Tómas Þorvaldsson GK 10 á Halanum

2173. Tómas Þorvaldsson GK 10 ex Sisimiut GR-6-500. Ljósmynd Hólmgeir Austfjörð 2019.

Tómas Þorvaldsson GK 1o er í sinni fyrstu veiðiferð og tók Hólmgeir Austfjörð skipverji á Ottó N Þorlákssyni VE 5 þessa mynd í þokusuddanum á Halanum í dag.

Tómas Þorvaldsson GK 10 hét áður Sisimiut GR6-500 en upphaflega er um að ræða togara sem Skagstrendingur hf. á Skagaströnd lét smíða í Noregi árið 1992.

Arnar HU 1 hét hann og var seldur til Grænlands árið 1995 og fékk þá nafnið Sisimiut. Þorbjörn hf. í Grindavík keypti hann aftur til Íslands og fékk hann afhentan í vor.

Tómas Þorvaldsson GK 10 er 67 metra langur og 14 metra breiður.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.

Veronica B og Beatriz B í Randes

Veronica B – Beatriz B við kajann í Randes. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Flutningaskipin Veronica B og Beatriz B liggja við bryggju í Randes í Vigoflóanum innanverðum.

Og hafa legið lengi sýnist mér en skipin eru 14, 016 GT að stærð. 160 metra löng og 25 metra breið. Smíðuð 2007.

Þau voru færð þarna inneftir eftir að hafa verið í slipp hjá Factorías Vulcano í Vigo. Spurning hve lang er síðan það var.

Veronica B – Beatriz B við kajann í Randes. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Muggur EA 26

1186. Muggur EA 26 ex Haförn HU 4. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2000.

Muggur EA 26 kemur hér til Húsavíkur í ágústmánuði árið 2000 þeirra erinda að ná í rækjutroll.

Muggur var smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri árið 1971 fyrir Dalvíkinga og hét upphaflega Bliki EA 12. Síðar Jói á Nesi SH 159 og því næst Ásgeir ÞH 198 frá Húsavík.

Seldur frá Húsavík á Hvammstanga þar sem hann fékk nafnið Haförn HU 4. Fór austur á land og varð Haförn SU 4. Næst var það Haförn HF 375 og því næst Örn ÍS 18, Örn Í 122 og síðan aftur Haförn HU 4.

Árið 200o fékk hann nafnið Muggur EA 26 eftir að hafa verið keyptur til sinnar upprunalegu heimahafnar á ný.

Á vef Árna Björns, aba.is, segir að verið sé að endurbyggja bátinn sem tekinn var af skipaskrá árið 2006.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution.