Wilson Nantes á Húsavík

Wilson Nantes. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Wilson Nantes liggur nú við Bökugarðinn og losar hráefnisfarm til PCC á Bakka.

Skipið var smíðað árið 2011 og siglir undir fána Möltu með heimahöfn í Walletta.

Það er 123 metra langt og 17 metra breitt. Mælist 6,118 GT að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að sjá hana í hærri upplausn.

Andvari ÞH 81

278. Andvari ÞH 81 ex TH 81. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Hagbarður ÞH 81 var smíðaður á Akureyri 1942 og hét upphaflega Baldvin Þorvaldsson EA 721 frá Dalvík.

Hann var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA fyrir Baldvin, Aðalstein og Guðjón Loftssyni á Dalvík. 

Upphaflega var 40 hestafla Skandia aðalvél í bátnum en 1955 var sett í hann 70 hestafla Munktell. 1962 var aftur skipt um aðalvél, að þessu sinni 200 hestafla Scania sett niður.

Báturinn, sem var 16. brl. að stærð, var seldur haustið 1946 til Hofsóss, kaupandinn Þorgrímur Hermannsson og hélt hann nafninu á bátnum en einkennisstafir og númer voru SK 60.

Í nóvember 1954 kaupir Þráinn Sigurðsson á Siglufirði bátinn og enn heldur hann nafninu. Einkennisstafir og númer urðu SI 70.

Í maí 1961 er báturinn seldur til Húsavíkur þar sem hann fær nafnið Andvari ÞH 81. Kaupendur eru þeir Sigurbjörn Sörensson, Sigurður Gunnarsson og Þorgrímur Sigurjónsson. 

Hagbarður hf. á Húsavík keypti bátinn árið 1968 og fékk hann þá nafnið Hagbarður ÞH 81. Sumarið 1971, nánar tiltekið þann 26. júní strandaði báturinn í Þistilfirði.

Í Morgunblaðinu 29. júní segir frá þessu óhappi:

Strandaði fyrst — sökk síðan

BÁTURINN Hagbarður frá Húsavík strandaði á Þistilfirði á laugardag og sökk síðan nálægt Þórshöfn á sunnudag, þegar varðskip var að draga hann til hafnar. Hagbarður er gamalt skip, 16 lesta trébátur frá 1942.

Laust eftir hádegi á laugardag strandaði báturinn á Hólmsnesi í Þistilfirði. Reru mennirnir af honum í land á gúmbáti, og tóku land nálægt bænum Ytra-Álandi. Hafði heimafólk frétt af þeim og var lagt af stað niður að sjó, er þeir komu að landi.

Var beðið um að Árvakur, sem var þarna skammt frá, kæmi og drægi bátinn á flot. Settu varðskipsmenn dælu um borð og hélt það bátnum á floti. Var ætlunin að draga bátinn til Þórshafnar, en þegar sjór tók að ókyrrast, fór eitthvað í dælurnar, svo að þær stífluðust og sökk Hagbarður um 500 m frá bryggju. Voru þá fjórir menn um borð og sakaði þá ekki.

Á vef Árna Björns á Akureyri, aba.is, má lesa um afdrif bátsins.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.