Arney KE 50 á siglingu

1416. Arney KE 50 ex Ásborg EA 259. Ljósmynd Pétur Helgi Pétursson.

Arney KE 50 sem hér sést á siglingu hét upphaflega Skarðsvík SH 205 og var í eigu samnefnds fyrirtæki á Hellisandi.

Skarðsvík SH 205 var smíðuð árið 1975 hjá Baatservice Verft A/S í Mandal í Noregi, hún hafði smíðanúmer 620. Hún var fjórða og jafnframt síðasta stálfiskiskipið í raðsmíði stöðvarinnar fyrir íslenska aðila. Þrjú þau fyrri voru Gullberg VE 292, Huginn VE 55 og Árni Sigurður AK 370. Skarðsvík var yfirbyggð árið 1977.

Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan á Akranesi festi kaup á Skarðsvík SH 205 vorið 1990 og varð hún við það AK 205. Í nóvember sama ár keypti Borg h/f í Hrísey skipið og nefndi Ásborgu EA 259.

Það var svo í desembermánuði 1992 sem Arney ehf. í Keflavík keypti skipið sem í ársbyrjun 1993 fékk nafnið sem það ber á myndinni, Arney KE 50.

Arney KE 50 var gerð út frá Sandgerði fram yfir aldamót en Skinney-Þinganes hf. keypti útgerðina vorið 2001 Við það fékk Arney nafnið Steinunn SF 10 sem hún bar til ársins 2009 en það sumar var hún seld til Vestmannareyja. Það var Kópavík ehf. sem keypti Steinunni, sem þá var orðin SF 107, og nefndi Hafursey VE 122.

Árið 2011 keypti Vísir hf. skipið og stóð það uppi í Skipasmíðastöð Njarðvíkur um árabil undir nafninu Sævík GK 257. Sumarið 2018 kom skipið heim eftir gagngerar breytingar í Póllandi og undir nýju nafni, Sighvatur GK 57, og leysti gamla nafna sinn af hólmi.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Bliki EA 12 á toginu

2286. Bliki EA 12 ex Nataarnaq. Ljósmynd Olgeir Sigurðsson.

Rækjutogarinn Bliki EA 12 frá Dalvík var keypur frá Grænlandi árið 1997 af samnefndu fyrirtæki á Dalvík.

Bliki EA 12 var og er systurskip Júlíusar Havsteen ÞH 1 sem í dag heitir Sóley Sigurjóns GK 200. Togararnir voru smíðaðir fyrir Grænlendinga í Hvide Sand í Danmörku árið 1987. Þeir voru 42.10 metrar að lengd og 10.40 metrar á breidd.

Bliki EA 12 var seldur aftur til Grænlands árið 2001 eftir sameiningar nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja. Hann heitir Polar Nataarnaq GR-10-86.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Magnús SH 11 í Ólafsvíkurhöfn

939. Magnús SH 11 ex Halldóra Jónsdóttir ÍS 99. Ljósmynd Þórður Birgisson.

Hér liggur Magnús SH 11 í Ólafsvíkurhöfn á milli Egils SH 195 og Jökuls SH 15.

Magnús SH 11 hét upphaflega Öðlingur VE 202 og  var smíðaður í Danmörku 1957. Hann var 52 brl. að stærð, með 265 hestafla Alpha aðalvél. Eigendur hans voru Þorsteinn Sigurðsson, Gísli Þorsteinsson og Ágúst Matthíasson Vestmannaeyjum. 

Í ársbyrjun 1965 er Fiskiðjan hf. í Vestmannaeyjum skráður eigandi bátsins. 1975 er hann endurmældur, mælist þá 51 brl. að stærð. 1973 hafði verið skipt um aðalvél, í stað Alpha kom MWM 420 hestafla. Árið 1975 kaupa Willum P. Andersen og Sveinn Halldórsson Vestmannaeyjum bátinn.

Báturinn var seldur til Bolungarvíkur vorið 1979. Báturinn hét áfram Öðlingur en varð ÍS 99. Kaupendur voru Jakob Ragnarsson, Sveinbjörn Ragnarsson og Arnar S. Ragnarsson. Vorið 1980 fær báturinn nafnið Halldóra Jónsdóttir og er áfram ÍS 99. Heimild Íslensk skip.

Þessu nafni hélt báturinn þangað til að Magnús s/f keypti hann til Ólafsvíkur þar sem báturinn fékk það nafn sem hann ber á myndinni. Fargað og afskráður 1990.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution