Helga II RE 373

1018. Helga II RE 373. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1987.

Helga II RE 373 er hér á toginu á rækjunni árið 1987 en þegar þarna var komið í sögu hennar var stutt í þá nýju sem smíðuð var í Ulsteinvik í Noregi.

Hún kom ári síðar og tók skipasmíðastöðin, Ulstein Hatlö A/S, þessa upp í og seldi til Chile. Þar fékk hún nafnið Ana Cristina og er enn að sem brunnbátur. Þ.e.a.s seiðaflutningaskip.

Helga II RE 373 sem hér um ræðir var smíðuð árið 1967 fyrir Ingimund h/f í Harstad í Noregi.

Morgunblaðið sagði svo frá komu hennar 17. mars 1967:

NÝTT, 300 tonna fiskiskip kom til landsins sl. föstudag. Það er Helga II., eign hlutafélagsins Ingimundar hf., en það fyrirtæki á einnig Helgu I, 200 tonna skip smíðað 1956. Helga II er smíðuð í Harstad í Noregi og reyndist með ágætum á leiðinni til Íslands þó veður væri slæmt.

Ganghraði var 11,2 mílur. Helga II. er búin tveimur Simrad Astic tækjum, loran, Arkas sjálfstýringu og 64 mílna Decca radar. Þá er einnig um borð síldardæla, Rapp krani með 38 tommu hjóli til að draga inn nótina, færiblökk og snurpuspil sem dregur 19 tonn.

Helga átti að fara sína fyrstu veiðiferð í dag (föstudag) og ætlunin að fara á þorskanet. Skipstjóri er Ármann Friðriksson, stýrimaður Indriði Sigurðsson og fyrsti vélstjóri Jakob Daníelsson. Helgurnar eru báðar gerðar út frá Reykjavík.

Þannig var það, Helga II var lengd 1974 og yfirbyggð 1977 og eins og sjá má var brúnni lyft upp eins og eina hæð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Árbakur EA 308

2154. Árbakur EA 308 ex Natsek. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Árbakur EA 308 liggur hér utan á Kolbeinsey ÞH 10 við slippkantinn á Akureyri.

Myndin er tekin um jólahátíð, og er mér næst að halda að Árbakur hafi þarna verið nýkominn í flotann. Hann var keyptur til landsins árið 1991 og kom til Akureyrar 18. desember það ár.

Þann dag sagði Morgunblaðið svo frá:

ÁRBAKUR EA-308, hinn nýi togari Útgerðarfélags Akureyringa, kemur til heimahafnar um hádegi í dag, miðvikudag. Ferð skipsins frá Hirtshals á Norður-Jótlandi hefur sóst vel, en hann var um fjóra sólarhringa á leiðinni.

Gunnar Ragnars, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa, sagði að Árbakur færi beint í slipp hjá Slippstöðinni á Akureyri þar sem setja á m.a. upp aðgerðar- og þvottaaðstöðu á vinnsludekk. Reiknað er með að skipið verði allt að tvo mánuði í slipp.

Útgerðarfélagið mun halda gamla Sólbak EA-305 úti á veiðum þann tíma, en fyrirhugað var að leggja honum um áramót. Haffærniskírteini hans rennur þá út, en félagið hefur sótt um framlengingu á því þann tíma sem Árbakur verður í slipp.

„Það er okkur mjög mikilvægt að hafa fimm ísfisktogara á veiðum til að sjá vinnslunni í landi fyrir nægu hráefni, þannig að við sóttum um framlengingu fyrir Sólbak,“ sagði Gunnar.

Árbakur EA-308 er væntanlegur til Akureyrar um hádegi í dag og sagði Gunnar að vissulega yrði tekið hlýlega á móti honum.

Árbakur, sem áður hét Natsek, var smíðaður fyrir Grænlendinga árið 1980 hjá Örskov Christensens Staalskibsvært A/S, Frederikshavn í Danmörku, og var smíðanúmer 112 hjá stöðinni. Skipið var hannað af Nordvestconsult A/S og smíðað sem rækjutogari með frystibúnaði. Það var lengt um 12.1 metra árið 1984.

Árbakur átti síðar eftir að ganga í gegnum breytingar sem sagt verður frá síðar en hann var seldur til Frakklands árið 2013. Hann heitir Halten Bank II í dag og er heimahöfn hans Boulogne Sur Mer.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Bjarnarvík ÁR 13

482. Bjarnarvík ÁR 13 ex Bakkavík ÁR 100. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1982.

Bjarnarvík ÁR 13 kemur hér til hafnar í Þorlákshöfn á vetrarvertíðinni 1982 en myndina tók Hreiðar Olgeirsson skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44 frá Húsavík.

Bjarnarvík var þegar þarna var komið í eigu Suðurvarar hf. í Þorlákshöfn. Upphaflega hét báturinn Guðmundur Þórðarson GK 75 frá Gerðum í Garði og var smíðaður í Hafnarfirði árið 1943.

Nánar má lesa um bátinn hér en hans síðasta nafn var Daníel SI 152 og er hann eflaust mest myndaði bátur landsins þar sem hann stendur og grotnar niður í slippnum á Siglufirði.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution