Gísli Súrsson GK 8 kemur til Grindavíkur í dag

2878. Gísli Súrsson GK 8. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Jón Steinar tók þessa myndasyrpu af línubátnum Gísla Súrssyni GK koma til hafnar í Grindavík síðdegis í dag.

2878. Gísli Súrsson GK 8. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Ljósmyndarinn sagði að það hefði verið bölvað skítviðri og mígandi rigning.

2878. Gísli Súrsson GK 8. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Gísli Súrsson GK 8 er gerður út af Einhamri Seafood í Grindavík líkt og systubátarnir Auður Vésteins SU 88 og Vésteinn GK 88. Þeir eru allir af gerðinni Cleopatra 50 frá Trefjum.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Hulda GK 17 verður Hafrafell SU 65.

2912. Hulda HF 27. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Samkvæmt vef Fiskistofu hefur línubáturinn Hulda GK 17, áður HF 27, fengið nafnið Hafrafell SU 65 og er í eigu Háuaxlar ehf. á Fáskrúðsfirði.

Báturinn hét upphaflega Oddur á Nesi SI 76 og var smíðaður hjá Seiglu á Akureyri fyrir BG Nes ehf . Hann kom til heimahafnar á Siglufirði upp úr miðjum janúar 2017.

Seldur Blikabergi ehf. í júlí 2017 og nú er það Háaöxl ehf. sem er eigandi bátsins.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Gunnar Bjarnason SH 25

144. Gunnar Bjarnason SH 25 ex Hagbarður KE 116. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Hér er Gunnar Bjarnason SH 25 á síldarvertíð austanlands um árið, Hreiðar Olgeirsson skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44 tók myndina.

Gunnar Bjarnason var smíðaður í Noregi 1963 fyrir Aðalstein Loftsson á Dalvík. Hann nefndi bátinn Loft Baldvinsson EA 124. Síðar hét hann Baldur EA 124, Baldur RE 2, Hagbarður KE 116 og loks Gunnar Bjarnason SH 25 þegar Hraðfrystihús Ólafsvíkur h/f keypti hann árið 1976. Varakollur hf. eignast hann 1986 og Steinunn hf. 1992. Seldur til Noregs árið 1995. Báturinn var yfirbyggður eftir síldarvertíðina 1984.

Í Degi á Akureyri sagði svo frá þann 9. ágúst 1963;

Hinn 16. júlí kom nýtt 225 tonna stálskip til Dalvíkur. Heitir það Loftur Baldvinsson EA 124. Eigendur eru Aðalsteinn Loftsson, Baldvin Loftsson og Guðjón Loftsson, Dalvík.

Loftur Baldvinsson er byggður í Hjörungavogi í Noregi og var um eitt ár í smíðum. Ganghraði er 11.7 mílur. Aðalvélin er Lister, 660 hestafla, með Lianen skiptiskrúfu, sem er norsk uppfinning. Ljósavélar eru tvær, 70 og 34 hestafla.

Skipið er búið nýtízku siglinga- og öryggistækjum. Í því eru tveir Simraddýptarmælar með astikútfærslu og Kelvin-radar, einnig japönsk ljósmiðunarstöð.

Aðallestin er kæld og framannvið hana er frystilest, einnig er kæld bjóðageymsla. 

Skipstjóri er Kristján Jónsson og fyrsti vélstjóri Vigfús Sveinbjörnsson, báðir frá Dalvík. Loftur Baldvinsson fór á síld, þegar eftir heimkomuna.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Sider Sonja við Bökugarðinn

Sider Sonja við Bökugarðinn í morgun. Ljósmynd Gaukur Hjartarson.

Flutningaskipið Sider Sonja kom til Húsavíkur í morgun og lagðist að Bökugarðinum.

Skipið, sem var smíðað árið 2008 og mælist 5,629 GT að stærð, er með hráefnisfarm fyrir PCC á Bakka. Nánar tiltekið trjádrumba.

Lengd skipsins er 109 metrar og breiddin er 19 metrar.

Það siglir undir fána Madeira að mér sýnist og hét áður Wes Sonja.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Nesfiskur hefur gert kauptilboð í Hvanney og Steinunni

2403. Happasæll KE 94. Í dag Hvanney SF 51. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2002.

Nesfiskur hf. í Garði hefur gert kauptilboð í tvö skip í eigu Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði. 

Fiskifréttir greina frá þessu í nýjasta tölublaði sínu en um er að ræða Hvanney SF 51 og Steinunni SF 10. Bæði skipin eru um 29 metrar á lengd og smíðuð í Kína árið 2001.

Hvanney SF 51 hét upphaflega Happasæll KE 94 en Skinney-Þinganes keypti hann sumarið 2004 og nefndi Hvanney. Hvanney hefur stundað dragnóta-, tog- og netaveiðar.

2449. Steinunn SF 10 ex Helga RE 49. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2016.

Steinunn SF 10 hét upphaflega Helga RE 49 en Skinney-Þinganes keypti hana árið 2005 og gaf nafnið Steinunn SF 10. Steinunn hefur stundað togveiðar allt árið um hring.

Nánar má lesa um þessi kaup Nesfisks á skipunum tveim í Fiskisfréttum.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution