Þorsteinn GK 16

145. Þorsteinn GK 16 ex Kópur GK 175. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Þorsteinn GK 16 leggur hér úr höfn á Húsavík áleiðis á rækjumiðin úti fyrir Norðurlandi

Þorsteinn hét upphaflega Lómur KE 101 og var smíðaður í Molde í Noregi 1963 fyrir Brynjólf hf. í Keflavík. Báturinn var 202 brl. að stærð og búinn 660 hestafla Lister aðalvél. Hann var endurmældur 1969 og varð við það 178 brl.

Haustið 1973 kaupir Kópanes hf. í Reykjavík bátinn og fær hann nafnið Kópur RE 175. Í ársbyrjun 1977 kaupa Guðmundur Þortseinsson og Jóhannes Jónsson í Grindavík bátinn sem heldur nafninu en verður GK 175. 1979 var skipt um aðalvél, 720 hestafla Mirrless Blackstone kom í stað Listersins.

1980 er skráður eigandi að bátnum Hóp hf. og hann fær nafnið Þorsteinn GK 16 sem hann bar þar til yfir lauk.

Eins og menn vita sem áhuga hafa á bátum fékk Þorsteinn netin í skrúfuna undan Krýsuvíkurbjargi þann 10. mars 1997. Hann varð við það vélavana og rak upp í bergið eftir að akkerisfestar hans höfðu slitnað, en ekki tókst að koma aðalvélinni í gang. 

Áður en báturinn strandaði hafði þyrla Landhelgisgæslunnar bjargað tíu manna áhöfn hans. Veðrið var slæmt og Þorsteinn fylltist af sjó eftir að hann strandaði og valt síðan á hliðina. Ægir konungur var síðan ekki lengi að eyðileggja flakið þar sem það lá óvarið fyrir ágangi sjávar.

Þorsteinn GK hafði verið yfirbyggður 1985 auk þess sem skipt hafði verið um brú á honum. Áður en hann var yfirbyggður að fullu var hann hálf yfirbyggður eins og svo margir Grindavíkurbátar voru.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Falksea kom með salt

Falksea. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Norska flutningaskipið Falksea kom til Húsavíkur í morgun með saltfarm.

Um leið og hafnarstarfsmenn höfðu bundið Önnu (Sem segir frá í næstu færslu á undan) við bryggju voru landfestar Falksea leystar og lét skipið úr höfn og sigldi áleiðis til Dalvíkur.

Falksea er 90 metra langt og 14 metra breytt. Mælist 2,999 GT að stærð. Smíðað árið 2002 og hét upphaflega Arklow Rambler.

Falksea er með heimahöfn í Stavanger.

Falksea lætur úr höfn á Húsavík. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Anna á Skjálfanda

Anna. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Flutningaskipið Anna kom til Húsavíkiur um kaffileytið í dag og voru þessar myndir teknar þá.

Hún lagðist að Bökugarðinum þar sem skipað verður upp hráefnisfarmi fyrir PCC á Bakka.

Anna er 126 metrar að lengd og 14,4 metrar á breidd. Mælist 5,044 GT að stærð. Smíðuð árið 2011.

Anna siglir undir fána Gíbraltar.

Anna. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Víkingur AK 100

220. Víkingur AK 100. Ljósmynd Kristján Friðrik Sigurðsson.

Víkingur AK 100 er hér á loðnumiðunum , sennilega sumarið 2004.

Myndina tók Kristján Friðrik Sigurðsson sem var þá í afleysingartúr á Björgu Jónsdóttur ÞH 321.

Um Víking AK 100 er það að segja að hann hét alla tíð Víkingur AK 100 og þjónaði eigendum sínum í yfir hálfa öld

Byggður í Þýskalandi 1960 sem síðutogari fyrir Síldar- og fiskimjölverk-smiðju Akraness. Yfirbyggður og breytt í nótaskip árið 1977.

Sögu Víkings AK 100 má lesa í greina Haraldar Bjarnasonar í Skessuhorni

Með því að smella á myndina er hægt að skoð ahana í hærri upplausn.