Júpíter RE 161

161. Júpíter RE 161 ex Gerpir NK 106. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Júpíter RE 161 er hér að rækjuveiðum úti fyrir Norðurlandi, skömmu fyrir 1990.

Júpíter RE 161 hét upphaflega Gerpir NK 106 og var smíðaður í Þýskalandi fyrir 1960 fyrir Bæjarútgerð Neskaupsstaðar.

Gerpir NK 106 var seldur Júpíter h/f í Reykjavík árið 1960 og fékk þá nafnið Júpíter RE 161. Hrólfur Gunnarsson skipstjóri keypti Júpíter 1978 og ári síðar var skipið yfirbyggt og breitt í nótaskip.

Skipið mældist 746,6 brúttólestir, mesta lengd þess var 64 m og bar það um 1.300 tonn. Jafnframt var sett í það 2640 hestafla Wartsila aðalvél í stað 1470 hestaafla MAN sem hafði verið í honum frá upphafi.

Einar Guðfinnsson hf. á Bolungarvík og Lárus Grímsson skipstjóri keyptu hlut í Júpíter af Hrólfi Gunnarssyni útgerðarmanni í Reykjavík og stofnuðu þessir þrír aðilar hlutafélag um rekstur skipsins. 

Júpíter var síðan seldur til Þórshafnar árið 1993 og varð Júpíter ÞH 61. Kaupandinn var Skálar h.f sem var stofnað af Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., Tanga hf. á Vopnafirði, Fiskiðjunni Bjargi hf. á Bakkafirði, sveitarfélögum á svæðinu og fleiri aðilum.

Ísfélag Vestmannaeyja hf. keypti Júpíter í upphafi árs 2005 og fékk hann nafnið Suðurey VE 12. Síðar Bjarnarey VE 21.

Bjarnarey VE 21 fór utan til niðurrifs árið 2008.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Bjarnarey NS 7

198. Bjarnarey NS 7. Ljósmynd Hannes Baldvinsson Siglufirði.

Hérna sjáum við Bjarnarey NS 7 á mynd Hannesar Baldvinssonar sem hann tók á Siglufirði á síldarárunum.

Bjarnarey var einn tappatogaranna svokölluðu sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í A-Þýskalandi á árunum 1958-9.

Í Degi sagði svo frá þann 16. desember 1959:

Hingað til Akureyrar kom á mánudaginn austur-þýzka togskipið Bjarnarey, sem hreppti ofviðri mikið á hafi, en komst heilu og höldnu í heimhöfn á Vopnafirði á fimmtudagskvöldið.

Hólmsteinn Helgason, oddviti Raufarhafnarhrepps og framkvæmdastjóri tveggja togskipanna austur þar, fór utan með áhöfn skipsins, er það var sótt, og kom með því hingað upp. 

Blaðið hitti hann að máli þegar skipið var lagzt að bryggju hér á Akureyri og spurði hann frétta.

Þið lentuð í ofviðri á heimleiðinni?

Já, við lögðum af stað frá Kaupmannahöfn föstudaginn 4. desember. En á sunnudaginn um kl. 1.30 bilaði stýrisvélin. Skipið var þá statt vestur af Noregi, austarlega í Norðursjó, með stefnu fyrir norðan Hebrideseyjar. Veðrið var hið versta, rok og stórsjór á eftir. Við vorum að hlusta á fréttir af skipssköðum hingað og þangað í hinu ægilega veðri.

Náðum við þá sambandi við Bergen og báðum um aðstoð, en þar var okkur sagt, að enginn nægilega stór og traustur dráttarbátur væri þar fyrir hendi, er komið gæti til aðstoðar í þessu veðri. Leitað var þá til Oslóar með milligöngu frá Bergen og mun björgunarfélagið þar hafa sent bát eða skip af stað. En um þetta leyti náðum við sambandi við Hvassafell, er var á svipuðum slóðum, og varð að ráði, að það veitti okkur aðstoð. Afturkölluðum við því beiðni okkar um hjálp frá frændum okkar, Norðmönnum.

Hvernig aðstoðaði Hvassafell ykkur?

Það kom til okkar og dældi olíu í sjóinn öðru hvoru og fengum við ekkert áfall eftir það. Og á meðan fór fram aðgerð á stýrisvélinni. Hvassafell lá hjá okkur alla mánudagsnóttina. Þegar viðgerð var lokið hjá okkur, héldum við í átt til Færeyja og var Hvassafell á næstu grösum þangað upp.

Hvernig líkaði þér nýja skipið?

Mér virðist skipið gott í sjó að leggja og hafa fyrsta flokks sjóhæfni.

Er það rétt, að þetta nýja skip sé á annan veg smíðað en hin fyrri togskip af þessari gerð?

Á Bjarnarey eiga að vera leiðréttir nokkrir gallar, sem fram hafa komið á þessum togskipum, segir Hólmsteinn. Barlestin var létt og öðruvísi frá henni gengið, borðstokkar voru hækkaðir og tekið burtu ankersspil af bakkanum.

Hver var skipstjóri á heimleið?

Hann heitir Magnús Bjarnason, Jónssonar frá Vogi, og er Reykvíkingur. Stefán Stefánsson frá Dalvík var stýrimaður og tekur hann nú við skipstjórn. Skipið á ð fara á togveiðar eftir áramótin

Hverjir eru eigendur Bjarnareyjar?

Stærsti hluthafinn er Vopnafjarðarhreppur og Vopnafjörður er heimahöfn Bjarnareyjar. Aðrir hluthafar eru: Þórshafnarhreppur, Raufarhafnarhreppur og Borgarfjarðarhreppur, auk nokkurra einstaklinga í þessum hreppum. En þetta útgerðarfélag á líka togskipið Jón Trausta.

Hvernig eru horfur til útgerðar hinna nýju skipa ykkar?

Við ýmsa erfiðleika er að etja, fyrir þetta útgerðarfélag okkar, segir Hólmsteinn. Mikið veltur á skilningi og getu lánastofnana og svo auðvitað aðgerða ríkisstjórnarinnar gagnvart útgerðinni almennt.

Blaðið þakkar Hólmsteini Helgasyni fyrir svörin og árnar hinu nýja og glæsilega skipi og áhöfn   þess   fengsælla veiðiferða og annars velfarnaðar í bráð og lengd.

Bjarnarey og Jón Trausti munu bæði hefja togveiðar eftir áramótin. Jón Trausti var á mánudaginn að landa ofurlitlu af fiski hér á Akureyri, en er hættur veiðum, þar til á nýja árinu.

Við heimkomuna til Vopnafjarðar, var fjöldi fólks viðstaddur til að sjá skipið. Hólmsteinn ávarpaði viðstadda af skipsfjöl, en oddviti Vopnafjarðarhrepps, Sigurður Gunnarsson, ávarpaði skipshöfn og aðra viðstadda fyrir hönd heimamanna. 

Bjarnarey flutti töluvert af varahlutum og tækjum til hinna mörgu 250 lesta systurskipa, sem áður voru komin til landsins.

Bjarnarey NS 7 er sögð í eigu Ríkissjóðs frá  5. nóvember 1959 til 8. júní 1962 er hún var seld Röst h/f í Bolungarvík. Fékk hún nafnið Sólrún ÍS 399 sem hún bar til ársins 1979 er hún var seld til Svíþjóðar. Afskráð 10. desember 1979.

Frá Svíþjóð var hún seld til Ítalíu 1980 og Óskar Franz telur hana hafa farið í brotajárn 1996.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Gunnar Bjarnason SH 122

2462. Gunnar Bjarnason SH 122 ex Ósk KE 5. Ljósmynd Alfons Finnsson.

Gunnar Bjarnason SH 122 er einn Kínabátanna svokölluðu sem smíðaðir voru árið 2001 í Dalian skipasmíðastöðinni í samnefndri borg í Kína.

Gunnar Bjarnason SH 122 hét upphaflega Rúna RE 150 frá Reykjavík en í janúar árið 2005 fær hann nafnið Ósk KE 5 eftir að Útgerðarélagið Ósk ehf. keypti bátinn af Útgerðarfélaginu Rún sf.

Það er svo um mitt ár 2006 sem Útgerðarfélgið Haukur ehf. í Ólafsvík kaupir Óskina og þá fær hann núverandi nafn.

Gunnar Bjarnason SH 122 var skutlengdur um 2,5 metra í Skipavík í Stykkishólmi og mælist hann nú 100 brl./ 122 BT að stærð.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.