Western Rock á Húsavík

Western Rock. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2018.

Flutningaskipið Western Rock kom til Húsavíkur í marsmánuði 2018 með tæki og tól fyrir Eimskip.

Um var að ræða þann búnað sem notaður er til að þjónusta kísilver PCC á Bakka en Eimskip sér um þann verkþátt sem snýr að upp- og útskipun.

Western Rock er glænýtt skip sem var þarna í sinni jómfrúarferð en það siglir undir hollenskum fána með heimahöfn í Urk.

Skipið er 93 metrar að lengd og 14 metra breitt. Mælist 2597 GT að stærð.

Hér má lesa upplýsingar um skipið og þessa skipagerð

Western Rock leggur úr höfn áleiðis til Newcastle á Englandi. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Með því að smella á myndirnar er hægt að skoða þær í hærri uplausn.

Engey RE 1

2662. Engey RE 1 ex Jason. Ljósmynd Alfons Finnsson 2005.

Frystitogarinn Engey RE 1 kom til heimahafnar í Reykjavík þann 22. maí árið 2005 og þá tók Alfons þessa mynd.

HB Grandi hf. hafði keyp skipið og nefnt Engey RE 1 þegar skipið var afhent í lok nóvember árið 2004 á Las Palmas á Kanaríeyjum.

Áður en Engey RE 1 kom til landsins hafði hún verið í Póllandi í endurbótum. Þarna var um og að ræða stærsta skip íslenska fiskveiðiflotans. Togarinn er um 7.000 brúttótonn að stærð, 105 metra langur og 20 metra breiður.

Í Morgunblaðinu 23. maí 2005 sagði m.a að skipið væri smíðað í Vigo á Spáni árið 1994 og hefði verið hið síðasta í röðinni af samtals 14 systurskipum sem voru smíðuð á árunum 1991 til 1994.

Upphaflega hét togarinn Kapitan Demidenko.

Ekki var útgerð Engeyjar löng því á marsmánuði árið 2007 keypti Samherji hf. Engey RE 1 af HB Granda og nefndi Kristinu. Síðar ýmist Kristina EA 410. Kristina eða Alina.

Á heimasíðu Samherja sagði þann 28. september 2017 að fjölveiðiskipið Kristina EA hafi verið selt til Rússlands og verði afhent nýjum eigendum viku síðar. Þar með lauk ríflega 10 ára sögu þess í eigu Samherja.

Skipið heitir í dag sínu upphaflega nafni, Kapitan Demidenko MK-0556.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.

Steinunn SH 167

1134. Steinunn SH 167 ex Ingibjörg RE 10. Ljósmynd Alfons Finnsson.

Dragnótabáturinn Steinunn SH 167 kemur hér að landi í Ólafsvík, myndina tók Alfons vinur minn.

Steinunn hét upphaflega Arnfirðingur II GK 412 og var smíðaður í Stálvík í Garðabæ 1970. Eigandi Arnfirðings II frá því í ársbyrjun 1971 var Arnarvík hf. í Grindavík .

Þegar Arnfirðingur II,sem var 105 brl. að stærð, var að koma úr róðri þann 20. desember sama ár hlekktist honum á í innsiglingunni í Grindavík og rak á land.

Bátnum var síðar bjargað af strandstað og í ágúst 1972 kaupa Gunnar Richter í Reykjavík og Jóhann Níelsson í Garðabæ bátinn og nefna hann Ingibjörgu RE 10.

Í byrjun febrúar 1973 er hann seldur Stakkholti hf. í Ólafsvík og þá fær hann nafnið Steinunn SH 167. Steinunn var lengd og yfirbyggð 1982 og mælist í dag 153 brl. að stærð.

Upphaflega var í bátnum 565 hestafla Caterpillar aðalvél en í dag er í honum 715 hestafla Caterpillar.

1990 seldi Stakkholt hf. báta sína. Núverandi eigendur Steinunnar stofnuðu þá útgerðarfélagið Steinunni ehf. og keyptu bátinn.

Síðan þá er búið að gjörbreyta bátnum, m.a. setja á hann nýja brú, nýr skutur settur á hann auk perustefnis ofl. breytinga.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.