
Hér siglir Hafbjörg EA 23 frá Hauganes eftir að hafa verið skveruð í Slippstöðinni á Akureyri.
Hafbjörg EA 23 hét upphaflega Gísli lóðs GK 130 og var smíðaður fyrir Jón Gíslason útgerðarmann í Hafnarfirði árið 1961.
Í Morgunblaðinu 1. desember 1961 sagði svo frá komu Gísla lóðs til heimahafnar í Hafnarfirði:
Fyrir síðustu helgi kom hingað nýr bátur, sem Jón Gíslason á. Heitir hann Gísli lóðs, eftir föður Jóns, sem var hér hafnsögumaður og vitavörður um 30 ára skeið.
Báturinn, sem smíðaður er í Fredriksund í Danmörku er 100 rúmlestir og var byrjað á smíði hans í febrúar s.l. Hann hefir 460 hestafla Alfa-diesel vél og 30 afla ljósavél af Bukhgerð.
Þá eru í honum öll nýtízku siglingatæki, svo sem Kelvin ratsjá, Zimrad Asdic siglingatæki, dýptarmælir og talstöð af sömu gerð. Ljósmiðunarstöð er japönsk og sjálfstýrisvél Robertson.
Gísli lóðs er hið prýðilegasta sjóskip, að því er skipstjórinn Helgi Aðalgeirsson frá Grindavík sagði blaðinu. Hann kvað allan frágang með ágætum og káetaog klefar skipsmanna væru rúmgóðir. Hvalbakurinn og brúin eru úr aluminíum.
Báturinn er hitaður upp með rafmagni og eldavélin er frá Rafha. Hann er með kraftblökk og sagði Helgi að hann gæti rúmað 1200—1300 tn. síldar, en á þær veiðar fer hannum helgina. — Helgi var áður með Faxaborgina.
Svo mörg voru þau orð en báturinn átti eftir að heita ýmsum nöfnum, s.s Hringur GK 18, Ásgeir Torfason ÍS 96, Dalaröst ÁR 63 og Jón Bjarnason SF 3 áður en hann fékk nafnið Hafbjörg EA 23. Hafbjörg var í eigu Auðbjargar s/f á Hauganesi við Eyjafjörð sem átti einnig Auðbjörgu EA 22.
Því næst hét hann Dóri á Býja Gk 101 og að lokum Íslandía GK 101.
Hann á að hafa verið seldur til Danmerkur á tíunda tug síðustu aldar en aldrei komist lengra en til Runavíkur í Færeyjum þar sem hann dagaði upp. Tekinn af skrá upp úr aldarmótunum.
Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í hærri upplausn.
By clicking on the images you can view them in higher resolution