
Rækjubáturinn Aldey ÞH 380 var gerður út frá Húsavík um hríð en það var Íshaf hf. sem gerði hana út.
Upphaflega hét báturinn Óskar Halldórsson RE 157 og var smíðaður í Zandaam í Hollandi fyrir Ólaf Óskarsson útgerðarmann í Reykjavík. Hann nefndi hann eftir föður sínum, Óskari Halldórssyni útgerðarmanni og síldarspekúlant.
Aldey ÞH 380 kom til heimahafnar 19. janúar árið 2004 og birtist eftirfarandi frétt á mbl.is þann dag:
Togskipið Aldey ÞH 380 kom í fyrsta skipti til nýrrar heimahafnar á Húsavík í dag. Aldey hét áður Votaberg SU 10 en er eitt þriggja skipa sem Íshaf hf. fékk í skipaskiptum við Eskju hf. á Eskifirði. Hin eru Guðrún Þorkelsdóttir SU 211, sem fær nafnið Seley ÞH 381 og Hólmanes SU 1, sem afhent verður síðar.
Strax var hafist handa við að útbúa Aldey til rækjuveiða og að sögn skipverja stefnt að því að halda til veiða um leið og allt er orðið klárt.
Aldey er 379 brúttótonna skip byggt í Hollandi 1964 og verður því fertugt síðar á árinu. Skipið hét upphaflega, og lengst af Óskar Halldórsson RE 157, síðar Gestur SU 160, þá Votaberg SU 10 þangað til það komst í eigu Íshafs að það fékk nafnið Aldey.
Aldey fékk nafnið Óskar ÞH 380 árið 2006 og varð svo Óskar RE 157 um árið síðar. Óskar fór í pottinn 2010, nánar tiltekið til Ghent í Belgíu.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution