
Grásleppubáturinn Björn Jónsson ÞH 345 frá Raufarhöfn kemur hér að landi á Húsavík þann 5. maí árið 2014.
Doddi Ásgeirs ehf. á Húsavík gerði bátinn út þessa grásleppuvertíðina en hann var í eigu Útgerðarfélagsins Röðuls ehf. á Raufarhöfn.
Þórður Birgisson skipstjóri og Baldur Kristinsson réru bátnum og komu þarna með han smekkfullann.
Báturinn hét upphaflega Bensi BA 46 og var smíðaður fyrir Leif Halldórsson á Patreksfirði árið 1997. Bátuinn, sem upphaflega var Víkingur 800, var smíðaður hjá Bátagerðinni Samtak í Hafnarfirði.
Árið 2003 fékk báturinn einkennisstafina ÍS 325 og heimahöfn í Bolungarvík en haustið 2004 var hann kominn til Hólmavíkur. Þar fékk hann nafnið Hilmir ST 1 eigandi Æður ehf. á Hólmavík.
Snemma árs 2014 höfðu Æður ehf. og Útgerðarfélagið Röðull ehf. bátaskipti og þá fékk báturinn það nafn sem hann ber á þessum myndum.
Um haustið var Björn Jónsson ÞH 345 seldur Von SH ehf. og fékk báturinn nafnið Gestur SH 187. Það nafn ber báturinn enn þann dag í dag og er heimahöfn hans Arnarstapi á Snæfellsnesi.
Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution.