Þórður ÞH 92

5476. Þórður ÞH 92. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hér er Þórður ÞH 92 í fjörunni neðan Beinabakkans á Húsavík og greinilega verið að skvera bátinn.

Jóhann Sigvaldason bátasmiður á Húsavík smíðaði Þórð ÞH 92 fyrir Viðar Þórðarson árið 1961. Báturinn var 3,51 brl. að stærð, smíðaður úr furu og eik. Búinn 33 heestafla Volvo Penta.

Ekki er ég með miklar upplýsingar um bátinn handægar en á vef Árna Björns Árnasonar, aba.is, segir að Viðar Þórðarson hafi átt hann í fjögur ár.

Jón Ágúst Bjarnason átti hann um tíma og Viðar keypti hann af honum árið 1983 og eignaðist þar með Þórð í annað sinn. Spurning hverjum hann seldi 1965 og hver átti hann þar til Jón Ágúst keypti hann.

Síðunni hefur borist svar við spurningunni að ofan nema ártöl eru önnur en svona var svarið:

Viddi kaupir hann 62, selur Sedda 66, Seddi selur Trausta Jóns og Heimi Bessa 76 sem selja Krók 78 sem selur Vidda Þórðar 1983. Viddi seldi bátinn suður 1987. Eftir það fer hann á milli manna fyrir sunnan ýmist í Reykjavík eða á Suðurnesjum. Er skáður á Ísafirði 1997.

Það var s.s Sigurjón Kristjánsson sem átti hann á eftir Viðari, síðan kaupa Trausti Jónsson og Heimir Bessason bátinn og Jón Ágúst Bjarnason kaupir af þeim þegar þeir keyptu stærri bát. Og Viðar kaupir hann af Jóni og selur hann síðan suður 1987. Þá hafði báturinn verið gerður út frá Húsavík í kvartöld undir nafninu Þórður ÞH 92.

Á aba.is segir m.a:

Frá árinu 1987 hét báturinn Þórey RE-107, Reykjavík; 
Frá árinu 1987 Linda KE-240, Keflavík; Frá árinu 1991 hét báturinn Linda ÍS-278, Ísafirði og það nafn bar hann þegar hann var felldur af skipaskrá 23. desember 1998 með þeirri athugasemd að hann hafi ekki verið skoðaður árum saman.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Magnús ÞH 34 bæði blár og rauður

2076. Magnús ÞH 34 ex Keilir AK 26. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2006.

Fiskverkunin Ugg ehf. á Húsavík keypti Keili Ak 26 vorið 2004 og gaf honum nafnið Magnús ÞH 34.

Magnús ÞH 34 var gerður út frá Húsavík um nokkurra ára skeið en á síðari hluta ársins 2010 var hann seldur til Þórshafnar á Langanesi. Þar fékk hann nafnið Gunnar KG ÞH 34 í eiga samnefnts fyrirtækis.

Báturinn var smíðaður hjá bátsmiðjunni Knörr ehf. á Akranes árið 199o og hét eins og áður segir Keilir AK 26. Báturinn var lengdur 1995 og mældist eftir það 11,99 metrar að lengd. Breiddin 3,04 metrar og mælist hann 9,86 brl./13,03 BT að stærð. Búinn 250 hestafla Cummins.

2076. Magnús ÞH 34 ex Keilir AK 26. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Fengur ÞH 207 á landleið í dag

2125. Fengur ÞH 207 . Ljósmynd Guðmundur Rafn Guðmundsson 2019.

Hér siglir grásleppubáturinn Fengur ÞH 207 með Látraströndinni á leið sinni til hafnar á Grenivík eftir að hafa dregið netin við Flatey.

Það eru feðgarnir Jón Þorsteinsson og Víðir Örn sonur hans sem róa á Feng og að sögn Víðis hafa aflabrögð verið ágæt.

Fengur ÞH 207 var smíðaður á Skagaströnd fyrir bæðurnar Jón og Friðrik K. Þorsteinssyni og þiljaður árið 1992.

Sem opinn bátur var hann með skipaskrárnúmerið 7117. Hann hefur einnig verið lengdur og skipt var um vél árið 2013.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Steinunn HF 108

2766. Steinunn HF 108 ex Benni SU 65. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Línubáturinn Steinunn HF 108 kemur hér til hafnar í Grindavík fyrir helgi.

Steinunn HF 108 var smíðuð fyrir Grábrók ehf. á Hornafirði hjá Trefjum í Hafnarfirði og afhent haustið 2007. Fyrir útgerðinni stóð Friðþór Harðarson.

2766. Steinunn HF 108 ex Benni SU 65 nálgats Grindavíkurhöfn. Ljósmynd Jón Steinars.

Báturinn, sem er af gerðinni Cleopatra 38, fékk nafnið Benni SF 66 og hélt hann nafninu þótt SF 66 breyttist í SU 65. Og aftur í SF 66 og aftur í SU 65 en alltaf Benni þangað til í lok janúar sl. að Benni varð Steinunn HF 108. Enn í eigu Grábrókar ehf. sem skipt hefur um eigendur.

2766. Steinunn HF 108 ex Benni SU 65. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Bergvík GK 22

2617. Bergvík GK 22 ex Daðey GK 707. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Bergvík GK 22 sem GunGum ehf. gerir út er á grásleppunetum þessa dagana og hér er hún á siglingu til hafnar í Grindavík í gær.

Bergvíkin var að koma í gær austan af Hraunsvíkinni eftir að hafa dregið grásleppunetin og lagði eina trossu rétt vestan innsiglingarinnar til Grindavíkur áður en hún kom í land.

Smíðuð hjá Mótun ehf í Njarðvík 2004 og hét upphaflega Daðey GK 777.

2617. Bergvík GK 22 kemur til hafnar í Grindavík í gær. Ljósmynd Jón Steinar Sæmundsson.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Geirfugl GK 66 kom til Grindavíkur í gær

2500. Geirfugl GK 66 ex Oddur á Nesi ÓF 176. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Geirfugl GK 66 kom til heimahafnar í Grindavík í gær eftir að hafa róið fyrir norðan frá því Stakkavík eignaðist hann á dögunum.

Eins og kom fram á síðunni fyrir skömmu höfðu Stakkavík ehf. og BG nes ehf. bátaskipti.

Geirfugl GK 66 hét upphaflega Ósk KE 5. Hann var smíðaður hjá Seiglu ehf. í Reykjavík árið 2004 og er af gerðinni Seigur 1400. Hann er 14 metra langur, 4,20 á breidd og mælist 25 BT að stærð.

Báturinn er ekki ókunnur Grindvíkingum því bæði hefur Stakkavík ehf. átt hann áður og eins hét hann Árni í Teigi GK 1 árin 2005-2012.

Annars er nafnarunan svona: Ósk KE 5, Frosti II KE 230, Árni í Teigi GK1, Pálína Ágústsdóttir GK 1, Reynir GK 666, Guðbjörg GK 666, Hulda HF 27, Oddur á Nesi SI 76, Oddur á Nesi ÓF 176 og loks Geirfugl GK 66.

Báturinn var yfirbyggður hjá Siglufjarðar-Seig árið 2014. 

2500. Geirfugl GK 66 ex Oddur á Nesi ÓF 176. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution


Bára ÞH 7

1300. Bára ÞH 7. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Bára ÞH 7 er hér á útleið frá Húsavík áleiðis á grásleppumiðin vestur undan um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

Bára ÞH 7 var smíðuð af Herði Björnssyni á Borgarfirði eystra árið 1973 fyrir Jón B. Gunnarsson og Kristinn Lúðvíksson á Húsavík.

Hún er smíðuð úr furu og eik og mælist 7,51 brl. að stærð.

Þeir Nonni Begg og Kiddi Lúlla áttu Báru til ársins 1998 að hún var seld. Hún fór til Raufarhafnar og var þar undir sama nafni og númeri til ársins 2010.

Þá fór Bára ÞH 7 austur á sínar fornu slóðir, Borgarfjörð eystri þar sem hún fékk nafnið Sveinbjörg NS 49.

Í dag heitir báturinn Glófaxi NS 49 og er í eigu Ólafs Sveinbjörnssonar sem hefur gert bátinn upp. Glófaxi NS 49 er í núllflokki á vef Fiskistofu.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Drónamyndir af Indriða Kristins BA 751

2947. Indriði Kristins BA 751 á leið inn til Grindavíkur í dag. Ljósmynd Jón Steinar.

Þrátt fyrir að vera búinn að birta myndir af Indriða Kristins BA 751 í tvígang á stuttum tíma er ekki hægt annað en að birta þessar sem Jón Steinar tók á drónann í dag.

2947. Indriði Kristins BA 751. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Aflinn hjá köllunum á Indriða Kristins var 8 tonn þrátt fyrir að það hafi allt gengið á afturlöppunum hjá þeim þennan daginn. Það var víst mikið um slit og einnig töpuðu þeir einhverju af línu segir ljósmyndarinn.

2947. Indriði Kristins BA 751. Ljósmynd Jón Stenar 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sunnutindur SU 95

2670. Sunnutindur SU 95 ex Þórkatla GK 9. Ljósmynd Þór Jónsson.

Sunnutindur er nafn sem lengi var í flota Djúpavogsbúa og einatt á fleytum í eigu Búlandstinds. Sá síðasti áður en kom að þessum sem hér birtist var að vísu í eigu Vísis hf. í Grindavík.

Búlandstindur ehf. keypti Þórkötlu GK 9 af Stakkavík ehf. vorið 2015 og nefndi Sunnutind SU 95. Báturinn, er gerður út á línu frá Djúpavogi, er af gerðinni Gáski 1280 frá Mótun. Smíðaður í Njarðvík árið 2005.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sævaldur við bryggju á Húsavík

6790. Sævaldur ÞH 216 ex Hafey SK 94. Ljósmynd Hafþór Hreiðrsson 2004.

Sævaldur ÞH 216 liggur hér við bryggju á Húsavík á grásleppuvetíðinni árið 2004.

Sævaldur var smíðaður af Herði Björnssyni í Garðabæ árið 1986. Hann er 6,63 brl. að stærði búinn 61 hestafla Cumminsvél.

Ekki er ég með það hvað hann hét í upphafi en mig minnti að hann hefði heitið Sævaldur HF þegar Guðmundur Karlsson kom með hann norður. Hann fékk ÞH 216 og heimahöfnin var til að byrja með í Flatey á Skjálfanda.

En samkvæmt vef Fiskistofu hét hann Hafey SK 94 áður en hann varð Sævaldur ÞH 216.

Sævaldur ÞH 216 í eigu Einars Ófeigs Magnússonar á Húsavík sem gert hefur hann út á strandveiðar á sumrin.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution