Ný Cleopatra til Kjøllefjord í Noregi

Tinder F-20-LB. Ljósmynd Trefjar.is 2019.

Nú á dögunum afhenti Bátasmiðjan Trefjar nýjan Cleopatra bát til Kjøllefjord í Noregi.

Kaupandi bátsins er Daniel Lauritzen sem jafnframt verður skipstjóri á bátnum sem hefur hlotið hið umtalað nafn Tinder.  Tinder er af gerðinni Cleopatra 36, 11metra langur og mælist 14 brúttótonn

Aðalvél bátsins er af gerðinni Scania D9 410hp tengd ZF V-gír.  Rafstöð af gerðinni Nanni 7.5kW.  Andveltigýro af gerðinni Quick er staðsettur í vélarrúmi  

Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni JRC.
Báturinn er einnig útbúin vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins.  Báturinn er útbúinn til línuveiða.

Línuspil kemur frá Beiti annar veiðibúnaður kemur frá Noregi.
Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Rými er fyrir 15 stk. 380 lítra kör í lest.  Stór borðsalur er í brúnni.  Fullkomin eldunaraðstaða er í lúkar.  Svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar.  Salerni með sturtu.

Báturinn hefur þegar hafið veiðar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution


Áskell ÞH 48 á leið í skip

2958. Áskell ÞH 48. Ljósmynd Gjögur hf. 2019.

Á þessari mynd sést þegar verið var að hífa Áskel ÞH 48 um borð í flutningaskip í Víetnam sem flytja á hann til Noregs þar sem hann verður kláraður í Vard skipasmíðastöðinni.

Flutningaskip þetta á einnig að flytja Vörð ÞH 44, Þinganes SF 25 og Steinunni SF 10 í leiðinni til Noregs en skrokkar þessara fjögurra skipa voru smíðaðir í Víetnam.

Þessi skip eru hluti af sjö skipa raðsmíðaverk­efni sem ís­lensk út­gerðarfyr­ir­tæki sömdu um við Vard, sem rek­ur m.a. skipa­smíðastöðvar í Nor­egi, Rúm­en­íu og Bras­il­íu, auk Víet­nams.

Meðfylgandi mynd er fengin af Fésbókarsíðu Gjögurs hf. og birt með leyfi frá fyrirtækinu.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Bárður SH 81 er SH 811 í dag

2481. Bárður SH 81. Ljósmynd Alfons Finnsson.

Bárður SH 81 frá Arnarstapa er bátur sem ekki hefir oft borið fyrir augu þeirra sem sótt hafa síðurnar mína heim en þó í tvígang.

Og allt er þegar þrennt er og hér kemur mynd sem félagi Alfons sendi mér í morgun og sýnir Bárð SH 81 koma að landi í Ólafsvík.

Bárður SH 81 var smíðaður hjá Samtak ehf. í Hafnarfirði árið 2001. Hann var lengdur um 1,60 metra hjá Sólplasti í Sandgerði árið 2008. Mælist 14,98 metrar eftir það.

Bárður er reyndar orðinn SH 811 á vef Fiskistofu en eins og kunnugt er er von á nýjum Bárði í vor. Það er búið að fiska mikið á þennan en sá nýi er mun stærri.

Hann verður 26,90 metra langur og 7 metrar á breidd og þar með stærsti trefjaplastbátur sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð. Nýi Bárður er smíðaður hjá Bredgaards Boats í Rødby í Danmörku.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Málmey og Drangey

1833. Málmey Sk 1 ex Sjóli HF 1. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2017.

Hér koma myndir sem sýna togarana Málmey SK 1 og Drangey SK 2 en þær tók ég í ágústmánuði 2017 þegar Drangey SK 2 kom í fyrsta skipti til heimahafnar á Sauðárkróki.

Málmey SK 1 var smíðuð í Flekkefjord í Noregi 1987 fyrir Sjólaskip hf. í Hafnarfirði. Skipið , sem hlaut upphaflega nafnið Sjóli HF 1, var keyptur til Sauðárkróks 1995 og hlaut þá nafnið Málmey SK 1.

2893. Drangey SK 2. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2017.

Drangey er einn fjögurra togara sem smíðaður er eftir sömu teikningu fyrir íslenskar útgerðir í Tyrklandi. Kaldbakur EA kom fyrstur, síðan Björgúlfur EA og næst kom Drangey SK og loks Björg EA.

Málmey og Drangey eru í eigu FISK-Seafood á Sauðárkróki.

Málmey SK 1 fylgir í humátt á eftir Drangey til hafnar. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2017.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution