Gissur Hvíti HU 35

964. Gissur Hvíti HU 35 ex Gissur Hvíti SF 55. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2000.

Rækjubáturinn Gissur Hvíti HU 35 lætur hér úr höfn á Húsavík á fallegu sumarkveldi árið 2000. Hann var í eigu rækjuvinnslunnar Særúnar á Blönduósi.

Upphaflega hét báturinn Bára SU 526 frá Fáskrúðsfirði og var í eigu Árna Stefánssonar. Síðar var hann seldur 1972 Garðari Magnússyni í Ytri-Njarðvík og varð báturinn, sem smíðaður er Þrándheimi í Noregi 1964, þá Bára GK 24.

Silfurnes hf. á Hornafirði keypti bátinn 1978 og fékk hann nafnið Gissur Hvíti SF 55. Það var svo í nóvember 1985 sem Særún hf. á Blönduósi keypti bátinn sem varð Gissur Hvíti HU 35 og var gerður út til rækjuveiða.

Gissur Hvíti HU 35 var seldur til Vestmannaeyja eftir aldamótin síðustu, árið 2002 nánar tiltekið. Bergur-Huginn keypti hann en seldi svo Narfa hf. bátinn sem fékk þá nafnið Narfi VE 108.

Upphaflega var í bátnum 450 hestafla Stork aðalvél enn 1983 var sett ný vél í hann, 800 hestafla Callesen. Báturinn mældist upphaflega 216 brl. að stærð en var 1973 og mældist þá 165 brl. að stærð. Hann var yfirbyggður á Akureyri 1989 og þó nokkrum árum síðar var skipt um brú.

Það var síðan árið 2008 sem Oddur Sæmundsson í Keflavík keypti bátinn og nefndi Stafnes KE 130.

Stafnes KE 130 hefur verið afskráð af skipaskrá.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Björgúlfur EA 312 á veiðislóðinni

2892. Björgúlfur EA 312. Ljósmynd Guðmundur Rafn Guðmundsson 2019.

Gundi tók þessar myndir af Samherjatogaranum Björgúlfi EA 312 á veiðislóðinni sl. mánudag en hann var um borð í systurskipinu Björgu EA 7.

Þessi Björgúlfur EA 312 er þriðja skipið sem ber þetta nafn og EA 312 en sá fyrsti kom 1960 og var einn a-þýsku tappatogaranna. Smíðaður 1959. Hét síðar Járngerður GK 477 og hún sökk þar sem hún var við loðnuveiðar undan Breiðamerkursandi í febrúarmánuði 1975. Áhöfnin komst í gúmmíbjörgunarbáta og var bjargað þaðan af áhöfn Þorsteins RE 303 sem kom þeim til lands. 

Sá næsti kom 1977, smíðaður á Akureyri, skrokkurinn kom frá Flekkefjørd, heitir Hjalteyrin EA 306 í dag. Og þessi sem hér birtist kom í maí 2017.

2892. Björgúlfur EA 312. Ljósmynd Guðmundur Rafn Guðmundsson 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Breki VE 61 fiskaði 1200 tonn í mars

2861. Breki VE 61. Ljósmynd Jói Myndó 2019.

Togarinn Breki VE fiskaði 1.200 tonn í nýliðnum marsmánuði og á heimasíðu VSV segir að þetta sé metafli skipsins í einum mánuði og umfram björtustu vonir og væntingar.

2861. Breki VE 61. Ljósmynd Jói Myndó 2019.

„Skemmst er frá að segja að gangurinn á Breka er alveg frábærlega góður,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfisksviðs Vinnslustöðvarinnar.

„Skipið hefur reynst afar vel. Því er haldið stöðugt til veiða og það litla sem upp á hefur komið tæknilega leystu vélstjórarnir sjálfir í samstarfi við okkar fólk í landi. Alltaf má reikna með einhverjum töfum eða vandamálum á fyrstu misserum útgerðar nýrra skipa en hér er því ekki til að dreifa. Svo hefur auðvitað sitt að segja að á Breka er úrvals mannskapur.

Aflinn í mars var blandaður: ýsa, karfi, ufsi og þorskur. Fínn fiskur en fyrst og fremst afbragðsgóð aflasamsetning.“ Segir Sverrir sem fór með fór að sjálfsögðu um borð í Breka með dýrindis súkkulaðiköku og fleira gott með kaffinu fyrir áhöfnina. Myndir frá því má sjá hér.

2861. Breki ve 61. Ljósmynd Jói Myndó 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Glaður SU 97

1910. Glaður SU 97 ex Gestur SU 160. Ljósmynd Þór Jónsson.

Glaður SU 97 kemur hér til hafnar á Djúpavogi sem hefur verið hans heimahöfn síðan 1988 þegar báturinn var afhentur frá Baldri Halldórssyni skipasmið á Híðarenda við Akureyri.

Upphaflega hét báturinn Gestur SU 160 og var í eigu Jóns og Emils Karlssona á Djúpavogi.

1991 eignast Sigurður Jónsson á Djúpavogi bátinn og hefur átt hann síðan.

Á vef Árna Börns Árnasonar, aba.is, segir að Gestur hafi verið 100 báturinn sem Baldur afhenti. Skrokkar plastbátanna frá Hlíðarenda voru fluttir inn erlendis frá.

Glaður SU 97 er 8 brl. að stærð, búinn 120 hestafla Sabrevél frá 1988.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution