
Útgerð færeyska uppsjávarveiðiskipsins Christian í Grótinum hefur keypt uppsjávarveiðiskipið Margréti EA 710 af Samherja. Skipið verður afhent strax upp úr áramótunum.
Samherji keypti skipið frá Hjaltlandseyjum árið 2015 þar sem það bar nafnið Antares LK 419 og hafði heimahöfn í Hvalsey.
Frá því að Vilhelm Þorsteinsson EA 11 var seldur árið 2018 hefur Margrét EA 710 veitt kvóta Samherja í uppsjávarfiski. Eins og margir vita er nýr Vilhelm Þorsteinsson EA 11 í smíðum hjá Karstensensskipasmíðastöðinni í Skagen í Danmörku og er stefnt að afhendingu hans í febrúar.
Margrét EA 710 var smíðuð í Flekkefjord í Noregi árið 1995 en skipið var lengt árið 2009. Mesta lengd skipsins er 73 metrar og breiddin er um 13 metrar. Aðalvélin er af gerðinni Wartsila Vasa og er 4920kW. Í skipinu eru RSW kælitankar sem taka alls rúm 2.000 tonn.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Margréti EA 710 sé ætlað að brúa bilið þangað til nýr Christian í Grótinum, sem er í smíðum hjá Karstensensskipasmíðastöðinni í Skagen, verður klár en hann er væntanlegur til Færeyja í byrjun árs 2022.
Gamli Christian í Grótinum var seldur til Grænlands fyrir skömmu þar sem hann fékk nafnið Tasiilaq. Kaupandinn er fyrirtækið Pelagic Greenland, sem er dótturfyrirtæki Royal Greenland.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution