Ólafur Friðbertsson ÍS 34

256. Ólafur Friðbertsson ÍS 34. Ljósmynd Sigurður Jóhannesson.

Ólafur Friðbertsson ÍS 34 siglir hér inn Súgandafjörðinn til hafnar á Suðureyri.

Ólafur Friðbertsson ÍS 34 var smíðaður Flekkefjord í Noregi 1964 fyrir Súgfirðinga og sagði svo frá komu hans í Vesturlandi 28. apríl 1964:

Á sumardaginn fyrsta kom nýr vélbátur til Súgandafjarðar, Ólafur Friðbertsson ÍS 34. Þetta er 193 lesta stálbátur, smíðaður í Flekkefjord í Noregi, og er þetta sjötti báturinn, sem skipsmíðastöðin smíðar fyrir Íslendinga.

Báturinn er með 495 ha. Lister-vél og ljósavél af sömu gerð. Ganghraði í reynsluför var 10,5 sjm. Báturinn er búinn fullkomnustu siglinga- og fiskileitartækjum.

Eigandi bátsins er Von hf. á Suðureyri, en að því standa Ólafur Friðbertsson skipsstjóri á Suðureyri og synir hans. Skipstjóri á bátnum er Filip Höskuldsson, 1. stýrimaður Einar Ólafsson og 1. vélstjóri Jón H. Jónsson.

Báturinn var 4 1/2 sólarhring frá Flekkefjord með viðkomu í Færeyjum, og tafðist hann á heimleiðinni vegna veðurs. Reyndist báturinn ágætt sjóskip.

Ólafur Friðbertsson kom til Ísafjarðar á föstudag og fór mikill mannfjöldi um borð að skoða þetta nýja og glæsilega fiskiskip.

Svo mörg voru þau orð en Ólafur Friðbertsson ÍS 34 var gerður út frá Súgandafirði til ársins 1982 er hann var seldur til Keflavíkur.

Þar fékk hann nafnið Albert Ólafsson KE 39 en í frétt Víkurfrétta 26. ágúst 1982 um breytingar á bátaflota Suðurnesjamanna sagi m.a:

„Þá hafa þeir feðgar Óskar Ingibersson og Karl Óskarsson fengið nýjan Albert Ólafsson KE 39, 180 tonna yfirbyggt fiskiskip, sem áður hét Ólafur Friðbertsson frá Suðureyri.

Skip þetta var yfirbyggt af Vélsmiðjunni Herði hf. við bryggju í Sandgerði fyrir nokkrum árum. Eldri Albert Ólafsson hefur verið seldur til Vestmannaeyja þar sem hann ber nú nafnið Skúli fógeti. Hann er 47 tonna eikarbátur“.

Albert Ólafsson KE 39 fór í miklar breytingar árið 1992 þar sem hann var m.a lengdur um fimm metra, ný brú, skorsteinshús, frammastur og bakki. Þá var sett í hann veltitankur sem var nýung á þeim tíma.

Albert Ólafsson fékk síðar nafnið Kristrún RE 177 og að lokum Kristrún II RE 477 og var í eigu Fiskkaupa í Reykjavík.

Báturinn fór í pottinn árið 2014.

256. Ólafur Friðbertsson ÍS 34. Ljósmynd Sigurður Jóhannesson 1972.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Mark ROS 777 fyrir utan Grindavík í gær

Mark ROS 777. Ljósmynd Elvar Jósefsson 2019.

Þýski togarinn Mark kom upp undir Grindavík í gær, hverra erinda veit ég ekki en Elvar Jósefsson tók þessar myndir.

Skipið var smíðað í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og afhent eigandanum, Parlevliet & Van der Plas group í júní 2015. Heimahöfn þess er í Rostock

Mark ROS 777. Ljósmynd Elvar Jósefsson 2019.

Togarinn er 84 metra langur og 16 metra breiður. íbúðir eru fyrir 34 manna áhöfn auk tveggja sjúkraklefa. Aðalvél er 4.000 kW og er hún af gerðinni MAK. 

Mark ROS 777. Ljósmynd Elvar Jósefsson 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution


Heiðrún ÍS 4 við síldarlöndun á Siglufirði

87. Heiðrún ÍS 4 ex Hafborg MB 76. Ljósmynd Hannes Baldvinsson Siglufirði.

Heiðrún ÍS 4 er hér á mynd Hannesar Baldvinssonar að landa síld á Siglufirði.

Báturinn hét upphaflega Hafborg MB 76, hann var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA og sjósettur 6. maí árið 1944.

Hafborg MB 76 var skráð 92 brl. að stærð búið 240 hestafla Lister aðalvél. Eigandi hennar var Hf. Grímur í Borgarnesi frá 30. maí 1944. Hafborg var endurmæld 1947 og mældist þá 101 brl. að stærð. Hún var seld í desember 1952 Rún hf. í Bolungarvík sem gaf henni nafnið Heiðrún ÍS 4. 

1956 var Listernum skipt út fyrir nýja 360 hestafla vél sömu gerðar.  Í júní 1968 fær báturinn nafnið vestri BA 3 þegar það er selt Jóni Magnússyni á Patreksfirði og Hjalta Gíslasyni í Reykjavík. Þeir selja síðan bátinn snemma árs 1972 og eru kaupendurnir þeir Árni Sigurðsson og Reynir Ölversson í Keflavík. Þeir nefndu bátinn, sem talinn var ónýtur og tekinn af skrá 18. desember 1973, Sólfell GK 62.
                                                           Heimild Íslensk skip.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution