Gunnbjörn ÍS 302

1686. Gunnbjörn ÍS 302 ex Kristján Þór EA 701. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Gunnbjörn ÍS 302 var smíðaður í Njarðvík árið 1984 og hét upphaflega Haukur Böðvarsson ÍS 847.

Báturinn, sem var 57 brl. að stærð og búinn 470 hestafla cummins aðalvél, hét síðar Gullþór KE 70 og Kristján Þór EA 701 áður en Birnir hf. í Bolungarvík keypti hann og gaf honum nafnið Gunnbjörn ÍS 302.

Árið 1996 fór Gunnbjörn ÍS 302 til Póllands í miklar breytingar sem m.a fólust í því að báturinn var lengdur um sex metra og breikkaður um tvo. Og þessar myndir sýna hann eftir þessar breytingar en hann átti eftir að fara aftur út og koma gjörbreyttur heim. Nánar um það síðar.

En eftir þessar breytingar mældist báturinn 116 brl. að stærð. Lengd hans 25,98 metrar og breiddin 7 metrar tæpir. Aðalvélin var 675 hestafla Cummins frá 1987.

Gunnbjörn ÍS 302 fékk síðar nafnið Valbjörn ÍS 307 en heitir Tindur ÁR 307 í dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hrímbakur EA 306

1472. Hrímbakur EA 306 ex Bjarni Herjólfsson ÁR 200. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hrímbakur EA 306 hét upphaflega Bjarni Herjólfsson ÁR 200 og var smíðaður í Póllandi árið 1977.

Í 8. tbl. Ægis sagði m.a um komu skipsins:

8. marz sl. kom skuttogarinn Bjarni Herjólfsson ÁR 200 til landsins í fyrsta sinn, en skuttogari þessi er í eigu fyrirtækisins Árborg h.f. Selfossi, en heimahöfn skipsins er Stokkseyri.

Bjarni Herjólfsson er systurskip Ólafs Jónssonar GK 404 og er annar skuttogarinn í raðsmíði þriggja skuttogara í Gdynia í Póllandi hjá Stocznia im Komuny Paryskiey (nýsmíði B 402/3).

Skipstjóri á Bjarna Herjólfssyni ÁR er Axel Schiöth og 1. vélstjóri er Sigurður Jónsson. Framkvæmda- stjóri útgerðarinnar er Sigurður Guðmundsson.

Togarinn var 488 brl. að stærð búinn 2200 hestafla Sulser aðalvél.

Útgerðarfélag Akureyringa hf. keypti togarann árið 1985 og nefndi hann Hrímbak EA 306. Snemma árs 1996 keypti Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði togarann og nefndi Hring SH 535.

Árið 2006 er hann kominn með nafnið Hólmberg SH 535 samkvæmt vef Fiskistofu og það sama ár var hann seldur úr landi. Nánar tiltekið til Namibíu en togarinn fór í brotajárn árið 2015.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Auðbjörg SH 197

1856. Auðbjörg SH 197. Ljósmynd Alfons Finnsson.

Auðbjörg SH 197 var smíðuð í Póllandi fyrir Enni h.f í Ólafsvík og kom til heimahafnar 31. desember 1987.

Í Morgunblaðinu þann 10. janúar 1988 mátti lesa eftirfarandi frétt frá fréttaritara blaðsins í Ólafsvík, Helga Kristjánssyni:

Nýr bátur kom til heimahafnar í Ólafsvík að kvöldi gamlársdags. Það er Auðbjörg SH 197 sem er 67 brúttólestir að stærð og er smíðaður úr stáli í Póllandi. 

Eigandi bátsins er Enni hf. Báturinn kemur í stað eldri báts með sama nafni og númeri sem var úreltur en mikið happaskip. Hin nýja Auðbjörg er með útbúnað fyrir dragnótaveiðar með tógum og fyrir veiðar á línu og net. Aflvél bátsins er Caterpillar, 620 hö. 

Öll nýjustu tæki eru í bátnum. Skipstjóri er Óttar Guðlaugsson og tjáði hann fréttaritara að báturinn hefði reynst mjög vel á leiðinni heim. 

Auðbjörg SH 197 var lengd árið 1994 og er báturinn 82 brl. að stærð eftir það. Þá hefur verið sett pera á bátinn.

Auðbjörg SH 197 var seld vorið 1999 yfir á Rif. Þar sem báturinn fékk nafnið Rifsari SH 70 sem hann ber enn, eigandi Sandbrú ehf. á Rifi.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution