Björgunarsveitin Þorbjörn

2743. Oddur V. Gíslason. Ljósmynd Jón Steinar 2020.

Sjóflokkur björgunarsveitarinnar skrapp út frá Grindavík til æfinga í dag og tók Jón Steimar þessar myndir við það tækifæri.

Þeir voru meðal annars að æfa sig á nýjan harðbotna slöngubát sem sveitin festi nýverið kaup á. 
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík er ein öflugasta sjóbjörgunarsveit landsins og er sú sveit sem hefur bjargað flestum mannslífum úr sjávarháska. 

Hún var til að mynda fyrsta sveitin til þess að nota fluglínutæki er þeir björguðu 38 skipverjum af franska síðutogaranum Cap Fagnet 1931. Síðan þá hafa þeir bjargað rúmlega 200 manns til viðbótar með fluglínutækninni. 

Fluglínutækin eru til ennþá og klár til notkunar ef á þarf að halda, en einnig hafa ný og öflug björgunartæki bæst í vopnabúr sveitarinnar síðan þá og á þau þurfa meðlimir sveitarinnar að læra sem og að kunna á aðstæðurnar sem þeir þurfa að eiga við hverju sinni.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Selfoss kom til Húsavíkur í dag

IMO 9433456. Selfoss ex Shopia. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Selfoss, skip Eimskipafélags Íslands hf. kom til Húsavíkur eftir hádegi í dag og lagðist að Bökugarðinum þar sem vinna hófst strax við upp- og útskipun.

Selfoss er 700 gámaeininga skip, 130 metra langt, 21 metra breitt og 7,464 brúttótonn að stærð.

Eimskip keypti skipið, sem smíðað var 2008, árið 2017 en það hét áður Sophia. Selfoss siglir undir færeyskum fána með heimahöfn í Þórshöfn.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sóley kemur að landi

7382. Sóley ÞH 28 ex Íshildur SH 160. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020.

Þessar myndir voru teknar þegar grásleppubáturinn Sóley ÞH 28 sem Jóhann Gunnarsson gerir út kom að landi á Húsavík í dag.

Sóley ÞH 28 hét upphaflega Gnoð HF 25 og var smíðuð árið 1993 fyrir Jón Gíslason Hafnarfirði í Bátasmiðju Guðmundar ehf. í Hafnarfirði.

Árið 1995 var Gnoð seld til Þórshafnar þar sem hún fékk nafnið Þórunn ÞH 123. Síðar átti hún eftir að heita Þórunn GK 63, Bensi Egils ST 13, Signý ÞH 123 og Íshildur SH 160. Í nóvemer árið 2011 er hún keypt til Húsavíkur, hét fyrstu dagana Sóley II ÞH 28 en síðan Sóley ÞH 28.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Maxi liggur við festar á Skjálfanda

IMO 9180865. Maxi við festar á Skjálfanda í morgun. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Flutningaskipið Maxi liggur nú við festar á Skálfanda og bíður þess að komast upp að Bökugarðinum í Húsavíkurhöfn.

Skipið, sem smíðað var árið 1999 í Hollandi, siglir undir fána Antigua & Barbuda. Það er 112 metra langt, 15 metra breitt og mælist 4,503 brúttótonn að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Ólafur Magnússon EA 250

161. Ólafur Magnússon EA 250. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Ólafur Magnússon EA 250 var mikið aflaskip á sínum tíma og hér er hann drekkhlaðinn síldarfarmi á sjöunda áratug síðustu aldar.

Ólafur Magnússon EA 250 var smíðaður árið 1960 í Brattvaag Skipsinnredning AS í Brattvaag í Noregi og hafði smíðanúmer 9 frá stöðinni. Hann mældist 173 brl. að stærð, búinn 600 hestafla Wichmann aðalvél.

Hann var samkvæmt frétt í Þjóðviljanum 7. júlí 1960 einn fullkomnasti fiskibátur landsins á þeim tíma. Báturinn, sem var smíðaður fyrir Valtý Þorsteinsson útgerðarmann, kom til heimahfnar á Akureyri 6. júlí 1960. Hann var þrjá sólarhringa og tvo klukkutíma frá Brattvaag til Akureyrar sem Þjóðviljinn sagði hraðamet á íslenskum fiskibát.

Ólafur Magnússon EA 250 var lengdur árið 1965 og mældist þá 226 brl. en var endurmældur í ársbyrjun 1969 og mældist þá 187 brl. að stærð.

Snemma árs 1983, keypti Njörður h/f í Hrísey Ólaf Magnússon EA 250 en fyrirtækið var í meirhlutaeign KEA. Báturinn fékk nafnið Sólfell EA 640 sem hann bar til ársins 1992 en í nóvember það ár var hann seldur til Noregs og tekinn af skipaskrá.

Sólfell EA 640 var að síðustu í eigu Sædísar h/f á Ólafsfirði sem notaði úreldingarétt bátsins upp í kaupin á línuskipinu Lísu Maríu ÓF 26. Auk Sólfellsins var Stakkavík ÁR 107 (1036) úreld auk smærri báta.

Í Noregi fékk báturinn nafnið Julie og var breytt í brunnbát og notaður sem slíkur þar til hann fór í brotajárn árið 2018.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution