá búnaður tekinn úr honum. Jafnframt hverfur úr rekstri frystitogarinn Guðmunda Torfadóttir VE (2191), sem keyptur var til landsins á sl. ári, og lítill trébátur.

Svalbakur EA er í eigu Útgerðarfélags Akureyringa hf. Skipstjóri á skipinu er Kristján Halldórsson og yfirvélstjóri Bergur Bergsson. Framkvœmdastjóri útgerðar er Gunnar Ragnars.

Svalbakur EA 2 er 67.00 metrar að lengd og breidd hans er 14 metrar. Skipið mælist 1419 brl./2291 BT að stærð. Aðalvélin 4484 hestafla MAK.

Svalbakur fór úr landi árið 2000 og var gerður út frá Færeyjum undir nafninu Ocean Pride VN 555 og síðar gert út frá St. John á Nýfundnalandi nafninu Newfound Pioneer. Á þessu ári skipti togarinn um eigendur og heitir nú Dorado 2 og er heimahöfn hans nú Liepaia í Lettlandi.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þeir sem áhuga hafa á dagatali Skipamynda 2020 geta pantað sér eintak á korri@internet.is – Verðið er 3300 kr. Sent um land allt.