
Bolli KE 46, sem hér sést við bryggju á Suðurnesjunum, var smíðaður árið 1972 hjá Skipasmíðastöð Austfjarða hf. á Seyðisfirði.
Hann hét upphaflega Kristín NK 17, var 12 brl. að stærð búinn 126 hestafla Volvo Penta vél.
Báturinn fékk nafnið Bliki SU 108 þegar hann var seldur á Eskifjörð árið 1974. Árið 1985 fær hann nafnið Vörðufell HF 1 og heimahöfnin Hafnarfjörður.
Vörðufellið var selt í Garðinn í byrjun árs 1986 og heldur nafninu en varð KE 117. Í febrúar 1988 var báturinn seldur til Keflavíkur þar sem hann fékk það nafn sem hann ber á myndinni, Bolli KE 46.
Það nafn bar hann til haustsins 1992 þegar hann var tekinn af skipaskrá þá í eigu þeirra sem stóðu að útgerð Arneyjar KE 50.
En saga bátsins var ekki öll þarna því Lárus Ingi Lárusson, búsettur í Noregi, keypti bátinn. Hann nefndi hann Oddbjörgu og sigldi henni út og hugðist gera úr henni skemmtibát. Heimild Víkurfréttir
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution