Nýja Vestmannaey VE 54 í prufusiglingu

2954. Vestmannaey VE 54 í reynslusiglingu. Ljósmynd Vard 2019.

Hin nýja Vestmannaey, sem er í smíðum hjá skipasmíðastöð Vard í Aukra í Noregi, fór í prufusiglingu hinn 27. júní sl.. 

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar segir að hinn 5. júlí hafi síðan veiðarfæraprófanir fraið fra en þá var allur búnaður sem tengist veiðarfærum um borð í skipinu prófaður.

Guðmundur Alfreðsson, útgerðarstjóri Bergs-Hugins, er í Noregi og segir að siglingin og veiðarfæraprófanirnar hafi gengið vel í alla staði og ríki mikil ánægja með skipið. 

Gert er ráð fyrir að Vestmannaey verði afhent Bergi-Hugin, dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar, síðar í þessari viku. 

Systurskip Vestmannaeyjar, Bergey, er einnig í smíðum hjá Vard í Aukra og er ráðgert að það verði sjósett í ágústmánuði næstkomandi.

Skipin eru tæplega 29 metrar að lengd og 12 metra breið og há.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Grundfirðingur hefur fengið nafnið Langanes

1202. Grundfirðingur SH 24 nú Langanes GK 525. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Grundfirðingur SH 24 hefur fengið nafnið Langanes GK 525 samkvæmt skipaskrá Samgöngustofu. Eigandi er Grímsnes ehf. og heimahöfnin Njarðvík.

Báturinn hét upphaflega Þorlákur ÁR og  var smíðaður hjá Stálvík í Garðabæ 1972 fyrir Meitilinn h/f í Þorlákshöfn.  Sögu hans má lesa hér

Báturinn var lengi vel blár en síðustu 18 árin sem hann hefur verið í Grundarfirði hefur hann verið grænn. Það má gera ráð fyrir því að hann fái nú rauða litinn sem prýtt hefur báta Hólmgríms Sigvaldasonar lengi og er ég fullviss um að það muni fara honum vel.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution

Ólafur Magnússon HF 77

711. Ólafur Magnússon HF 77 ex Ólafur Magnússon VE 16. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2002.

Ólafur Magnússon HF 77 kemur hér til hafnar í Sandgerði á vetrarvertíðinni árið 2002.

Ólafur Magnússon var smíðaður í Skipasmíðastöð Njarðvíkur árið 1956 og var upphaflega KE 25. Smíðaður eftir teikningu Egils Þorfinssonar fyrir Albert Ólafsson ofl. í Keflavík.

Svo sagði frá í 3. tbl. Faxa árið 1956:

Þann 4. febrúar í vetur hljóp af stokkunum í Skipasmíðastöð Njarðvíkur nýr bátur, sem hlaut nafnið m.b. Ólafur Magnússon. Eigendur bátsins eru Albert Ólafsson útgerðarmaður, Erlendur Jónsson og Maren Jónsdóttir. Skipstjóri er Óskar lngibergsson.

Báturinn er smíðaður úr eik, 58 smálestir að stærð og vélin 280 hestafla dieselvél, Mannheim gerð. Ganghraði bátsins er mjög góður, enda vélin öflug, miðað við stærð bátsins. Teikningu gerði Egill Þorfinnsson í Keflavík, en Bjarni Einarsson skipasmiður sá um byggingu bátsins.

Niðursetning vélar sá um Jón Valdimarsson og raflagnir Snæljós, Kefla. Báturinn er hinn vandaðisti í alla staði. Hann er búinn öllum nauðsynlegustu öryggistækjum og þar á meðal Simraad dýptarmæli með Astic útfærslu.

Er mikill fengur að þessu glæsilega skipi í flota Keflvíkinga.

Báturinn bar nafnið Ólafur Magnússon þar til hann fékk nafnið Sif HU 39 árið 2002 sem reyndist hans síðasta nafn. Báturinn sökk í höfninni á Hvammstanga haustið 2008 þar sem hann hafði legið um hríð. Honum var náð á flot aftur en báturinn var síðan rifinn á Hvammstanga. Hann var afskráður af skipaskrá haustið 2010.

Reyndar var ein undantekning á nafninu þessi rúmlega fjörutíu ár, í stuttan tíma hét hann Ólafur ÁR 54. en einnig Ólafur Magnússon ÁR 54.

Lengi vel var hann gerður út frá Skagaströnd en þangað var hann keyptur frá Eyrarbakka (frekar en Stokkseyri) árið 1978. Hann vék árið 1997 fyrir Þóri SF, sem fékk nafns hans og númer, og var seldur í Stykkishólm þar sem hann fékk einkennisstafina SH og númerið 46.

Þaðan var hann seldur til Vestmannaeyja árið 1999, enn hét hann Ólafur Magnússon en nú VE 16. Árið 2001 er hann kominn til Hafnarfjarðar og skráður HF 77 sem hann ber á myndinni þó það sjáist ekki vel.

Haustið 2002 er hann kominn norður á Hvammstanga þar sem hann fékk nafnið Sif HU 39 eins og áður kemur fram.

711. Ólafur Magnússon HF 77 ex Ólafur Magnússon VE 16. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2002.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

By clicking on the images you can view them in higher resolution