
Jón Björn NK 111 sem sést hér á mynd Þorgeirs Baldurssonar hét upphaflega Aldan RE 327 og var smíðuð hjá Básum h/f í Hafnarfirði árið 1976.
Aldan RE 327 var smíðuð fyrir Guðmund J. Magnússon í Reykjavík sem jafnframt var skipstjóri á bátnum.
Aldan RE 327 mældist 26 brl. að stærð og var nokkru stærri en fyrri bátar sem Básar h/f hafði smíðað, s.s Viðar ÞH 17, Haftindur HF 123 og Seifur BA 123.
Upphaflega var í bátnum 176 hestafla GM aðalvél en 1983 var sett í hann 230 hestafla vél sömu tegundar.
Í lok árs 1981 var Aldan RE 327 seld til Vopnafjarðar þar sem hún fékk nafnið Þerna NS 113. Haustið 1983 var Þerna NS 113 seld suður í Garð þar sem hún fékk nafnið Sigurvin GK 51.
Frá árini 1988 og til ársins 1996 þegar hann fékk það nafn sem hann ber á myndinni hét hann Seifur NS 123, Seifur NS 923, Kambavík SU 24, Haförn HU 4 og Harpa GK 111.
Árið 2004 var Jón Björn NK 111 kominn í eigu Samvinnufélags útgerðarmanna Neskaupstað og fékk síðar nafnið Gerpir NK 111 sem hann ber í dag. Hann er notaður til farþegasiglinga.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution