Grindvíkingur GK 606

2600. Grindvíkingur GK 606 ex Hardhaus II. Ljósmynd Sigmar Ingólfsson.

Grindvíkingur GK 606 var keyptur frá Noregi árið 2003 af Þorbirni-Fiskanesi hf. í Grindavík.

Grindvíkingur hét áður Hardhaus II og var 64,5 metra langur og 12,6 metra breiður. Smíðaður 1997.

Vorið 2004 var Grindvíkingur GK 606 seldur til Vestmannaeyja þar sem hann fékk nafnið Guðmundur VE 29. En það er önnur saga.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Vinna við nýja Börk á áætlun

2983. Börkur NK 122. Ljósmynd Karl Jóhann Birgisson 2020.

Þeir Karl Jóhann Birgisson og Jóhann Pétur Gíslason vélstjóri hafa dvalið í Skagen í Danmörku í tvo og hálfan mánuð þar sem þeir hafa fylgst með framkvæmdum um borð í nýjum Berki sem er í smíðum hjá Karstensens Skibsværft.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að þeir félagar hafi komið til landsins í jólafrí 12. desember sl. og er gert ráð fyrir að Karl Jóhann og Hörður Erlendsson vélstjóri haldi til Skagen eftir áramótin þegar framkvæmdir við skipið hefjast á ný fyrir alvöru.

Heimasíðan ræddi stuttlega við Karl Jóhann og spurði frétta.

„Skipið liggur í Skagen og þar er unnið um borð af miklum krafti. Að undanförnu hafa um 160-170 manns starfað um borð í skipinu og til viðbótar er unnið á verkstæðum að verkefnum sem tengjast framkvæmdum um borð. Það er afar gott skipulag á framkvæmdunum.

Verkfundir eru haldnir reglulega og skipinu er skipt upp í svæði og á hverju svæði er verkstjóri sem ber ábyrgð á öllu sem þar fer fram. Það gengur allt snurðulaust fyrir sig og það er í reynd aðdáunarvert hvernig að málum er staðið. Verkið er á áætlun og samkvæmt henni  á skipið að fara í prufusiglingu í lok febrúar og afhending þess að eiga sér stað í apríl. Ýmislegt getur þó raskað áætluninni og það er þá helst covid.

Jóhann Pétur fylgist grannt með öllum framkvæmdum sem snerta vélar og tæki. Hann dvelur löngum stundum í vélarrúminu þar sem meðal annars þarf að ganga frá tveimur aðalvélum og tveimur ljósavélum. Á dögunum var gengið frá öllum krönum og vindum í skipinu og vóg sá búnaður hvorki meira né minna en 200 tonn.

Hafa skal í huga að við framkvæmdir um borð í Berki njótum við þess að systurskipið, Vilhelm Þorsteinsson, er einnig í smíðum hjá Karstensens og framkvæmdir þar eru lengra komnar. Vilhelm fór til dæmis í prufusiglingu á dögunum sem gekk afar vel. Það auðveldar ýmislegt hjá okkur að vera skip númer tvö,“ segir Karl Jóhann.