Særif SH 25 mun veiða fyrir Íslandssögu

2822. Særif SH 25 ex Hálfdán Einarsson ÍS 128. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Íslandssaga ehf. á Suðureyri hefur náð samningum við fyrirtækið Melnes ehf. á Rifi og mun bátur síðarnefnda fyrirtækisins veiða fyrir Íslandssögu næsta mánuðinn. 

Það er bb.is á Ísafirði sem greinir frá þessu og þar segir m.a:

það er Særif SH 25 30 tonna krókaaflamarksbátur sem mun veiða og leggja upp afla sínum til Íslandssögu og Íslandssaga mun leggja bátnum til kvóta eftir föngum auk þess að sem hann mun veiða af kvóta sínum.

Særif SH 25 er beitningavélabátur. Óðinn segir að með þessu sé búið að tryggja samfellu í rekstri Íslandssögu a.m.k. næsta mánuðinn og gefst þá tími til að huga að varanlegri lausn á vanda fyrirtækisins vegna strands Einars Guðnasonar ÍS 303.

Særif SH 25 kom úr fyrsta róðri sínum hér fyrir vestan í gærkvöldi og landaði 12 tonnum, mest þorski.

Særif SH 25 hét upphaflega Hrólfur Einarsson ÍS 255 og var í eigu Völusteins ehf. í Bolungarvík. Hrólfur Einarsson ÍS 255 var smíðaður árið 2012 hjá Trefjum í Hafnarfirði. Eftir að báturinn var lengdur um þrjá metra árið 2013 fékk hann nafnið Hálfdán Einarsson ÍS 128. 2015 er báturinn seldur Melnesi ehf. á Hellisandi og fær nafnið Særif SH 25.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Nanna Ósk II ÞH 133 – Myndasyrpa

2793. Nanna Ósk II ÞH 133. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2010.

Eins og áður hefur komið fram á síðunni kom ný Nanna Ósk II ÞH 133 til heimahafnar á Raufarhöfn þann 5. nóvember árið 2010.

Þessar myndir voru teknar daginn eftir, sama dag og ný Hófaskarðsleið var formlega vígð ef einhver skyldi hafa á huga á að vita það.

Það var Útgerðarfélagið Stekkjavík ehf. á Raufarhöfn sem lét smíða bátinn, sem er af Cleopatra 38 gerð, hjá Trefjum í Hafnarfirði. Að útgerðinni standa bræðurnir Ragnar Axel og Hólmgrímur Jóhannssynir.

 Nanna Ósk II ÞH 133 er 15 brúttótonn og gerð út í aflamarkskerfinu. Hér að neðan eru nokkrar myndir sem ég tók þennan dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Einar Guðnason ÍS 303 á strandstað við Gölt

2907. Einar Guðnason ÍS á strandstað við Gölt. Ljósmynd Guðmundur St. Valdimarsson 14. nóvember 2019.

Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á v/s Tý tók þessar myndir af Einari Guðnasyni ÍS 303 á strandstað við Gölt í mynni Súgandafjarðar.

Einar Guðnason ÍS 303 var að koma úr línuróðri skömmu fyrir miðnætti í 13. nóvember þegar strandið varð. Þyrla Landhelgisgæslunnar , TF-Eir, bjargaði áhöfninni.

Á vef Landhelgisgæslunnar segir svo frá:

Rúmlega tuttugu tonna fiskibátur strandaði við Gölt á utanverðum Súgandafirði í kvöld. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá bátnum klukkan 22:00 en fjórir voru um borð. TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út sem og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á norðanverðum vestfjörðum.

Báturinn skorðaðist fljótlega á milli kletta og braut nokkuð á honum. Hægur vindur var á svæðinu og þónokkur alda. 

Ekki reyndist unnt fyrir björgunarskip að komast nálægt strandstað frá sjó sökum brims og voru björgunarsveitir þá sendar landleiðina frá norðanverðum Súgandafirði. 

TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á vettvang klukkan 23:42 og áhöfn hennar hófst þegar handa við að bjarga skipverjunum fjórum um borð í þyrluna. Á miðnætti var búið að bjarga mönnunum, heilum á húfi, um borð í þyrluna. Þeir voru fluttir til Ísafjarðar.

Varðskipið Týr er væntanlegt á strandsstað í fyrramálið og verða aðstæður skoðaðar með tilliti til þess hvort hægt verði að ná bátnum af strandsstað.

Það er skemmst frá því að segja að bátnum varð ekki bjargað af strandstað og er þetta mikið högg fyrir atvinnulífið á Suðureyri. Báturinn, sem var í eigu Norðureyrar ehf., var burðarásinn rekstri fyrirtækisins.

2907. Einar Guðnason ÍS á strandstað við Gölt. Ljósmynd Guðmundur St. Valdimarsson 14. nóvember 2019.

Einar Guðnason ÍS 303, sem var smíðaður árið 2015 og hét upphaflega Indriði Kristins BA 751, var keyptur til Suðureyrar í fyrra.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Indriði Kristins BA 751

2907. Indriði Kristins BA 751. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Indriði Kristins BA 751 sem hér sést koma til hafnar í Grindavík vorið 2016 fékk síðar nafnið Einar Guðnason ÍS 303 og var gerður út frá Suðureyri.

Sú útgerð hlaut snöggan endi nú í vikunni þegar báturinn strandaði og ónýttist við Gölt í mynni Súgandafjarðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði áhöfn bátsins.

Báturinn, reyndar talað um skip í fréttum vikunnar, var 22 bt. að stærð og af gerðinni Cleopatra 40B frá Trefjum í Hafnarfirði. Hann var afhnetur Bergdísi ehf. á Tálknafirði í byrjun árs 2016.

Hann var seldur til Suðureyrar sumarið 2016 þegar nýr og stærri Indriði Kristins BA 751 leysti hann af hólmi.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Vilborg ÞH 11

6431. Vilborg ÞH 11 ex Eyrún ÞH 268. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2014.

Vilborg ÞH 11, sem er í eigur Hreiðars Jósteinssonar á Húsavík, var smíðuð í Trefjum árið 1982.

Hún er af gerðinni Skel 80, mælist 5,3 brl./5,21 BT að stærð búin 63 hestafla Mermaid-vél síðan 1998.

Upphaflega hét báturinn Draumur ÞH 31 og var í eigu Steingríms Árnasonar. Gunnar Gunnarsson kaupir Draum af Steingrími og nefnir Eyrúnu ÞH 268. Hreiðar kaupir síðan af Gunnari í árslok 1990 og nefnir bátinn Vilborgu ÞH 11.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Guðrún GK 47

2640. Guðrún GK 47 ex Arney BA 158. Ljósmynd Raufarhafnarhöfn 2019.

Guðrún GK 47 komst í fréttir í morgun þegar báturinn strandaði við Rifstanga á Melrakkasléttu.

Björg­un­ar­skip­inu Gunn­björg frá Raufarhöfn dró hann á flot og var komið með hann til Raufar­hafn­ar að ganga hálf ell­efu í morg­un.

Guðrún GK 47, sem er í eigu Skarfakletts ehf., hét upphaflega Dúddi Gísla GK 48. Síðar Ólafur HF 200, Pálína Ágústsdóttir GK 1 og GK 54. Því næst Arney BA 158 og loks Guðrún GK 47.

Raufarhöfn í dag. Ljósmynd Raufarhafnarhöfn 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Karólína ÞH 100

2760. Karólína ÞH 100. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Línubáturinn Karólína ÞH 100 færir sig hér í leguplássið sitt nú síðdegis eftir löndun og olíutöku í Húsavíkurhöfn.

Karólína ÞH 100 er í eigu Doddu ehf. á Húsavík og var smíðuð hjá Samtak í Hafnarfirði árið 2007.

Báturinn er 11,94 metrar að lengd, 4,18 metrar á breidd og mælist 14,92 BT að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Dögg SU 118 á Hornafirði

2718. Dögg SU 118 ex Dögg SF 18. Ljósmynd Sigurður Davíðsson 2019.

Sigurður Davíðsson skipverji á Steinunni SF 10 tók þessar myndir af Dögg SU 118 á leið í róður frá Hornafirði.

Dögg SU 118 er frá Trefjum af gerðinni Cleopatra 38 og var smíðuð fyrir Ölduós ehf. á Höfn í Hornafirði árið 2007.

Upphaflega var Dögg SF 18 en árið 2010 var skráningu hennar breytt í SU 118 og heimahöfnin Stöðvarfjörður.

2718. Dögg SU 118 ex Dögg SF 18. Ljósmynd Sigurður Davíðsson 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Beggi kominn á þurrt

1350. Beggi ÞH 343 við Norðurgarðinn á Húsavík. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Beggi ÞH 343 var hífður á land á Húsavík um miðjan daginn en hann sökk við bryggju í morgun.

Björg­un­ar­sveit­ar­menn og kafari voru kvadd­ir á staðinn og tókst að koma Begga á flot þar sem dælt var úr hon­um. Óvíst er hvers vegna hann sökk eftir því sem segir í frétt á mbl.is í dag.

Beggi ÞH 343, sem er í eigu Vaðkots ehf., var smíðaður úr eik og furu í Dráttarbrautinni í Neskaupsstað 1973 og hét upphaflega Guðbjörg Sigfúsdóttir NK 20.

1350. Beggi ÞH 343 ex Hafborg SI 4. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Beggi ÞH 343 er 11,05 brl. að stærð og hefur ekki verið í útgerð mörg undanfarin ár.

1350. Beggi ÞH 343 ex Hafborg SI 4. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Össur ÞH 242

5455. Össur ÞH 242 ex Gæfa ÞH 242. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hér siglir Heimir Bessason báti sínum að leguplássi við smábátabryggjuna eftir löndun á Húsavík.

Össur ÞH 242 hét upphaflega Sæborg SF 47 og var smíðuð úr furur og eik árið 1961 af Sigurði Sv. Sveinssyni á Borgarfirði eystra. 4,70 brl. að stærð með 24 hestafla Lister. Eigandi var Jón Sveinsson á Höfn í Hornafirði.

1968 kaupa Kristbjörn Árnason og Pétur Pétursson Sæborgina til Húsavíkur og nefna Smára ÞH 59. Kristján Helgason kaupir bátinn árið 1978 og fær hann nafnið Gæfa ÞH 242 sem hann ber þangað til Heimir kaupir hann árið 1980.

Heimir nefnir bátinn Össur ÞH 242 og gerði út til ársins 1986.

Báturinn hét Sigurpáll ÞH 292 um tíma árið 1986 en það sama ár fékk hann nafnið Sída EA 240 með heimahöfn í Hrísey. Eigandi Víðir Benediktsson.

Sída EA 240 var seld til Neskaupstaðar árið 1989 og hélt nafninu en varð NK 55.

Á vefnum aba.is segir að árið 1991 hafi báturinn komist í eigu Síldarvinnslunnar hf. Neskaupstað sem fargaði honum og felldi af skipaskrá 24. apríl 1991.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution