Sóley Sigurjóns nýkominn úr slipp

2262. Sóley Sigurjóns GK 200 ex Sólbakur RE 207. Ljósmynd Elvar Jósefsson 2019.

Sóley Sigurjóns GK 200 hefur verið í skveringu í Reykjavík að undanförnu en kom til Njarðvíkur sl. miðvikudag þar sem verið er að útbúa hana til veiða.

Togarinn hét upphaflega Júlíus Havsteen ÞH 1 á íslenskri skipaskrá en er í dag í eigu Nesfisks ehf. í Garðinum. Han var fyrstu árin hér gerður út á rækju og fryst um borð en lengst af hefur hann verið ísfisktogari.

2262. Sóley Sigurjóns GK 200 ex Sólbakur RE 207. Ljósmynd Elvar Jósefsson 2019.

Sóley Sigurjóns GK 200 var smíðuð árið 1987 af J.K Skibsbyggeri APS í Danmörku fyrir Grænlendinga og hét Quaasiut II.

Aðalvélin er frá Wartsila og er 847 hestöfl / 632 kW. Mesta lengd skipsins er 41,98 metrar en skráð lengd er 38,36 metrar og breiddin 10,40 metrar. Brúttótonnatalan er 737,09 tonn.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution


Stafnes KE 130

235. Stafnes KE 130 ex Ásþór RE 395. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Stafnes KE 130 var einn þeirra báta sem stunduðu síldveiðar inn á fjörðum austanlands á níunda áratugnum og hér lónar báturinn inn á einhverjum firðinum.

Þessi bátur bar bara tvö nöfn á þeim árum sem hann var í Íslenska fiskiskipaflotanum. Hann var smíðaður í Flekkefjörd fyrir Ísbjörninn hf. í Reykjavík og kom til landsins í byrjun árs 1964,

Þá sagði svo frá í Morgunblaðinu:

Nýr stálbátur, Ásþór RE-395 bættist í fiskiskipaflotann í Reykjavík sl. sunnudag. Ásþór er eign Ísbjarnarins h.f. smíðaður í Noregi og er 193 lestir að stærð.

Skipið er útbúið fullkomnustu tækjum og þykir mjög vandað að allri gerð og smíði. Í reynsluferð gekk Ásþór 10 sjómílu á klst., skipstjóri er Þorvaldur S. Árnason.

Skipið fer á veiðar með þorskanetum innan tíðar. Ísbjörninn h.f. hefur verið meðal framleiðsluhæstu frystihúsum landsins um langt árabil. Fyrirtækið sjálft á nú 6 báta, en alls munu 14 bátar leggja upp hjá því nú á vertíðinni.

1981 kaupa Oddur Sæmundsson og Hilmar Magnússon í Keflavík Ásþór RE 395 og gefa honum nafnið Stafnes KE 130. Það nafn bar hann til haustsins 1988 þegar nýtt og glæsilegt Stafnes KE 130 leysti hann af hólmi.

Í Noregi fékk hann nafnið Thorsland en báturinn hefur verið rifinn.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Sæljón EA 55

839. Sæljón EA 55 ex Sæljón SH 103. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson

Hér er Sæljón EA 55 að láta úr höfn á Húsavík eftir að hafa verið þar um tíma meðan skipt var um brú á bátnum. Sennilega 1985.

Sæljón RE 317 var smíðað fyrir Gunnar Guðmundsson skipstjóra og útgerðarmann í Esbjerg í Danmörku árið 1955 og hét Sæljón alla tíð. Það varð síðar GK 103, SU 103 og SH 103 áður en það varð EA 55 árið 1979.

Sæljónið sökk 5 október 1988 um 25 sjómílum norður af Siglunesi. Þriggja manna áhöfn bjargaðist um borð í Bjarma EA frá Dalvík. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Þór HF 4

2549. Þór HF 4 ex Karelia. Ljósmynd Þór Jónsson.

Frystitogarinn Þór HF 4 á toginu en myndina tók nafni hans Jónsson á Djúpavogi.

Stálskip hf. í Hafnarfirði keypti rússneska frystitogaranum Karelia af dótturfélagi Royal Greenland árið 2002.

Skipið var byggt í Ørskov Christensens Staalskibsværft A/S í Danmörku árið 1998 og er 1.000 brúttólestir eða 1.500 brúttótonn, 58 metra langt og 13,5 metra breitt. Skipið er systurskip Sléttbaks EA sem Útgerðarfélag Akureyringa hf. átti um tíma.

Þór HF 4 var seldur úr landi 2014.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution