Eirik H-18-S

Erik H-18-S. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Bátasmiðjan Seigla á Akureyri afhenti þennan bát, Eirik H-18-S til Noregs í aprílmánuði árið 2012.

Á þessum myndum er hann í reynslusiglingu á Eyjafirði en hélt áleiðis til Noregs síðar þennan dag sem var 14. dagur aprílmánaðar.

Eirik, sem var með heimahöfn í Skogsvåg, heitir í dag Moagutt M-18-M.

Eirik H-18-S. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Erika GR-18-119

Erika GR-18-119 ex Birtingur NK 119. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Grænlenska loðnuskipið Erika GR-18-119 lætur hér úr höfn á Húsavík í janúarmánuði árið 2012.

Erika hét upphaflega Hákon ÞH 250 og var smíðuð fyrir Gjögur h/f í Ulsteinsvik, Noregi árið 1987. Skipið er 820 brúttórúmlestir, 57 metrar að lengd og 12,5 metrar að breidd. 

Þegar nýr Hákon leysti þennan af hólmi árið 2001 fékk sá gamli nafnið Áskell EA 48.

Síldarvinnslan h/f keypti Áskel sumarið 2008 og fékk hann nafnið Birtingur NK 119. Síðsumars árið 2009 var Birtingur seldur til Grænlands og fékk þá nafnið Erika og heimahöfnin Tasilaq.

Kaupandinn var Grænlenska útgerðarfélagið East Greenland Codfish A/S en Síldarvinnslan á hlut í því fyrirtæki.

Erika er nú undir flaggi Marakkó.

Erika GR-18-119 ex Birtingur NK 119. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2012.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can wiew them in higher resolution

Slippurinn Akureyri annast framleiðslu og uppsetningu á vinnsludekki í nýjan frystitogara Nergård Havfiske

Ljósmynd slipp.is

Slippurinn Akureyri hefur gengið frá samningi um hönnun, framleiðslu og uppsetningu á vinnsludekki um borð í nýjan frystitogara norsku útgerðarinnar Nergård Havfiske.

Frá þessu segir á nýrri heimasíðu fyrirtækisins:

Norska skipasmíðastöðin Vard sér um smíði á skipinu og mun Slippurinn hafa yfirumsjón með vinnsludekkinu og býður upp á heildarlausn ásamt undirvertökum eins og Intech, Marel, Baader og Holmek.


„Samningurinn við Nergård Havfiske er stærsti einstaki samningurinn sem Slippurinn hefur gert sem snýr að vinnsludekki eins fiskiskips og er mikil viðurkenning fyrir okkur á allan hátt.

Við höfum verið í mikilli sókn á markaði fyrir vinnslubúnað í fiskiskip og
landvinnslur á undanförnum árum og erum við mjög ánægð með að Nergård hafi valið okkur í þetta verkefni“ segir Eiríkur S. Jóhannsson framkvæmdarstjóri Slippsins á Akureyri.


Skipið er 80 metrar að lengd og 17 metrar að breidd og mun vinnsludekkið vera með vinnslulínu fyrir bæði bolfisk og rækju. Áætlað er að hið nýja fiskiskip verði tilbúið til veiða í febrúar á næsta ári.

Á undaförnum fimm árum hefur Slippurinn afhent sex millidekk í frystitogara, flest þessara verkefna eru unnin með félögum tengdum Samherja. Sú mikla þekking sem Samherji býr yfir við fiskveiðar og vinnslu hefur stórelft allar lausnir sem Slippurinn býður nú uppá og hafa þessar lausnir vakið mikla eftirtekt í alþjóðlegum sjávarútvegi.

Í þessu sambandi nægir að nefna að árið 2017 afhenti Slippurinn vinnsludekk í frystitogaranna Berlin NC 105 og Cuxhaven NC 100 fyrir Deutsche Fischfang Union og hefur reynsla útgerðarinnar af þessum millidekkjum verið sérstaklega góð.

Einnig má nefna að Slippurinn hefur einnig tekið að sér framleiðslu og umsjón á milldekkjum fyrir ísfisktogara. Slippurinn tók að sér umsjón með heildarlausn á vinnsludekki í ísfisktogarann Björg EA 7 fyrir Samherja í fyrra og hefur aflinn og aflameðferðin í skipinu verið fyrsta flokks.


„Þau verkefni sem við höfum verið að vinna að á undaförnum árum hafa komið gríðarlega vel út. Við höfum þróað okkar búnað og lagt meiri áherslu en áður að bjóða upp á heildarlausnir til okkar viðskiptavina. Þessi samningur við Nergård og Vard er því góður vitnisburður um þá jákvæðu þróun sem hér hefur átt sér stað og klár gæðastimpill fyrir Slippinn og okkar góða starfsfólk“ segir Eiríkur í viðtali við heimasíðuna.

English version

Ný Cleopatra 40 til Skotlands

Soph-Ash-Jay 3. Ljósmynd Trefjar.is 2019.

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afrgreiddi núna nýverið nýjan Cleopatra bát til Burnmouth á austurströnd Skotlands.

Að útgerðinni stendur John Affleck sjómaður frá Burnmouth sem jafnframt er skipstjóri á bátnum.

Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Soph-Ash-Jay-3 og er 15brúttótonn.  Soph-Ash-Jay-3 er af gerðinni Cleopatra 40 og er fjórði báturinn sem Trefjar afhenda útgerðinni.

Einn af eldri bátum útgerðarinnar Cleopatra 40 sem útgerðin fékk afhendann 2017 verður áfram í rekstri.  Nýi báturinn mun leysa af hólmi eldri og Cleopatra 38 bát frá 2008.

Aðalvél bátsins er af gerðinni FPT C13 650hp tengd ZF 325IV gír.

Báturinn er útbúinn 17kW rafstöð af gerðinni Scam/Kubota.  Siglingatæki koma frá Simrad.  Báturinn er með uppsettar Olex og MaxSEA skipstjórnartölvur.

Hann einnig útbúin með vökvadrifnum skut og bógskrúfum sem tengd er sjálfstýringu bátsins.  Í bátnum er andvelti gýrókúla.

Báturinn er útbúinn til gildruveiða á humri og töskukrabba.  Reiknað er með að báturinn muni draga 1000gildrur á dag.

Í fiskilest bátsins er sjálfvirkt sjóúðunarkerfi til að halda humri lifandi um borð.  Með þessu fyrirkomulagi fæst mun meira aflaverðmæti.

Öryggisbúnaður bátsins er frá Viking.

Rými er fyrir 17stk 380lítra kör í lest.  Í vistarverum er, svefnpláss fyrir þrjá til fjóra auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

Að sögn útgerðarinnar mun báturinn verða gerður út frá Burnmouth allt árið, báturinn hefur þegar hafið veiðar.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Ný Cleopatra 33 til Mæri

Bajas M-1-RA. Ljósmynd Trefjar.is 2019.

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Vågstranda sem er sveitarfélag í Mæri og Raumsdal í Noregi.

Kaupandi bátsins eru feðgarnir Johan og Tobias Solgård og er Tobias skipstjóri á bátnum sem hefur hafið veiðar.

Báturinn, sem hefur hlotið nafnið Bajas, er af gerðinni Cleopatra 33 og mælist 11 brúttótonn að stærð. 

Aðalvél bátsins er af gerðinni FPT C90 500hp tengd ZF V-gír.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni JRC og Furuno.

Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins.  Báturinn er sérútbúinn til gildruveiða á humri.

Spilbúaður og gildruborð er útfært af Trefjum.  Í lestinni er úðunarkerfi til að halda humri lifandi sem eykur aflaverðmæti til muna

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Lestin er útbúinn fyrir 12stk 380lítra kör eða fleiri minni kassa. Í bátnum er upphituð stakkageymsla og salerni með sturtu.  Svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Gadus Njord N-125-VV

Gadus Njord N-125-VV. Ljósmynd Eiríkur Sigurðsson 2017.

Hér koma tvær myndir af norska skuttogaranum Gadus Njord sem Eiríkur Sigurðsson skipstjóri á Reval Viking tók.

Það er útgerðin Havfisk í Noregi sem á Gadus Njord en á árunum 2013 og 2014 fékk fyrirtækið afhenta þrjá nýja togara eftir sömu teikningu, Gadus Poseidon, Gadus Njord og Gadus Neptun.

Gadus Njord og systurskipin tvö eru 69,8 metra löng og 15,6 metra breið.

Gadus Njord N-125-VV. Ljósmynd Eiríkur Sigurðsson 2018.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Patricia III SZN 72

Patricia III SZNN 72 ex Bravó. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2004.

Patricia III SNZ 72 frá Szczecin í Póllandi kom til Húsavíkur í ágústmánuði árið 2004.

Togarinn, sem var þá í eigu Íslendinga, sigldi undir pólsku flaggi og hafði verið að veiðum í Barentshafi og kom til löndunar á Húsavík.

Skuttogari þessi hét upphaflega Ögri RE 72, smíðaður í Gdansk í Póllandi fyrir Ögurvík h/f í Reykjavík. Hann kom til heimahafnar í Reykjavík 13. desember en systurskip hans, Vigri RE 71, hafði komið rúmum mánuði áður.

Ögri RE 72 fékk nafnið Akurey RE 3 eftir að Grandi h/f keypti skipið af Ögurvík h/f og gerði út í nokkur ár.

Síðasta nafn togarans á íslenskri skipaskrá var Bravó SH 543 og síðar bara Bravó en hann var notaður um tíma til fiskflutninga til Skotlands.

Patricia III fór í brotajárn árið 2007.

Patricia III SZN 72 ex Bravó. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2004.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Senior N-60-B

Senior N-60-B ex Kvannøy. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Norska loðnuskipið Senior N-60-B er hér á mynd sem tekin var í febrúar sl. þegar floti norskra loðnuskipa var á Skjálfanda.

Senior er 63 metra langur, 12 metra breiður og mælist 1693 GT að stærð. Smíðaður 1989 og með heimahöfn í Bodø.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Torita M-123-A

LHAH. Torita M-123-A ex Torita 1. Ljósmynd Jón Steinar.

Torita M-123-A heitir þessi þessi línuveiðari sem Jón Steinar myndaði við komu til Grindavíkur fyrir einhverjum misserum síðan.

Torita hét upphaflega Geir og var smíðaður 1978 í Fiskarstrand í Noregi. Hann er 39 metra langur, 7 metra breiður og mælist 377 GT að stærð.

Fyrri nöfn hans eru Geir, Geir Hans, Saetring 1 og Torita 1

Heimahöfn bátsins er í Álasundi.

LHAH. Torita M-123-A ex Torita 1. Ljósmynd Jón Steinar.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í stærri upplausn.

Ný Cleopatra til Þrándheims

Vigrunn TR-4-F. Ljósmynd Trefjar.is 2018.

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi nú á dögunum nýjan Cleopatra bát til Frøya sem er eyja rétt fyrir utan Þrándheim í Noregi.

Kaupendur bátsins eru bræðurnir Andre og Karl Vikan sem jafnframt verða skipverjar á bátnum.

Báturinn, sem hefur hlotið nafnið Vigrunn, mælist 11 brúttótonn að stærð. Vigrunn er af gerðinni Cleopatra 33 og hefur þegar hafið veiðar.

Aðalvél bátsins er af gerðinni FPT C90 410hp tengd ZF V-gír.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Simrad.

Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins. 

Báturinn er útbúinn til neta og gildruveiða en mun einnig sinna þjónustu hlutverk við fiskeldi á svæðinu.

Veiðibúnaður kemur frá Noregi.

Öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking-björgunarbúnaði.

Lestin er tvískipt og er heildarrými er fyrir 12stk 380lítra kör.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla og salerni með sturtu.  Borðsalur er í brúnni og  svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hanan í stærri upplausn.