Frár VE 78 af stað á ný

1595. Frár VE 78 ex Frigg ve 41. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Frár VE 78 lét úr höfn í Vestmannaeyjum í dag eftir um þriggja mánaða stopp.

Frár VE 78 var smíðaður í Campeltown í Skotlandi árið 1977 fyrir Færeyinga og hét Von. Keyptur til Vestmannaeyja 1981 og fékk nafnið Helga Jóh. VE 41. Báturinn mældist 149 brl. að stærð og var búinn 685 hestafla Mirrles Blackstone aðalvél.

24. júlí það ár birtist eftirfarandi frétt í Vísi:

Nýtt fiskiskip bættist í flota Vestmannaeyja fyrir skömmu, er Helga Jó kom í fyrsta sinn til heimahafnar. Skipið er keypt frá Færeyjum. Skipstjóri og aðaleigandi er Jóhannes Kristinsson

Helga Jó er 149 brúttórúmlestir að stærð og smíðuð í Campeltown i Skotlandi 1977. Kaupverðið er tæpar sjö milljónir króna, en sambærilegt skip nýsmíðað kostar um 21 milljón króna.

Í skipinu eru öll fullkomnustu siglingar og fiskileitartæki. Aðalvélin er af gerðinni Millar Blackstone 685 ha. Það er þannig búið Rapp háþrýstispilakerfi og Auto-trolli.

Lestin er öll klædd að innan með áli, en skipið ber um 100—110 tonn af ísuðum fiski. Vistarverur eru fyrir 7 menn. Helga Jó er skutbyggð og gerð fyrir togveiðar en henni verður breytt þannig að hún geti farið á netaveiðar í vetur.

Svo mörg voru þau orð en 1982 var skráður eigandi Helga Jóh hf.

1988 hét báturinn orðið Frigg VE 41, eign Vinnlustöðvarinnar hf. en sennilega varð nafnabreytingin ári áður.

Ég birti eftirfarandi á gömlu síðunni um árið:

Annars segir svo frá á vef VSV um útgerð þessa báts:

Árið 1981 hóf Vinnslustöðin samstarf við Jóhannes Kristinsson skipstjóra við kaup á vélbátnum Helgu Jóh. VE. frá Færeyjum og átti Vinnslustöðin 35% hlut í bátnum. Rekstur bátsins gekk erfiðlega þrátt fyrir góð aflabrögð og var mjög stormasamt í kringum þessa útgerð. Nokkrum árum síðar óskaði Jóhannes eftir því að Vinnslustöðin keypti sinn hlut í bátnum sem 1987 varð alfarið eign Vinnslustöðvarinnar og dótturfyrirtækinu Gunnari Ólafssyni & Co hf. falin útgerð bátsins. 

1595. Frár VE 78 ex Frigg VE 78. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

1993 kaupir Óskar Þórarinsson útgerðarmaður Frigg VE 41 og nefnir Frá VE 78 og leysti hann af hólmi eldri bát með sama nafni.

11. nóvember það ár sagði svo frá í Eyjafréttum:

Á föstudaginn var Frár VE, sem Skipalyftan hefur unnið við breytingar á, afhentur eiganda sínum. Frár VE er eins og nýtt skip bæði að utan og innan og stenst fyllilega samanburð við nýsmíði. Frár er í eigu Óskars Þórarinssonar, skipstjóra og útgerð- armanns, og fjölskyldu. Báturinn hét áður Frigg VE og keypti Óskar hann af Vinnslustöðinni fyrr á þessu ári. Hann var smíðaður í Skotlandi árið 1977, en til Eyja kom hann frá Færeyjum.

Um leið og Óskar keypti bátinn gerði hann samning við Skipalyftuna um gagngerar endurbætur og var hafist handa við þær strax í vor. Í stórum dráttum eru breytingarnar eftirfarandi: Skipt var um brú og hún hækkuð. Var það gert til að auka vinnupláss á vinnsluþilfari. Þar var komið fyrir fiskmóttöku og nýjum aðgerðarbúnaði.

Byggt var yfir þilfarið og er togbúnaði komið fyrir á efra þilfari. Spilkerfi er að mestu nýtt og sett var í bátinn fótreipistromla, útdráttarvinda, tvær hjálparvindur og nýr krani.

Nýr skutur var smíðaður á bátinn og nýr gálgi settur á það. Einnig var sett perustefni á skipið. Mannaíbúðir eru sem nýjar. Borðsalur var smíðaður fremst á millidekkinu ásamt stakkageymslu og klósetti. Eldhúsið var endurnýjað og sama gildir um klefana.

Skipalyftan var aðalverktaki og sá hún einnig um hönnun. Undirverktakar voru Geisli sem sá um alla raflögn, Skipaviðgerðir sáu um alla trésmíðavinnu, Vélaverkstæðið Þór smíðaði aðgerðarkerfið og Nippill sá um miðstöðvarkerfið.

Öll vinna við breytingarnar er til mikillar fyrirmyndar og er Frár eins og nýr bátur nú þegar þeim er lokið. Skipstjóri á Frá VE er Halldór Guðbjörnsson.

1595. Frár VE 78 ex Frigg vE 41. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Frár VE 78 var lengdur árið 2005 og er nú 28,95 metra langur, 7,20 metra breiður og mælist 192 brl./292 BT að stærð.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Skógey SF 53

974. Skógey SF 53 ex Gullberg NS 11. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Skógey SF 53 var einn af 18 bátum sem smíðaðir voru fyrir íslendinga í Boizenburg í A-Þýskalandi á árunum 1964-1967.

Á þessari mynd Hreiðars Olgeirssonar er hún á reknetum á síldarvertíðinni 1982- eða 3.

Skógey SF 53 var með smíðanúmer 410 hjá V.E.B. Elbe Werftskipasmíðastöðinni og var sá áttundi í röð íslensku bátanna.

Skógey SF 53 hét upphaflega Gullver NS 12 og var smíðuð fyrir Gullberg h/f á Seyðisfirði. Í upphafi árs 1972 var skipt um nafn á bátnum, fékk hann nafnið Gullberg NS 11.

Haukur Runólfsson h/f á Höfn í Hornafirði kaupir Gullverið síðla árs 1973 og fær báturinn þá nafnið Skógey SF 53 sem hann bar til ársins 1993. Í desember það ár keypti Njáll h/f í Garði bátinn og nefndi Berg Vigfús GK 53.

Sumarið 1995 kom upp eldur rafmagnstöflu bátsins og brann hún til kaldra kola.

Í Morgunblaðinu 8. júlí sagði m.a svo frá:

Að sögn Ingibergs Þorgeirssonar, hjá Njáli hf., kom eldurinn upp í rafmagnstöflu skipsins og brann hún til kaldra kola. Ekki urðu aðrar verulegar skemmdir af völdum eldsins.

Ingibergur segir að ekki hafi verið teknar ákvarðanir með framhaldið en væntanlega þurfi að skipta um allt rafmagn í skipinu þar sem hitt var gamalt og úr sér gengið og var á jafnstraumi en ekki riðstraumi eins og nú tíðkast. Það gæti þýtt kostnað upp á 7-10 milljónir. Bergur Vigfús var smíðaður árið 1965.

Svo fór að Bergur Vigfús var seldur úr landi eftir þetta og hafði báturinn þá þjónað íslendingum í 30 ár.

Báturinn var upphaflega mældur 267 brl. að stærð búinn 660 hestafla Lister aðalvél. Hann var endurmældur 1972 og mældist þá 207 brl. að stærð. Mesta lengd er 34,25 metrar og breiddin er 7.20.

Árið 1988 var byggt yfir Skógeyna en 1986 hafði verið skipt um aðalvél og sett samkonar vél og áður, 660 hestafla Mirrlees Blackstone.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Indriði Kristins að draga línuna

2947. Indriði Kristins BA 751. Ljósmynd Guðmundur St. Valdimarsson 2019.

Á þessum myndum Guðmundar St. Valdimarssonar frá því í gær er Indriði Kristins BA 751 að draga línuna NV. af Látrabjargi.

Þann 16. nóvember 2018 skrifaði ég eftirfarandi inn á gömlu síðuna:

Útgerðarfélagið Þórsberg ehf á Tálknafirði fékk á dögunum afhentan nýjan yfirbyggðan Cleopatra 46B beitningavélarbáta frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Nýi báturinn heitir Indriði Kristins BA 751. Báturinn er 14metrar á lengd og mælist 30brúttótonn.  Báturinn leysir af hólmi eldri Cleopatra bát með sama nafni.

Skipstjórar á bátnum eru Indriði og Magnús Guðjónssynir. Framkvæmdastjóri Þórsbergs er Guðjón Indriðason.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Doosan 4V222TI 880hö (22L) tengd frístandandi ZF 665 V-gír. Rafstöð er af gerðinni Scam/FPT/Linz 84kW (60kVA) frá Ásafli. Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni JRC frá Sónar ehf.

Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifnum hliðarskrúfum að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins.

Báturinn er útbúinn til línuveiða.  Beitningavél, rekkakerfi og línuspil er frá Mustad í Noregi. Búnaður á dekki er frá Stálorku. Ísvél og forkælir er frá Kælingu ehf.

Löndunarkrani á er af gerðinni TMP frá Ásafli ehf.

Lífbátar og annar öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking.

Rými er fyrir allt að 72stk 460lítra kör í lest.  Millidekk er lokað með aðgreindu dráttarrými.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla fyrir 6manns.  Stór borðsalur.  Salerni/sturta.  Þvottavel og þurrkari.  Svefnpláss er fyrir sex í lúkar í 4 aðskyldum klefum.

Fullbúið eldhús er um borð með öllum nauðsynlegum búnaði.  S.s. eldavél, bakarofni, örbylgjuofn, ísskáp og uppþvottavél. Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn í takt við það.

2947. Indriði Kristins BA 751. Ljósmynd Guðmundur St. Valdimarsson 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution