Örfirisey RE 4 á Halanum í dag

2170. Örfirisey RE ex Polarborg I. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Frystitogarinn Örfirsey RE 4 er hér á toginu á Halanum í dag en myndirnar tók Hólmgeir Austfjörð skipverji á Ottó N Þorlákssyni VE 5.

Örfirisey RE 4 var að koma úr Barentshafinu þar sem vel fiskaðist og klárar veiðiferðina á heimamiðum.

Örfirisey var smíðuð árið 1988 í Kristiansund í Noregi fyrir Færeyinga og hét Polarborg 1. Grandi keypti skipið 1992 og þá fékk það nafnið Örfirisey RE 4. Það var lengt um 10 metra í Póllandi 1998 um leið og því  var breytt í flakafrystitogara.

Örfirsey er 65,47 metra löng, 12,8 metra breið. og mælist 1.842 GT að stærð.

2170. Örfirisey RE ex Polarborg I. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Stokksnes EA 410

1325. Stokksnes EA 410 ex Stokksnes SF 89. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1995.

Þar sem ég sit og horfi út á Vigoflóann er upplagt að birta mynd af einum Spánartogaranum af minni gerðinni.

Stokksnes EA 410 hét upphaflega Otur GK 5 og kom til landins 5. apríl árið 1974. Eigandi togarans var Portland hf. og heimahöfn hans Hafnarfjörður.

Otur GK 5, sem var 451 brl. að stærð, var smíðaður í Construcciones Navales Santodomingo S.A. Vigo og var nýsmíði stöðvarinnar nr. 416. 

Hann var annar í röðinni af 5 skuttogurum af minni gerð (undir 500 brl.), sem smíðaðir voru á Spáni fyrir Íslendinga, en fyrsti skuttogarinn í þessari raðsmíði var Hólmanes SU 1.

Otur varð síðar HF 16 eftir að Sjólastöðin hf. keypti hann árið 1982. Togarinn var seldur til Hafnar í Hornafirði árið 1989 þar sem hann fékk nafnið Stokksnes SF 89.

Árið 1995 kaupir Stokksnes hf., fyrirtæki í eigu Samherja hf., Matvælaiðjunnar Strýtu hf. á Akureyri og Söltunarfélags Dalvíkur hf. togarann. Skipið, sem Samherji hafði haft á leigu um nokkurn tíma, fékk hélt nafninu en varð EA 410.

Sama ár er togarinn seldur Meitlinum hf. í Þorlákshöfn sem nefnir hann Jón Vídalín ÁR 1. Síðar varð hann Jón V ÁR 111 um tíma en seldur til Namibíu í júní árið 1989.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Hraunsvík GK 68

727. Hraunsvík GK 68 ex Gissur ÁR6. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Hér er Hraunsvík GK 68 að koma til hafnar í Grindavík um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Hraunsvík hét upphaflega Akurey SF 52 og var smíðuð í Danmörku 1956.

Svo sagði frá í Morgunblaðinu 12. apríl 1956:

Tveir nýir bátar komu til Hornafjarðar í gær. Eru þeir báðir af sömu gerð og stærð, 53 smálestir með 230 hestafla Dams-dísilvél. Þeir eru búnir öllum  nýtízku vélaútbúnaði og m. a. er sími í öllum vistarverum skipverja.

Bátarnir voru smíðaðir í Faaborg á Fjóni og heita Akurey og Helgi. Bjarni Runólfsson og Guðni Jóhannesson sigldu bátunum hingað til lands, en eigendur eru Tryggvi Sigjónsson og Ólafur Ruhólfsson. Bátarnir búast nú á vertíð. 

UPPFÆRT: Fékk sendar upplýsingar sem segja að Tryggvi Sigjónsson og Ólafur Runólfsson hafi átt Helga, en Akurey áttu Haukur Runólfsson, Ágúst Runólfsson og Ásgeir Þ. Núpan.

Bátarnir áttu að vera komnir mikið fyrr, en þeir lokuðust inn á smíðastað vegna mikilla frosta, sem urðu til þess að sjóinn lagði langt út í Kattegat.

Í fréttinni stendur að í bátunum hafi verið Dams dísilvélar en í Íslensk skip segir að í Akurey hafi verið Deutz.

Saga Akureyjar nær amk. til ársins 1988 þegar Samherji kaupir hana til að auka kvóta sinn.

Saga Helga SF 50 eru öllu styttri og sorglegri en báturinn fórst á Færeyjarbanka 1961. Af níu manna áhöfn björguðust tveir í gúmíbjörgunarbát og þaðan í skoska línuskipið Verbena frá Kirchhaldy (Íslensk skip).

Akurey hét eftirfarandi nöfnum: Akurey SF 52 til 1962. Rán SU 58 til 1967. Gissur ÁR 6 til 1970 og þá Hraunsvík GK 68.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Samskip Artic og MYS Cheltinga

Hafnarfjarðarhöfn í lok maí 2019. Ljósmynd Magnús Jónsson.

Maggi Jóns sendi mér þessar myndir fyrr í sumar en þær tók hann í lok maímánaðar í Hafnarfirði.

Það var nokkuð umleikis þann dag, erlendir togarar að landa í flutningaskip við bryggju og þeir þurftu olíu og aðrar nauðsynjar.

2923. Togarinn og Barkur utan á MYS Cheltinga. Ljósmynd Magnús Jónsson 2019.

MYS Cheltinga lá utan á Samskip Artic og var afurðum togarans skipað um borð í flutningaskipið.

Samskip Artic og MYS Cheltinga í Hafnarfjarðarhöfn. Ljósmynd Magnús Jónsson 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution