Tindur ÍS 235

2017. Tindur ÍS 235 ex Helgi SH 135. Ljósmynd Guðmundur St. Valdimarsson 2020.

Tindur ÍS 235 lét úr höfn í Njarðvík í kvöld og tók Guðmundur St. Valdimarsson þessa mynd við það tækifæri.

Tindur ÍS 235 hét áður Helgi SH 135 en eins og kom fram á síðunni fyrir skömmu keypti Aurora Seafood ehf. bátinn frá Grundarfirði til Flateyrar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Súlan EA 300 á Skjálfanda

1060.Súlan EA 300. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hér er Súlan EA 300 á leið inn Skjálfandann um árið en hún lagði upp hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur. Var að mig minnir á fiskitrolli en sennilega á rækju yfir sumarið.

Súlan var 354 brl. að stærð, smíðuð í Fredrikstad í Noregi 1967 fyrir Leó Sigurðsson á Akureyri. Hún var lengd  í Hollandi 1974 og mældist þá 393 brl. og yfirbyggt 1975 og mældist þá 391 brl. 1983 er skráður eigandi Súlur h/f á Akureyri.

Súlan átti eftir að fara í frekari breytingar sem sagt verður frá síðar hér á síðunni.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sveinn Guðmundsson GK 315

709. Sveinn Guðmundsson GK 315 ex Árni Ólafur GK 315. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hér verið að landa úr Sveini Guðmundssyni GK 315 í Sandgerðishöfn en hans heimahöfn var Garðurinn.

Sveinn Guðmundsson GK 315 var 21 tonna eikarbátur, smíðaður í Danmörku árið 1933 og gerður út frá Sandgerði en skráður í Garðinum eins og áður segir.

Upphaflega hét hann, amk. á íslenskri skipaskrá, Óðinn VE 317 og var í eigu Kaupfélagsins Fram í Vestmannaeyjum.

Hann skipti um eigendur amk. sex sinnum áður en yfir lauk en eigendur hans meðan hann hét þessu nafni voru bræðurnir Ásmundur og Sveinn Björnssynir og Björn Guðjónsson, allir úr Garðinum.

Örlög Sveins Guðmundssonar GK 315 voru þau að báturinn fórst um 12 sjómílur norðvestur af Eldey þann 10. september árið 1992. Báturinn hafði verið við rækjuveiðar við Eldey og var á landleið þegar hann fórst.

Þriggja manna áhöfn hans fórst með bátnum og var Ásmundur, einn eigenda hans, einn þeirra.

Nöfnin sem báturinn bar á sini tíð voru: Óðinn VE 317, Ágúst Guðmundsson GK 95, Ólafur KE 49, Ólafur GK 33, Ólafur SH 160, Árni Ólafur GK 31 og Sveinn Guðmundsson GK 315.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution