Hulda ÍS 448

1892. Hulda ÍS 448. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Rækjubáturinn Hulda ÍS 448 frá Ísafirði er hér á togslóðinni úti fyrir Norðurlandi árið 1989 að mig minnir.

Hulda ÍS 448 var smíðuð í Svíþjóð fyrir Arnór Sigurðsson skipstjóra og útgerðarmann á Ísafirði.

Í 12. tbl. Ægis 1988 segir m.a svo frá:

Nýtt frambyggt stálfiskiskip, m/s Hulda ÍS 448, kom til heimahafnar sinnar, Ísafjarðar, 27. maí s. l.

Skipið er smíðað hjá Karlstadsverken AB, Karlstad í Svíþjóð, smíðanúmer 8 hjá stöðinni, en er hannað af Vik & Sandvik A/S í Noregi. Smíði á skrokk fór fram hjá Wermia Industri AB, í Åmål.

Hulda ÍS kemur í stað 29 rúmlesta eikarbáts, smíðaður árið 1956 í Danmörku, sem bar nafnið Tjaldur ÍS og fórst í desember 1986. Hulda ÍS er sérstaklega búin til togveiða með áherslu á rækjuveiðar.

Eigandi Huldu ÍS er Arnór Sigurðsson, sem jafnframt er skipstjóri á skipinu.

Hulda ÍS 448 var 18,60 metra löng, 6 metra breið og mældist 53 brl. að stærð.

Eldhamar hf. í Grindavík keypti Huldu ÍS 448 haustið 1990 og fékk báturinn nafnið Eldhamar GK 13.

Um ári síðar strandaði báturinn við Hópsnestá og eyðilagðist. Fimm menn fórust en einn bjargaðist í þessu hörmulega sjóslysi. Eldhamar GK 13 hafði verið lengdur það sama ár í Póllandi.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Geiri Péturs ÞH 344

1207. Geiri Péturs Þh 344 ex Sigurbergur GK 212. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson 1983.

Hreiðar Olgeirsson skipstjóri á Kristbjörgu ÞH 44 tók þessa mynd af Geira Péturs ÞH 344 á vetrarvertíð á Breiðafirði.

Geiri Péturs ÞH 344 var smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri 1971 og hét upphaflega Sigurbergur GK 212.

Korri h/f á Húsavík keypti Sigurberg GK 212 í upphafi árs 1980 og birtist þá eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu:

Nýtt fiskiskip sem hefur hlotið nafnið Geiri Péturs, hefur bæst í fiskiskipaflota Húsavíkur. Skipið er 138 lestir og keypt frá Hafnarfirði.

Það hét áður Sigurbergur, en kaupandinn er útgerðarfélagið Korri á Húsavík. Skipstjóri verður Sigurður Olgeirsson og vélstjóri Agnar Harðarson. Skipið fer á línuveiðar í mánaðarlokin.

Árið 1987 höfðu Korri h/f og Njáll h/f í Garði skipaskipti, Geiri Péturs ÞH 344 fór í Garðinn og fékk nafnið Una í Garði GK 100. Á móti fékk Korri h/f Sigurð Bjarnason GK 100 sem var úreltur og rúmmetrarnir notaðir í kaup á nýjum Geira Péturs ÞH 344 sem keyptur var frá Noregi.

Una í Garði GK 100 fórst norður af Skagafirði aðfaranótt þriðjudagsins 17. júlí árið 2001 og með henni tveir menn.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Aldey ÞH 110

1245. Aldey ÞH 110 ex Stokksey ÁR 50. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Rækjubáturinn Aldey ÞH 110 á landleið á Skjálfanda um árið.

Báturinn var smíðaður árið 1972 á Akureyri fyrir Hraðfrystistöð Vestmannaeyja hf. og Erling Pétursson í Vestmannaeyjum. Hann hét upphaflega Surtsey VE 2. Í upphafi mældist hann 105 brl. að stærð og var með MWM 765 hestafla aðalvél. 1980 var skipið yfirbyggt og mældist þá 101 brl. að stærð. 

Hraðfrystihús Stokkseyrar hf. kaupir Surtsey VE árið 1982 og nefnir það Stokksey ÁR 50. Haustið 1992 kaupir svo Höfði hf. á Húsavík bátinn sem fær nafnið Aldey ÞH 110 og var hann gerður út til rækjuveiða undir skipstjórn Hinriks Þórarinssonar.

Höfði hf. sameinast svo Íshafi hf. 1995 og ári síðar var Aldey seld til Skotlands. Sennilega notuð til úreldingar upp í nýjan rækjufrystitogara, Júlíus Havsteen ÞH 1, sem fyrirtækið keypti frá Grænlandi.

Það er af Aldey að segja að hún fékk nafnið Ternacia FR 331 en útgerð hennar varði ekki lengi. Skotarnir voru ekki búnir að gera hana lengi út þegar Ternacia FR 331 sökk.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution