Blængur NK 125 gerði það gott í Barentshafinu

1345. Blængur NK 125 ex Freri RE 73. Ljósmynd Hákon U. Seljan Jóhannsson 2019.

Frystitogari Síldarvinnslunnar, Blængur NK 125, kom til Neskaupstaðar úr Barentshafinu í morgun. 

Á heimasíðu Síldarvinnlsunnar segir að skipið hafi haldið til veiða frá Neskaupstað hinn 3. júní sl. og hóf veiðar hinn 8. júní.

Það var 29 daga á veiðum og var aflinn 1.421 tonn upp úr sjó, þar af 1.290 tonn þorskur. Aflaverðmætið mun vera um 500 milljónir sem er mesta aflaverðmæti austfirsks skips í einni veiðiferð hingað til.

Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri sagði í samtali við heimasíðuna að áhöfnin væri bæði glöð og þreytt eftir veiðiferðina. „Það er ekki annað hægt að segja en að veiðiferðin hafi gengið einstaklega vel. Það var góð veiði frá fyrsta kasti og vinnslan gekk með miklum ágætum frá upphafi til enda.

Fiskurinn sem fékkst var líka stór og góður. Við vorum allan tímann að veiðum norður af Múrmansk, 5-20 mílur frá 12 mílna línunni. Lengst af voru íslensku skipin þarna sex talsins og var ákaflega gott samstarf á milli þeirra. Menn voru í góðu sambandi og hjálpuðust að. Síðustu dagana vorum við hins vegar eina íslenska skipið á miðunum. Þessi góða veiði er afskaplega ánægjuleg  en í fyrra gekk ekki svona vel á þessum miðum um þetta leyti árs.

Veiðin núna er í reyndinni sú besta í mörg ár á þessum árstíma og við komum því í heimahöfn glaðir og hressir,“ sagði Bjarni Ólafur.   

Að sjálfsögðu var vel tekið á móti áhöfn Blængs við heimkomuna í morgun. Meðal annars var boðið upp á dýrindis tertu. Gert er ráð fyrir að skipið haldi á ný til veiða nk. miðvikudag og þá verður fiskað á miðum hér við land. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Skátinn GK 82

1373. Skátinn GK 82 ex Gustur SH 55. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2008.

Netabáturinn Skátinn GK 82 kemur hér að landi í Grindavík á vetrarvertíðinni árið 2008.

Skátinn GK 82 heitir Láki í dag og er gerður út til siglinga með ferðamenn frá Grundarfirði.

Upphaflega hét báturinn Frosti ÞH 230 og var smíðaður fyrir Frosta h/f á Grenivík í Bátasmiðjunni Vör h/f á Akureyri árið 1974.

Báturinn sem er 29 brl. að stærð, var seldur Pálma Karlssyni á Húsavík árið 1978 og fékk nafnið Helga Guðmunds ÞH 230.

Pálmi flutti til Reykjavíkur með bátinn upp úr 1980 og varð báturinn þá Helga Guðmunds RE 104. Pálmi seldi bátinn upp á Akranes árið 1982 og fékk hann þar nafnið Reynir AK 18.

Síðan hefur báturinn heitið nöfnunum Egill SH 195, Herdís SH 96, Ársæll Sigurðsson HF 80, Stakkaberg SH 117, Snorri Afi SH 117, Frosti SH 13, Kofri ÍS 41, Skátinn gK 82, Gustur SH 55 og loks Láki SH 55.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Ocean Endavour á Húsavík

Ocean Endavour við Bökugarðinn. Ljósmynd Gaukur Hjartarson 2019.

Farþegaskipið Ocean Endavour var á Húsavík í gær og tók Gaukur Hjartarson þessa mynd af skipinu við Bökugarðinn.

Ocean Endavour siglir undir fána Bahamas með heimahöfn í Nassau. Það var smíðað árið 1982 og mælist 12,907 GT að stærð.

Lengd skipsins er 137,1 metrar og breidd þess 21,01 metrar en hér má lesa allar upplýsingar um skipið.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution