Hrafn GK 111

1401. Hrafn GK 111 ex Ágúst GK 95. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Jón Steinar tók þessar flottu myndir og fleiri til af línuskipinu Hrafni GK 111 koma til hafnar í Grindavík í dag.

Hrafn GK 111 hét upphaflega Gullberg VE 292 og var smíðaður hjá Baatservice Verft A/S í Mandal í Noregi 1974 fyrir Ufsaberg hf. í Vestmannaeyjum.

Gullberg VE 292 var fyrsta skipið af fjórum systurskipum sem smíðuð voru fyrir Íslendinga í Mandal. Því var gefið nafn 7. nóvember 1974 og sigldi inn til heimahafnar í Vestmannaeyjum á Jóladag sama ár.

1401. Hrafn GK 111 ex Ágúst GK 95. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Skipið hét Gullberg VE 292 til vorsins 1999 þegar nýtt og stærra Gullberg VE 292 leysti það af hólmi. Þá fékk það nafnið Gullfaxi VE 192 og síðar KE 292.

Í lok árs 2007 fékk Gullfaxi nafnið Ágúst GK 95 eftir að Þorbjörn hf. í Grindavík eignaðist skipið. Vorið 2015 er svo gerð nafnabreyting og fær Ágúst nafnið Hrafn GK 111.

1401. Hrafn GK 111 ex Ágúst GK 95. Ljósmynd Jón Steinar 2019.

Gullberg VE 292 var yfirbyggt 1977 og lengt 1995 og brúin hækkuð ásamt því að settur var á það bakki.

Hrafn GK 111 er 48,46 metrar á lengd, 8,2 metra breiður og mælist 446 brl. / 601 BT að stærð.

Guðrún Jakobsdóttir EA 144

1968. Guðrún Jakobsdóttir EA 144 ex María Pétursdóttir VE 14. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2006.

Guðrún Jakobsdóttir EA 144 var gerð út af Snudda ehf. á Dalvík á árunum 2005-2006 og landaði m.a á Húsavík í september 2006.

Upphaflega hét báturinn á Íslenskri skipaskrá Arnar KE 260 og var gerður út frá Keflavík. Smíðaður árið 1987 í Noregi en keyptur til Íslands ári síðar.

Síðar var hann KE 160 um tíma en fékk svo nöfnin Hanna Kristín BA 244, HF 244 og SH 242. María Pétursdóttir VE 14, Guðrún Jakobsdóttir EA 144 og loks Aldan ÍS 47 sem hún ber í dag.

Báturinn hefur tvívegis verið lengdur, fyrst á Seyðisfirði og síðar á Akranesi og mælist nú 60 brl. að stærð.

1968. Guðrún Jakobsdóttir EA 144 ex María Pétursdóttir VE 14. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2006.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Nonni ÞH 9 tekinn á land

6705. Nonni ÞH 9 ex Nonni SU 16. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2006.

Trausti heitinn Jónsson gerði út um 12 ára skeið handfærabátinn Nonna ÞH 9 sem er af gerðinni Skel 26.

Á myndinni hér fyrir ofan er hann að undirbúa það að taka bátinn á land eftir skaksumarið 2006. Þórður Sigurðsson frá Sunnuhvoli er mættur á Bensanum og Gunnar heitinn Hvanndal tilbúinn til aðstoðar.

Á myndinni hér að neðan er Nonni ÞH 9 að verða kominn upp á Bensann sem flutti hann í naust.

6705. Nonni ÞH 9 ex Nonni SU 16. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 20016.

Nonni ÞH 16, sem heitir í dag Ylfa Dís NK 9, var smíðaður í Trefjum árið 1985.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri upplausn.

Valentina í höfn á Húsavík

Valentina ex Nicola. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2019.

Valentina er í Húsavíkurhöfn í dag og losar hráefnisfarm til PCC á Bakka.

Skipið, sem áður hét Nicola, var smíðað árið 2000 og er 95,16 metrar að lengd. Breiddin er 13,17 metrar og mælist skipið 2,998 GT að stærð.

Valentina siglir undir flaggi Antigua & Barbuda og heimahöfnin er St. John’s.

Með því að smella á myndina er hægt að sjá hana í hærri upplausn.