
Árni Þorkelsson KE 46 landar hér síld á Siglufirði en myndina tók Hannes Baldvinsson.
Árni Þorkelsson var smíðaður í Þýskalandi árið 1961 og kom til landsins um páskana árið 1961 en sagt var frá komu hans í Faxa:
Árni Þorkelsson er 101 smál. stálskip, smíðað í Þýzkalandi eftir teikningu Hjálmars Bárðarsonar. Skipið er búið öllum nýjustu og fullkomnustu siglingar og fiskileitartækjum. Í því er tvöfalt rafkerfi og einnig eldvarnarkerfi um allt skipið. Íbúð áhafnar er hin vandaðasta, klædd innan með eik og plast og rafhituð.
Aðalvél skipsins er 400 hestafla Mannheim-díselvél. Lestin er sérstaklega útbúin með tilliti til flutnings á ísvörðum fiski. Skipið er með kraftblökk til síldveiða og á allan hátt með fullkominn útbúnað til hverskonar veiða hér við land.
Reynsluganghraði var 11 1/2 míla. Á heimleið hreppti skipið vont og óhagstætt veður en reyndist mjög vel og var meðalganghraði þess á heimleið 10 mílur.
Eigendur skipsins eru þeir bræður Ketill og Helgi Eyjólfssynir, Eyjólfur Árnason og Ingvar Guðmundsson. Eyjólfur, sem er þaulreyndur sjósóknari og aflamaður fer með skipstjórn á Árna Þorkelssyni, en þetta nýja og glæsilega skip ber nafn föður hans, sem á sínum tíma var einn af fengsælustu og dugmestu sjómönnum Suðurnesja.
Báturinn átti eftir að heita þessum nöfnum: Andvari KE, Blátindur VE, Snætindur ÁR, Gulltoppur ÁR, Litlaberg ÁR, Búddi KE og loks Happasæll KE.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can wiew them in higher resolution