Smaragd M-65-HØ

Smaragd M-65-HØ. Ljósmynd Áki Hauksson 2015.

Áki Hauksson myndaði norska uppsjávarveiðiskipið Smaragd M-65-HØ þegar það kom við í Måløy til að taka olíu þann 7. ágúst árið 2015

Þetta glæsilega splunkunýja skip var á siglingu til heimahafnar í Fosnavaag en það var þá nýlega afhent frá skipasmíðastöðinni Havyard í Leirvik í Sogni, Noregi.

Skipið var hannað þar og fullklárað en skrokkur þess var smíðaður í Tyrklandi af skipasmíðastöðinni Cemre verftet, Istanbul.

Eigandi skipsins er útgerðarfélagið Smaragd AS en það er 74 metrar á lengd, 15,8 metrar á breidd og er 3,580 GT að stærð.

Smaragd M-65-HØ. Ljósmynd Áki Hauksson 2015.

Þess má geta að það skip sem þetta leysti af hólmi heitir Hoffell SU 80 í dag.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Ásgeir Frímanns ÓF 21

2123. Ásgeir Frímanns ÓF 21 ex Gáshólmur. Ljósmynd Tryggvi Sigurðsson.

Línuskipið Ásgeir Frímanns ÓF 21 er hér á mynd Tryggva Sigurðsson úr Vestmannaeyjum.

Ásgeir Frímanns var keyptur til landsins árið 1990 og í 11. tölublaði Ægis það ár mátti m.a lesa þetta þegar fjallað var um skipið:

5. september sl. kom fiskiskipið Ásgeir Frímanns ÓF 21 til hafnar í Reykjavík, en skip þetta var keypt notað frá Noregi.

Skipið sem áður hét Gåshólmur, var smíðað árið 1986 fyrir Færeyinga hjá Solstrand Slip & Baatbyggeri A/S í Tomrefjord, Noregi, smíðanúmer 49 hjá stöðinni. Skrokkur skipsins var smíð-aður hjá Herefjord Slipp & Verksted A/S í Revsnes.

Skipið er tveggja þilfara sérbyggt línuveiðiskip með línuvélasamstæðu og búið tækjum til heilfrystingar. Ásgeir Frímanns ÓF kemur í stað Atlanúps ÞH 263 (21), 176 rúmlesta stálfiskiskips, smíðað í Noregi árið 1960, og hét upphaflega Auðunn GK.

Ásgeir Frímanns ÓF er í eigu Valeikar hf. á Ólafsfirði. Skipstjóri á skipinu er Jónas Kristjánsson og yfirvélstjóri Snorri Ólafsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Helgi Már Reynisson. 

Útgerð Ásgeirs Frímanns ÓF 21 stóð til 1995 en hann var seldur snemma það ár aftur til Noregs.

Ásgeir Frímanns ÓF 21 var 33 metra langur, 8 metra breiður og mældist 281 brl/436 BT að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Ársæll EA 74 á grásleppuveiðum á Skjálfandaflóa

403. Ársæll EA 74 ex Farsæll EA 74. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Á þessari mynd er Ársæll EA 74 við grásleppuveiðar á Skjálfandaflóa á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar.

Ársæll EA 74 var í eigu Jóhannesar Jónssonar frá Flatey, búsettur á Akureyri. Hann keypti bátinn árið 1976 frá Hrísey. Jóhannes átti bátinn til ársins 1991 en þá var hann seldur suður á Reykjanes. Báturinn fékk nafnið Ársæll Þór GK 83. Eigandi Hans Wium.

Á vef Árna Björns Árnasonar, aba.is, segir:

Árið 1992 hét báturinn enn sama nafni en eigendur skráðir Óskar Karl Þórhallsson og Dagur Ingimundarson. 

Báturinn endaði lífssiglingu sína í óveðri, sem gekk yfir Reykjanesskagann, þar sem hann lá í höfn á skaganum. Afleiðingar þessara skemmda urðu þær að bátnum var fargað og hann tekinn af skipaskrá 24. nóvember 1992. 

Endalokum náði báturinn svo á áramótabrennu í Garði 31. desember 1994.

Í Tímanum þann 29. júlí 1958 sagði m.a svo frá:

Nýlega afhenti Skipasmíðastöð KEA á Akureyri nýjum eigendum og útgerðarmönnum í Hrísey 8—9 tonna mótorbát, sem stöðin hafði smíðað.

Báturinn heitir Farsæll EA 74 og er hinn snotrasti farkostur og traustlega byggður.

Tryggvi Gunnarsson skipasmíðameistari teiknaði bát þennan og sá um smíðina. Er báturinn 8—9 tonn og í honum 44 hestafla Kelvin-vél, sem Ólafur Einarsson setti niður, og hann er búinn venjulegum hjálpar og öryggistækjum.

Sjómönnum varð tíðförult um borð í Farsæl, er hann lá hér við Torfunesbryggju þegar verið var að leggja síðustu hönd á verkið.

Eigendurnir eru bræðurnir Sigmar og Gunnar Jóhannssynir í Hrísey. Þeir eru þegar komnir á handfæraveiðar, en í haust ráðgera þeir að veiða í þorskanet.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution