Þórunn Sveinsdóttir VE 401 í lengingu í Skagen

2401. Þórunn Sveinnsdóttir VE 401 Karstensens Skibsværft A/S í dag. Ljósmynd Ásgeir Kristjánsson.

Fékk þessa mynd senda frá gömlum skipsfélaga í dag sem hann tók í dag í Karstensens Skibsværft A/S í Skagen.

Þarna er búið að skera Þórunni Sveinsdóttur VE 401 í sundur og draga til en þarna eiga að koma 6,6 metrar inn í skipið.

Þórunn Sveinsdóttir VE 401 var smíðuð fyri Ós ehf. í Vestmannaeyjum í Karstensens Skibsværft A/S árið 2010 og er smíðanúmer 409 frá stöðinni. Skrokkurinn reyndar smíðaður í Póllandi en skipið fullklárað í Skagen.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Loftur Baldvinsson EA 124

144. Loftur Baldvinsson EA 124. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Hér liggur Loftur Baldvinsson EA 124 í höfn á Akureyri og sennilega er það Sæþór ÓF 5 sem er fyrir innan hann.

Ég tel þessa mynd vera tekna haustið 1963 en Loftur Baldvinsson EA 124 kom nýr til heimahafnar á Dalvík þá um sumarið.

Loftur Baldvinsson var smíðaður fyrir Aðalstein Loftsson í Hjörungavog, Noregi, 1963, stálskip brl 225. Skipið kom nýtt til Dalvíkur 16. júlí 1963. Lengd 31,91, breidd 7,01, dýpt 3,38. Vél Lister 660 hö.

Skipið fékk nafnið Baldur EA 124 þegar nýr Loftur Baldvinsson kom árið 1968. Aðalsteinn seldi skipið til Reykjavíkur og bar það áfram nafnið Baldur en fékk einkennisstafina RE 2.

Skipið var síðan í Keflavík og hét þar Hagbarður KE 116. Þaðan fór það til Ólafsvíkur og hét þar Gunnar Bjarnason SH 25. Árið 1995 var skipið selt til Noregs. (Norðurslóð 2015)

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Sigurbjörg ÞH 62 á grásleppuveiðum

739. Sigurbjörg ÞH 62 . Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Í dag má leggja grásleppunetin og því upplagt að koma með eina gamla mynd af grásleppubát við veiðar.

Þetta er Sigurbjörg ÞH 62 frá Húsavík á veiðum á Skjálfanda um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Myndina tók ég um borð í Kristbjörgu ÞH 44 þar sem ég var í áhöfn.

Mig minnir mig að Hafsteinn Esjar Stefánsson útgm. og skipstjóri á Hornafirði hafi átt bátinn, að minnsta kosti gert hann út, þegar myndin var tekin.

Sigurbjörg ÞH 62 var smíðuð á Akureyri árið 1959 fyrir Björgvin Pálsson, Jóhannes Jóhannesson, Hall Jóhannesson og Guðlaug Jóhannesson Flatey á Skjálfanda. Um smíði hans má lesa á aba.is

Sigurbjörg var 10 brl. að stærð með 52 hestafla Petters díselvél. 1965 var sett í hann Perkins díselvél. Báturinn var seldur Sætra hf. á Drangsnesi 1987 og fékk þá nafnið Draupnir ST 150.

1989 heitir báturinn Nói HF 150 og 1991 fær hann nafnið Bogafell HF 72 sem er hans síðasta nafn því honum var fargað 1992.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution