Jón Garðar GK 475

989. Jón Garðar GK 457. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Jón Garðar GK 475 kom nýsmíðaður til landsins 23. júlí árið 1965 og var þá stærsti síldarbátur landsins.

Í 7. tbl. Faxa það ár sagði svo frá:

Stærsti bátur síldarflotans.

Föstudaginn 23. júl. í sumar kom til landsins stærsti síldarbátur íslenzka flotans, Jón Garðar, GK 475, eigandi hans er hinn landskunni útgerðarmaður, Guðmundur Jónsson, Rafnkelsstöðum í Garði. 

Jón Garðar er 317 rúmlestir að stærð. Hann er byggður hjá Kaarbös Mekaniske Værksted A/S, Harstad, og er þetta sjötta skipið sem þessi skipasmíðastöð byggir fyrir Íslendinga, hin fyrri eru Grótta, Árni Magnússon, Jón Kjartansson, Höfrungur III og Arnar.

Þessi skip eru öll þekkt sem mikil aflaskip. Guðmundur Jónsson bindur miklar vonir við hið nýja, stóra og glæsilega skip, sem er búið öllum þeim tækjum, sem nú eru notuð í nýtízku báta, sem notaðir eru til síldveiða. 

Í skipinu eru 700 hestafla Wicman aðalvél, og gekk skipið í reynslusiglingu tólf mílur. Í því eru tvær Volvopenta hjálparvélar hvor um 80 hestöfl. Þá eru þar þrjú Simradtæki, sérstök ísvél, sem framleiðir 8 tonn af ís á sólarhring. Jón Garðar á því að geta komið með betri síld ef sigla þarf langt með hana. Í skipinu er síldardæla af nýjustu gerð. 

Gunnar Guðmundsson veitti skipinu viðtöku fyrir hönd föður síns, en skipstjóri á því er Víðir Sveinsson, sem hefur verið með Víði II að undanförnu. Umboðsmenn skipasmíðastöðvarinnar á Íslandi eru Eggert Kristjánsson & Co hf. 

1975 var báturinn seldur Hilmari Rósmundssyni og Theódóri Ólafssyni Vestmannaeyjum og nefndu þeir hann Sæbjörgu VE 56. Skipið var lengt og yfirbyggt 1978. Sæbjörgin strandaði austan við Stokksnes þann 17 des. 1984  og eyðilagðist. Áhöfnin, 14 manns, bjargaðist í land með hjálp björgunarsveitarinnar á Hornafirði. 

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Kolbeinsey ÞH 10

1576. Kolbeinsey ÞH 10. Ljósmynd Sigfús H. Jónsson.

Kolbeinsey ÞH 10 var smíðuð fyrir Höfða hf. á Húsavík í Slippstöðinni á Akureyri.

Kolbeinsey var gefið nafn og hún sjósett þann 7. febrúar 1981. Til heimahafnar kom hún 10. maí sama ár. Kolbeinsey var eins og segir í upphafi fyrst í eigu Höfða hf. því næst í eigu Íshafs hf. þá aftur í eigu Höfða hf. og að lokum í eigu Fiskiðjusamlags Húsavíkur hf.

Kolbeinsey  var 430 brúttórúmlestir að stærð og gerð út á Húsavík til haustsins 1997. Þá var hún seld án kvóta til Bolungarvíkur. Kaupandinn var Þorbjörn-Bakki hf. og fékk hún nafnið Hrafnseyri ÍS 10.

1998 heitir hún Guðrún Hlín BA 122 eftir að Háanes hf. á Patreksfirði keypti skipið. Skipin var flaggað út um tíma undir nafninu Helterma en 2004 er hún aftur komin til veiða hér við land og nú aftur undir nafninu Kolbeinsey BA 123 og var í eigu GP-útgerðar ehf. á Patreksfirði.

Árið 2007 er útgerðaraðili Miðvogur ehf. og 2008 er hún komin í núllflokk hjá Fiskistofu. Hún lá um tíma í höfn í Vogey í Færeyjum en endaði í Suður-Afríku þar sem hún fékk nafnið Laverne. Heimahöfn Cape Town.

1576. Kolbeinsey ÞH 10. Ljósmynd Sigfús H. Jónsson.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Hraunsvík GK 75 í kröppum sjó

1907. Hraunsvík GK 75 ex Konráð SH 60. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Enn er leitað í myndir Jóns Steinars Sæmundssonar í Grindavík en nú er það Hraunsvík GK 75 í innsiglingunni til Grindavíkur.

Myndirnar tók Jón Steinar í gær þegar Hraunsvíkin kom að landi eftir að hafa skotist út og lagt netin þrátt fyrir þungan sjó.

1907. Hraunsvík GK 75 ex Konráð SH 60. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Hraunsvík var smíðuð í Svíþjóð 1984. Búið er að lengja hana, breikka, hækka þilfar, skipta um vél og brú síðan. Mælist 25,3 BT. Upphaflega Húni II SF, en síðar Gunnvör ÍS 53 og Konráð SH 60. Útgerð Víkurhraun ehf. í Grindavík.

1907. Hraunsvík GK 75 ex Konráð SH 60. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

1907. Hraunsvík GK 75 ex Konráð SH 60. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.