Mir landaði á Húsavík í febrúar 1999

IMO 7827732. Mir ex Már SH 127. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1999.

Rússneski togarinn Mir landaði hjá GPG á Húsavík í febrúarmánuði 1999 og þá hef ég tekið þessa mynd sem ég man þó ekkert eftir að hafa tekið.

En það eru einnig fjölskyldumyndir á sömu filmu og get ég sennilega ekki svarið myndatökuna af mér.

Mir sem upphaflega hét Már SH 127 landaði s.s hjá GPG og nokkrum dögum síðar gerði það einnig togarinn Belomorsk sem sama fyrirtæki gerði út en hann hét áður Runólfur SH 135.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Jón Björn NK 111

1453. Jón Björn NK 111 ex Harpa GK 111. Ljósmynd Þorgeir Baldursson.

Jón Björn NK 111 sem sést hér á mynd Þorgeirs Baldurssonar hét upphaflega Aldan RE 327 og var smíðuð hjá Básum h/f í Hafnarfirði árið 1976.

Aldan RE 327 var smíðuð fyrir Guðmund J. Magnússon í Reykjavík sem jafnframt var skipstjóri á bátnum.

Aldan RE 327 mældist 26 brl. að stærð og var nokkru stærri en fyrri bátar sem Básar h/f hafði smíðað, s.s Viðar ÞH 17, Haftindur HF 123 og Seifur BA 123.

Upphaflega var í bátnum 176 hestafla GM aðalvél en 1983 var sett í hann 230 hestafla vél sömu tegundar.

Í lok árs 1981 var Aldan RE 327 seld til Vopnafjarðar þar sem hún fékk nafnið Þerna NS 113. Haustið 1983 var Þerna NS 113 seld suður í Garð þar sem hún fékk nafnið Sigurvin GK 51.

Frá árini 1988 og til ársins 1996 þegar hann fékk það nafn sem hann ber á myndinni hét hann Seifur NS 123, Seifur NS 923, Kambavík SU 24, Haförn HU 4 og Harpa GK 111.

Árið 2004 var Jón Björn NK 111 kominn í eigu Samvinnufélags útgerðarmanna Neskaupstað og fékk síðar nafnið Gerpir NK 111 sem hann ber í dag. Hann er notaður til farþegasiglinga.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution