
Geir RE 406 var smíðaður árið 1956 í Þýskalandi og var upphaflega KE 1 með heimahöfn í Keflavík. Eigendur Ólafur Loftsson og Þorsteinn Þórðarson.
Um komu hans sagði svo frá í 4. tbl. Ægis 1956:
Fyrsti þýzki stálbáturinn kom hingað til Keflavíkur 8. þ. m. og heitir hann Geir.
Ferðin frá Hamborg gekk að óskum. Hún tók fimm og hálfan sólarhring enda þótt aflvélin, sem firmað Mak Kiel hefur smíðað og er 240 hestöfl, hafi ekki verið knúin til fulls.
Báturinn er 22,57 metrar að lengd, 76 smálestir. Hann er búinn fullkomnustu tækjum og vandaður að öllum frágangi. Lestin er klædd aluminium. Þrýstivatns-kerfi fyrir drykkjar- og þvottavatn o. s. frv.
Báturinn er byggður samkvæmt reglum þýzka Lloyds fyrir hafskip. Því hefur hann ýmsan öryggisútbúnað sem mun vera óþekktur hjá okkur, en þessar reglur heimta. Ennfremur fullnægir báturinn kröfum samkvæmt íslenzkum reglum.
Farið hefur verið eftir teikningum og ráðleggingum Egils Þorfinnssonar bátasmiðs um fyrirkomulag og ýmsan útbúnað, sem reynsla hefur fengizt fyrir að hæfi íslenzkum staðháttum.
Óhætt mun að fullyrða að ekkert hefur verið tilsparað að gera bátinn sem bezt úr garði og gera menn sér vonir um að þar með bætist íslenzka fiskiskipaflotanum gott skip.
Þess má geta, að báturinn kom að öllu leyti útbúinn til þorsk- og síldveiða og var því umsvifalaust tilbúinn að hefja róðra.
Eigendur bátsins eru Ólafur Loftsson útgerðarmaður, og hinn góðkunni og fengsæli skipstjóri Þorsteinn Þórðarson, Keflavík.
Annar sams konar bátur er væntanlegur til Vestmannaeyja í þessum mánuði.
Firmað D. W. Kremer Sohn, Elmshorn, hefur smíðað bátinn en umboðsmenn firmans eru Kristján G. Gíslason & Co., hf.
Geir KE 1 var seldur Ingólfi Kristjánssyni í REukjavík í desembermánuði 1964 og varð hann RE 406 við það. Í nóvember ári síðar kaupir Sjófang h/f bátinn. Það var svo í febrúar 1971 sem feðgarnir Pétur Stefánsson og Guðbjörn Stefánsson kaupa bátinn sem heldur nafni sínu og númeri.
Geir RE 406 var seldur til Ólafsvíkur árið 1989 þar sem hann fékk nafnið Jökull SH 15, kaupandinn Hrói hf. í Ólafsvík. Báturinn var seldur á fornar slóðir sumarið 1992 þegar Ísnes ehf. keypti hann til Keflavíkur. Þar fékk hann nafnið Sigurvin Breiðfjörð KE 7.
Í ársbyrjun 1994 fékk báturinn nafnið Skúmur KE 122, eigandi Sæunnur ehf. og það nafn bar hann til ársins 1999. Þá fékk hann nafnið Eldey GK 74 þegar Útgerðarfélagi Skaginn ehf. keypti hann og samkvæmt skipaskrá heitir hann það enn.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution