Skálafell SH 240

1221. Skálafell SH 240. Ljósmynd Kristjánsson.

Skálafell SH 240 var smíðað úr furu og eik árið 1972 á Siglufirði fyrir þá Gunnar Gunnarsson og Kristján Helgason í Ólafsvík.

Myndin kemur úr safni Helga Kristjánssonar en Kristján faðir hans, annar eigenda, tók myndina.

Báturinn, sem var tæpar 12 brl. að stærð búinn 108 hestafla Powa Marinevél, sökk þann 24. janúar 1974 skammt út af Sandgerði eftir að brotsjór reið yfir bátinn. Áhöfninni, þremur mönnum, var bjargað um borð í Víði II úr Garði.

Nýbúið var að kaupa Skálafellið suður og var það í sínum fyrsta róðri.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hólmaborg SU 11

1525. Hólmaborg SU 11 ex Eldborg HF 13. Ljósmynd Sigmar Ingi Ingólfsson 2003.

Á þessum myndum má sjá loðnuskipið Hólmaborgu SU 11 sigla fram hjá Grindavík vorið 2003, sennilega á heimstími til Eskifjarðar með fullfermi af loðnu.

Myndirnar tók Sigmar Ingi Ingólfsson þá skipverji á Erni KE 13.

Hólmaborg SU 11 hét upphaflega Eldborg HF 13 og var smíðuð fyrir samnefnda útgerð árið 1978 og kom til heimahafnar í Hafnarfirði 30. desember það ár. Hér má lesa nánar um Eldborgina.

Árið 1988 var Eldborg HF 13 keypt til Eskifjarðar þar sem hún fékk nafnið Hólmaborg SU 11.

Árið 1996 var skipið lengt um 14 metra í Gdynia í Póllandi og jókst burðargeta skipsins úr 1.600 tonnum í 2.500 tonn.

Þegar Eskja keypti Aðalstein Jónsson SU 11 árið 2006 fékk Hólmaborgin nafnið Jón Kjartansson SU 111 sem breyttist í SU 311 þegar nýr Jón Kjartansson SU 111 var keyptur frá Skotlandi.

Skipið hefur legið við bryggju undanfarin ár.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution