Júpíter ÞH 61

161. Jípíter ÞH 61 ex Júpíter RE 161. Ljósmynd Kristján Friðrik Sigurðsson.

Á þessum myndum Kristjáns Fr. Sigurðssonar má sjá samvinnu sjómanna á miðunum við Ísland.

Júpíter ÞH 61 er búinn að fylla sig af loðnu og Björg Jónsdóttir ÞH 321 kemur að honum til að fá það sem eftir er í nótinni.

161. Júpíter ÞH 61 ex Júpíter RE 161. Ljósmynd Kristján Fr. Sigurðsson.

Þegar myndirnar voru teknar var flotinn við loðnuveiðar að sumarlagi.

161. Júpíter ÞH 61 – 1508. Björg Jónsdóttir ÞH 321. Ljósmynd Kristján Fr. Sigurðsson.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Guðbjörg RE 21

1201.Guðbjörg RE 21. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1982.

Guðbjörg RE 21 kemur hér að bryggju í Þorlákshöfn á vetravertíðinni 1982 og Njáll RE 275 hefur komið að landi áður.

Guðbjörg RE 21 var sjósett þann 30. desember 1971 á Fáskrúðsfirði og 3. janúar 1972 skrifaði Albert Kemp fréttaritari Morgunblaðsins frétt þar sem m.a þetta kom fram:

FIMMTUDAGINN 30. desember var sjósettur 26 rúmlesta fiskibátur hjá Trésmiðju Austurlands á Fáskrúðsfirði. Eigandi er Flosi Gunnarsson, Reykjavík. 

Báturinn er með Saab-dísilvél, 220 hestöfl. Hann er auk þess búinn fullkomnustu siglingartækjum, ratsjá, 64 mílna, dýptarmæli og fisksjá og sjálfstýring er í bátnum og miðunarstöð.

Þá er í bátnum ljósavél af Petters-gerð. Báturinn verður útbúinn fyrir togveiðar og línuveiðar og rafmagnsrúllur verða settar i hann fyrir handfæri. 

Báturinn hlaut nafnið Guðbjörg RE 21, og er þetta 6. þilfarsbáturinn, sem Trésmiðja Austurlands h.f. afgreiðir á árinu 1971 og 4. báturinn af þessari gerð. Teikningu gerði Egill Þorfinnsson í Keflavík. 

Auk þess hefur trésmiðjan afgreitt tvo trillubáta, um það bil 4 rúmlesta og var hinn 3. sjósettur í dag. Búið er að semja í dag um smíði 3ja 15 tonna báta, eins 25 tonna og eins 10 tonna ásamt 3 trillubátum. 

Samtals eru þetta verkefni fyrir um 30 milljónir króna. Allir þessir bátar sem samið hefur verið um eiga að afhendast á árinu 1972.

1201.Guðbjörg RE 21. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Guðbjörg var seld til Vestmannaeyja frá Reykjavík þar sem hann fékk nafnið Sigurbára VE 249 og síðar Gæfa VE 11. Gæfunafnið bar hann eftir að hann fór frá Eyjum, ýmist GK eða SH. Síðar Sigurvin SH 119 og loks Sigurvin GK 119.

Sigurvin GK 119 sökk á Breiðafirði sumarið 2006 er hann var á skötuselsnetum.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.