Jóhanna Magnúsdóttir RE 70

708. Jóhanna Magnúsdóttir RE 70 ex Gustur SH 143. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Jóhanna Magnúsdóttir RE 70 kemur hér til hafnar í Reykjavík um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

Upphaflega hét báturinn Pétur Sigurðsson RE 331 og var smíðaður í Landssmiðjunni í Reyjavík árið 1956. Hann var smíðaður fyrir Sigurð Pétursson í Djúpuvík á Ströndum.

Báturinn, sem var 35 brl. að stærð búinn 240 hestafla GM vél, var seldur í desember 1957 Höfðakletti h/f á Höfðakaupstað og fékk nafnið Skallarif HU 15. Árið 1960 kaupir Þórður Jóhannesson í Keflavík bátinn og nefnir Ólaf KE 49.

Sumarið 1973 kaupir Soffanías Cesilsson í Grundarfirði Ólaf og nefnir Gust SH 24. Sama ár var sett í bátinn 350 hestafla Caterpillarvél. Haustið 1975 kaupir fyrrnefndur Þórður bátinn aftur til Keflavíkur og fær hann sitt fyrra nafn, Ólafur KE 49.

Sumarið 1983 kaupir Soffanías bátinn aftur og nú í félagi við Valdimar Elíasson og Rúnar Magnússon. Báturinn fær aftur nafnið Gustur og nú SH 143. Vorið 1984 kaupir Gísli Guðmundsson í Reykjavík bátinn og gefur honum það nafn sem hann ber á myndinni, Jóhanna Magnúsdóttir RE 70. Heimild. Íslensk skip.

Jökull hf. á Raufarhöfn keypti Jóhönnu Magnúsdóttur RE 70 árið 1989 og gerði m.a út til innfjarðarrækjuveiða á Öxarfirði í nokkur ár. Báturinn var tekinn af skipaskrá í desember 1992 og hét þá Öxarnúpur ÞH 166.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þeir sem áhuga hafa á dagatali Skipamynda 2020 geta pantað sér eintak á korri@internet.is – Verðið er 3300 kr. 

Þórsnes II SH 109

1424. Þórsnes II SH 109. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Þórsnes II SH 109, sem hér að ofan sést draga netin á Breiðafirði, var smíðað fyrir samnefnt fyrirtæki í Stykkishólmi árið 1975.

Þórsnes II SH 109 var eitt þeirra raðsmíðaskipa sem Slippstöðin á Akureyri smíðaði og voru af­hent eigendum sínum á árunum 1971 til 1975. Stærð þessara skipa, var 105 – 150 brl. og var Þórsnesið, sem var fjórtánda og síðasta skipið, 143 brl. að stærð.

Dagur á Akureyri sagði svo frá 22. maí 1975:

Hinn 15. maí afhenti Slippstöðin á Akureyri fjórtánda raðsmíðaða, 150 tonna fiskibátinn til Þórsness h.f. í Stykkishólmi. Báturinn hlaut nafnið Þórsnes II SH 109, og er útbúinn til línu-, neta-, nóta- og togveiða.

Aðalvélin er Mannheim 765 hestöfl. Tvær hjálparvélar eru af gerðinni Volvo. Í skipinu eru öll hin vönduðustu fiskileitartæki og má þar meðal annars nefna höfuðlínumæli, og siglingartæki af vönduðustu gerð. Báturinn gekk 12,5 sjómílur í reynsluferð.

Skipstjóri á Þórsnesinu er Kristinn Ó Jónsson og Baldur Agnarsson er fyrsti vélstjóri.

Við afhendingu þessa 150 lesta stálfiskibáts, sem nú er kominn til heimahafnar, þar sem tekið var á móti honum með viðhöfn, er nú lokið raðsmíði báta af þessari gerð hjá Slippstöðinni h.f. á Akureyri að sinni.

Þórsnes II SH 109 var yfirbyggt árið 1988 í Njarðvík og um leið sett ný brú á það. Meira um Þórsnesið síðar…

1424. Þórsnes II SH 109. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þeir sem áhuga hafa á dagatali Skipamynda 2020 geta pantað sér eintak á korri@internet.is – Verðið er 3300 kr. 

Gulltoppur ÁR 321

874. Gulltoppur ÁR 321 ex Gulltoppur GK 321. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Gulltoppur ÁR 321 kemur hér að landi í Þorlákshöfn á vetrarvertíðinni árið 1982.

Nói Kristjánsson bátasmiður á Akureyri smíðaði bátinn árið 1962 fyrir Guðmund Bjarnason og Freystein Þórarinsson í Neskaupsstað. Hann var 10 brl. að stærð búinn 61 hestafla Bolindervél.

Árið 1969 er báturinn seldur til Húsavíkur þar sem hann fær nafnið Grímur ÞH 25. kaupendur voru Þormóður Kristjánsson og feðgarnir Ásgeir Kristjánsson og Kristján Ásgeirsson.

Árið 1973 var sett ný vél niður í bátinn, 125 hestaafla Caterpillar kom í stað Bolindervélarinnar sem fyrir var.

Undir árslok 1976 var Grímur ÞH 25 seldur suður á Vatnsleysusströnd þar sem hann fékk nafnið Gulltoppur Gk 321. Kaupandi Sæmundur Á. Þórðarson. Erlingur Ævarr Jónsson í Þorlákshöfn kaupir Gulltopp í desember árið 1979 og hann verður ÁR 321.

Sumarið 1984 kaupir Sveinn S. Steinarsson í Þorlákshöfn bátinn sem heldur nafni og númeri. Síðsumars 1986 er Gulltoppur seldur Suðurvör hf. sem selur hann skömmu síðar Selnesi hf. á Breiðdalsvík. Báturinn fékk nafnið Kambavík SU 24.

Á vefnum aba.is segir að báturinn hafi frá 1989 heitið Kambavík SU 158, Breiðdalsvík og einnig á árinu 1989 Kambavík HF 4, Hafnarfirði. Frá árinu 1990 hét báturinn Kambavík HF 344 og bar hann það nafn þegar honum var fargað og hann tekinn af skipaskrá 12. sept. 1990.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þeir sem áhuga hafa á dagatali Skipamynda 2020 geta pantað sér eintak á korri@internet.is – Verðið er 3300 kr. 

Berglín GK 300 á toginu

1905. Berglín GK 300 ex Jöfur ÍS 172. Ljósmynd Þór Jónsson 2018.

Þór Jónsson skipverji á Ljósafelli SU 70 tók þessar myndir sem nú birtast og sýna skuttogarann Berglín GK 300 að veiðum.

Berglín GK 300, sem er í eigu Nesfisks hf. í Garði, var smíðuð í skipasmíðastöðinni Stálvík í Garðabæ og hét upphaflega Jöfur KE 17.

Njáll ehf. (sömu eigendur og að Neskfiski) keypti Jöfur íS 172 árið 1998 og svo sagði frá í Morgunblaðinu 5. ágúst það ár:

Njáll ehf. í Garði er byrjaður að gera út togskipið Berglín GK 300 sem keypt var af Þormóði ramma-Sæbergi á Siglufirði, en skipið hét áður Jöfur ÍS 172. Skipið var smíðað í Garðabæ árið 1988 og er um 300 tonn, en það er eitt af raðsmíðaskipunum svokölluðu.

Að sögn Bergþórs. Baldvinssonar, framkvæmdastjóra Njáls ehf., fylgdi skipinu 400 tonna kvóti og var kaupverð skipsins 350 milljónir króna. Kvótinn sem keyptur var með skipinu er 200 tonn í þorski, 100 tonn í karfa og 100 tonn í ufsa. Bergþór sagði að nokkrar breytingar og lagfæringar hefðu verið gerðar á skipinu frá því það var keypt í maí síðastliðnum og færi það á veiðar með fiskitroll.

Skipið var upphaflega í eigu Stálvíkur hf. og gerði Jarl hf. í Keflavík það þá út. Í apríl 1989 keypti Muggur hf. á Hvammstanga skipið, en það var selt til Leitis hf. á Ísafirði í ársbyrjun 1993. Þormóður rammi- Sæberg eignaðist skipið þegar Leiti hf. sameinaðist fyrirtækinu 1996.

Eigendur Njáls ehf. eiga einnig Nesfisk ehf. í Garði sem rekur frystihús og saltfiskverkun. Frystihúsið var byggt 1987 eftir að eldra frystihús fyrirtækisins brann. Njáll ehf. gerir nú út átta skip og er samanlagður kvótí þeirra um 5.000 þorskígildistonn.

Auk Berglínar GK, sem er stærst skipanna, er um að ræða Sigga Bjarna GK 104, Berg Vigfús GK 53, Benna Sæm GK 26, Baldur GK 97, Unu í Garði GK 100, Sóleyju Sigurjóns GK 200 og Sigurfara GK138.

Árið 2000 er Nesfiskur hf. skráður eigandi Berglínar GK 300.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þeir sem áhuga hafa á dagatali Skipamynda 2020 geta pantað sér eintak á korri@internet.is – Verðið er 3300 kr.