Drónamyndir af Indriða Kristins BA 751

2947. Indriði Kristins BA 751 á leið inn til Grindavíkur í dag. Ljósmynd Jón Steinar.

Þrátt fyrir að vera búinn að birta myndir af Indriða Kristins BA 751 í tvígang á stuttum tíma er ekki hægt annað en að birta þessar sem Jón Steinar tók á drónann í dag.

2947. Indriði Kristins BA 751. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Aflinn hjá köllunum á Indriða Kristins var 8 tonn þrátt fyrir að það hafi allt gengið á afturlöppunum hjá þeim þennan daginn. Það var víst mikið um slit og einnig töpuðu þeir einhverju af línu segir ljósmyndarinn.

2947. Indriði Kristins BA 751. Ljósmynd Jón Stenar 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sunnutindur SU 95

2670. Sunnutindur SU 95 ex Þórkatla GK 9. Ljósmynd Þór Jónsson.

Sunnutindur er nafn sem lengi var í flota Djúpavogsbúa og einatt á fleytum í eigu Búlandstinds. Sá síðasti áður en kom að þessum sem hér birtist var að vísu í eigu Vísis hf. í Grindavík.

Búlandstindur ehf. keypti Þórkötlu GK 9 af Stakkavík ehf. vorið 2015 og nefndi Sunnutind SU 95. Báturinn, er gerður út á línu frá Djúpavogi, er af gerðinni Gáski 1280 frá Mótun. Smíðaður í Njarðvík árið 2005.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

55 ára Hamar SH 224

253. Hamar SH 224 ex Jökull ÞH 299. Ljósmynd Jón Steinar Sæmundsson 2019.

Línuskipið Hamar SH 224 hafði stutta viðdvöl í Grindavík í gær og náði Jón Steinar þessum myndum af honum koma inn.

Hamar SH 224 hét upphaflega Jörundur II RE 299, smíðaður í Englandi 1964. 1969 var hann keyptur til Raufarhafnar þar sem hann fékk nafnið Jökull ÞH 299.

Þegar félagarnir létu smíða Rauðanúp fyrir sig í Japan árið 1973 var Jökull seldur á Rif. Þar fékk nafnið Hamar SH 224 sem hann ber enn þann dag í dag.

253. Jörundur II RE 299. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Í Morgunblaðinu 23. mars 1964 sagði m.a svo frá komu Jörundar II til landsins:

Sl. laugardag kom til Reykjavíkur nýr togbátur, Jörundur II, eign Guðmundar Jörundssonar útgerðarmanns,og von er á systurskipi hans, Jörundi III innan mánaðar.

Togbátarnir eru báðir byggðir í Selby í Englandi hjá Cochrane & Sons Ltd., en þar hafa fjölmargir íslenzkir togarar verið byggðir. Jörundur II er 267 lestir að stærð með 800 ha vél. Skipið á að geta fiskað á fernan hátt,verið við síldveiðar, á togveiðum, þorskanetjaveiðum og línuveiðum. 

Vegna togveiðanna er innsett stærri skrúfa og komið fyrir um borð öllum togútbúnaði. Í skipinu eru einangraðar aluminiumlestar með kælibúnaði. Þetta er fyrsta skipið sem búið er þannig að það geti haft tvær herpinætur á bátapalli samtímis.

Sérstök áherzla var lögð á að skipið hefði mikla kjölfestu og eru m. a. ballestageymar undir lest og í báðum endum þess. 

Skipstjóri er Runólfur Hallfreðsson frá Akranesi og kom hann með skipið heim. Jörundur II er farinn á veiðar með þorskanót.

Jörundur III, systkurskip Jörundar, er í byggingu í Englandi og verður tilbúið innan mánaðar.

253. Hamar SH 224 ex Jökull ÞH 299. Ljósmynd Olgeir Sigurðsson.

Skipið hefur aðeins borið þessi þrjú nöfn á þeim 55 árum sem eru síðan hann kom inn í flotann. Það var yfirbyggt 1979 og skutlengt um sem nam einum metra árið 2000. Það er skráð 244 brl./344 BT að stærð og er búið 1000 hestafla Listeraðalvél síðan 1976.

253. Hamar SH 224 ex Jökull ÞH 299. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Hamar SH 224 er í eigu Kristins J. Friðþjófssonar á Rifi. Skipið fór í miklar endurbætur í Póllandi árið 2017 þar sem það var sandblásið alveg frá kili og upp í mastur. Skipt var um lestargólf, öll lestin tekin í gegn og einangruð og sett var í hann nýtt stýri. Þá voru öll togspil tekinn úr skipinu og það betrumbætt til línuveiða auk annars. Var verkið unnið af skipasmíðastöðinni Alkor í Gdansk.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution